Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir sjálfsagt að skoða hvernig salan á 31,2 prósent eignarhlut Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun gekk fyrir sig seint á árinu 2014 og hann styðji þá skoðun. Þá verði hins vegar að fara eftir réttum boðleiðum og óska eftir því við Bankasýslu ríkisins, sem heldur á hlut ríkisins í Landsbankanum, eða stjórn bankans að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að gera grein fyrir sölunni, líkt og þeir hafi áður gert. Þetta kom fram í svari Bjarna við óundirbúinni fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun. Árni Páll hefur kallað eftir því opinberlega að sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun verði rannsökuð.
Milljarða hagnaður vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe
Morgunblaðið greindi frá því í gærmorgun að íslensku greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor muni hagnast um vel á annan tug milljarða króna vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe á um þrjú þúsund milljarða króna. Búist er við því að kaupin klárist á næstu mánuðum.
Borgun mun fá hlutdeild í söluverðinu þar sem fyrirtækið er á meðal þrjú þúsund útgefenda Visa- korta í Evrópu. Þessi tíðindi hafa vakið upp mikla umræðu þar sem Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun í nóvember 2014 á 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar. Hluturinn var ekki auglýstur og fór ekki í gegnum formlegt söluferli. Þess í stað var hluturinn seldur á bakvið luktar dyr til fjárfestahóps sem leitað hafði eftir því að kaupa hann. Hann samanstóð af stjórnendum Borgunar og meðfjárfestum þeirra. Á meðal þeirra sem tilheyrðu fjárfestahópnum var Einar Sveinsson. Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þeir voru auk þess viðskiptafélagar um árabil, en Bjarni hætti afskiptum að viðskiptum í lok árs 2008. Verðið sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem greiddi fyrir hlutinn þótti lágt bæði í innlendum og erlendum samanburði. Félagið greiddi um 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en hagnaður Borgunar 2013 var um einn milljarður króna.
Á sama tíma og verið var að afgreiða kaupin hafði verið gert opinbert að Visa Inc. væri í viðræðum um að kaupa Visa Europe. Verðið þá var áætlað um 1.300 milljarðar króna samkvæmt fréttum bandarískra miðla á þeim tíma, eða rúmlega helmingur þess sem nú er talið að greitt verði fyrir hlutinn. Engu að síður lá fyrir undirrituð viljayfirlýsing um að viðskiptin myndu fara fram, með tilheyrandi greiðslum til allra þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem rétt áttu á hlutdeild í söluhagnaðinum. Á meðal þeirra var Borgun. Samt var ekki gert ráð fyrir því að Landsbankinn myndi fá hlutdeild í þeirri greiðslu ef kaup Visa inc. myndu ganga eftir þegar selt var til Eignarhaldsfélagsins Borgunar.
Á aðalfundi Borgunar 2015, sem fór fram tæpum þremur mánuðum eftir að kaupin voru frágengin, var ákveðið að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð. Það var í fyrsta sinn sem arður var greiddur úr fyrirtækinu frá árinu 2007.
Bretar reyndu að kaupa
Kaup VISA Inc. á Visa Europe voru samþykkt í byrjun nóvember 2015. Það er því nokkuð síðan að þau voru gerð opinber og stjórnendur Borgunar hafa vitað vel að þau standi til. Í byrjun desember síðastliðinn reyndi breska greiðslumiðlunarfyrirtækið UPG að kaupa allt hlutafé Borgunar hf. en Íslandsbanki, sem á 63,5 prósent í fyrirtækinu, vildi ekki selja. Tilboðið sem UPG gerði var, samkvæmt frétt Vísis um málið, mun hærra en það sem Eignarhaldsfélagið Borgun greiddi fyrir sinn hlut í nóvember 2015.
Bjarni biður menn að vera ekki með sleggjudóma
Bjarni Benediktsson sagði í ræðustóli Alþingis í dag að magt hefði þegar komið fram um viðskiptin með eignarhlut Landsbankans í Borgun, meðal annars það að að „virðisaukin í Borgun virðist hafa orðið af verulegu leyti til eftir sölu Landsbankans á sínum hlut í Borgun. Vegna þess að eftir að salan átti sér stað ákvað félagið að fara í útrás á erlenda markaði sem að er stór hluti þeirrar skýringar sem er að baki auknu virði hlutabréfanna eða eignarhlutarins, hlutdeildarinnar, í Visa Europe. Að öðru leyti hef ég í sjálfu sér engar forsendur til að fara inn í þetta mál. En ég styð að sjálfsögðu ef menn vilja skoða með einhverjum hætti hvernig þessi mál hafa gengið fram í ríkisfyrirtæki. Þá verða menn bara að fara eftir réttum boðleiðum, óska eftir því við Bankasýsluna eða eftir atvikum stjórn bankans. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að stjórn bankans eða stjórnendur eru reiðubúnir að koma fyrir þingnefndina [stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd], eins og þeir hafa áður gert, og gera grein fyrir þessum hlutum.“
Hann bað menn líka um að gefa sér tíma til að skoða málið og að vera ekki með sleggjudóma. Það ætti að gefa stjórnendum Landsbankans tækifæri á að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eins og þeir hefðu áður gert til að útskýra mál sitt. „Á endanum held ég að það væri ágætt að menn hugleiddu það hversu mikilvægt það er í öllu þessu ljósi til þess að draga úr tortryggni að koma þessum eignarhlutum út til almennings. Þá geta menn verið alveg viss um að það sé ekki einhversstaðar verið að toga í spotta eins og sífellt er verið að halda fram.“