Íslenska ríkið ætlar ekki að höfða skaðabótamál á hendur slitabúi Kaupþings vegna þess tjóns sem ríkið varð fyrir í tengslum við fall Kaupþings. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kjölfar dóms Hæstaréttar í Al Thani-málinu svokallaða fyrir tæpu ári síðan að hann vildi skoða hvort ríkið ætti mögulega bótakröfu vegna þessa. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir fjármála- og efnahagsráðuneytið að það hafi metið málið sem svo að ekki væru forsendur fyrir höfðun skaðabótamáls á hendur þrotabúi Kaupþings vegna málsins þar sem skaðabætur væru almennar kröfur og lúti vanlýsingaráhrifum.
Þann 12. febrúar 2015 féll dómur í Al Thani-málinu í Hæstarétti. Þar voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Í dómnum sagði m.a.: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin[...]beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
Bjarni vildi skoða skaðabótakröfu
Al Thani-viðskiptin, sem snérust um kaup á 5,01 prósent hlut í Kaupþingi, áttu sér stað í september 2008. Skömmu síðar, þann 6. október 2008, lánaði Seðlabanki Íslands Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán. Tap íslenskra skattgreiðenda af þessari lánveitingu er um 35 milljarðar króna.
Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi nokkrum dögum eftir að dómurinn féll spurði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, Bjarna Benediktsson út í dóm Hæstaréttar og lánið sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi. Hann spurði sérstaklega hvort ekki væri ástæða til að birta umdeilt símtal milli Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans, þar sem lánveitingin til Kaupþings ákveðin. Davíð hefur síðar sagt að Geir hafi ákveðið lánveitinguna.
Bjarni sagði að margir teldu að sú lánveiting yrði ekki að fullu upplýst nema að símtalið yrði birt. Bjarni væri hins vegar þeirrar skoðunar að það væri hægt að spyrja einfaldlega alla þá sem komu að ákvörðunartökunni um hvað hafi valdið henni, og að veðin sem veitt hafi verið fyrir láninu á þeim tíma hafi þótt býsna góð. Stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga íslensku efnahagskerfi.
Guðmundur benti á að búið væri að dæma mennina sem stjórnuðu bankanum sem fékk neyðarlánið í fangelsi fyrir það sem þeir voru að gera á sama tíma og Seðlabankinn lánaði þeim. Ljóst væri að verklagsreglur bankans hefðu verið brotnar. Guðmundur gaf ekki mikið fyrir þá málsvörn að allir hefðu verið að gera sitt besta og að dómur Hæstaréttar í Al Thani málinu væri dæmi um að það að gera sitt besta til að bjarga hlutunum sé alls ekki nóg.
Bjarni sagði að önnur ríki, þar á meðal Bandaríkin og Bretland, hafi ekki látið stífar verklagsreglur þvælast fyrir því í miðju bankahruninu að taka réttar ákvarðanir. Honum þyki það áleitnari spurning, í ljósi þess saknæmu háttsemi sem dómur Hæstaréttar í Al Thani málinu lýsir, hvort ríkið eigi bótakröfu á slitabú Kaupþings. Hann vill taka það til skoðunar.
Orðrétt sagði Bjarni: „Það sem mér finnst vera miklu áleitnari spurning vegna niðurstöðu Hæstaréttar á síðasta ári er sú spurning hvort með þeim saknæma hætti sem Hæstiréttur hefur nú fjallað um hafi stjórnvöldum verið gefið viðbótartilefni til að koma bankanum til bjargar sem gæti aftur leitt af sér mögulega bótakröfu ríkisins á hendur slitabúinu. Það er eitthvað sem ég held að við ættum að taka til skoðunar."
Hafa fengið 490 milljarða nú þegar
Kjarninn beindi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvort möguleg bótakrafa hafi verið skoðuð og ef svo væri, hver niðurstaða þeirrar skoðunar væri. Fyrirspurnin var send 7. desember 2015 og svar barst í gær, 2. febrúar 2016.
Í svarinu segir að í framhaldi af dómsuppkvaðinung Hæstaréttar í Al Thani-málinu hafi verið farið yfir það í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hvort grundvöllur væri fyrir höfðun skaðabótamáls fyrir hönd ríkisins vegna þess tjóns sem ríkið varð fyrir í tengslum við fall Kaupþings. „Var það mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ekki væru forsendur fyrir höfðun skaðabótamáls á hendur þrotabúi Kaupþings m.a. þar sem skaðabætur eru almennar kröfur og lúta vanlýsingaráhrifum.“
Um stöðu krafna Seðlabanka Íslands á hendur slitabúi Kaupþings vegna lánveitingarinnar var vísað á Seðlabankann. Kjarninn hefur þegar sent fyrirspurn á hann og óskað eftir upplýsingum um þá stöðu.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir einnig í svari sínu að þess beri að geta að uppgjöri á Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) sé ekki lokið. „Í því sambandi er rétt að geta þess að Kaupþing hf., Glitnir hf. og LBI hf. hafa greitt um 490 milljarða kr. til stjórnvalda í formi stöðugleikaframlags, skattgreiðslna auk endurheimta ESÍ frá umræddum þremur aðilum auk annarra ráðstafana sem áður hafa verið kynntar.“