Tugmilljarða króna vaxtamunaviðskipti í fyrra

Erlendir aðilar fjárfestu fyrir 76 milljarða króna á Íslandi í fyrra. Langstærsti hluti fjárfestinga þeirra voru í íslenskum ríkisskuldabréfum, eða 54 milljarðar króna. Vaxtamunaviðskiptin eru hafin á fullu á ný.

Már seðlabankinn
Auglýsing

Alls keyptu erlendir aðilar eignir á Íslandi fyrir 76,1 milljarð króna í fyrra. Langstærstur hluti fjárfestingar þeirra var í íslenskum ríkisskuldabréfum, alls um 54 milljarðar króna. Þeir keyptu auk þess hlutabréf fyrir 5,7 milljarða króna, fasteignir fyrir 652 milljónir króna og fjárfestu í atvinnurekstri fyrir um þrettán milljarða króna. „Aðrar fjárfestingar erlendra aðila“ námu síðan um 1,1 milljarði króna. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um innflæði gjaldeyris til landsins á árinu 2015.

Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að það hafi óskað eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands til að svara fyrirspurn Þorsteins. Upplýsingarnar sem svarið byggir á einskorðast við það innflæði gjaldeyris sem kom til Íslands eftir svokallaðri „nýfjárfestingaleið“ og fyrir tilstilli gjaldeyrisútboðs Seðlabanka Íslands.

Auglýsing

Þessar tölur gefa skýrt til kynna að svokölluð vaxtamunaviðskipti eru hafin af mikilli alvöru á ný.

Eins og áfengi, góð í hófi

Á árunum fyrir hrun flæddu erlendir peningar inn í íslenska hagkerfið í svokölluðum vaxtamunaviðskiptum. Í einföldu máli snúast þau um að erlendir fjárfestar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síðan íslensk skuldabréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóðlegum samanburði. Því gátu fjárfestarnir hagnast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lántöku sinnar. Og ef þeir voru að gera viðskipti með eigin fé þá gátu þeir auðvitað hagnast enn meira.

Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.

Vextir Seðlabanka Íslands lækkuðu skarpt fyrstu árin eftir hrun. Undanfarin misseri hafa þeir hins vegar hækkað, enda vaxtahækkanir helsta stýritæki bankans til að halda aftur að verðbólgu. Stýrivextir á Íslandi eru nú t.d. 5,75 prósent á sama tima og þeir eru mjög nálægt núllinu i mörgum öðrum löndum. Þessar vaxtahækkanir hafa gert Ísland eftirsóknarverðara sem fjárfestingakost. Kynning á áætlun stjórnvalda um losun hafta, sem fyrirhugað er að muni eiga sér stað á þessu ári, gerði einnig mikið til að auka áhuga erlendra fjárfesta á því að ávaxta fé sitt á Íslandi. Losun hafta myndi enda þýða að þeir væru frjálsir til að flytja fé sitt aftur heim þegar skuldabréfaflokkarnir sem þeir fjárfestu í væru á gjalddaga.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri tjáði sig um aukin vaxtamunaviðskipta á Íslandi í viðtali við Bloomberg í júní síðastliðnum og sagði þá að aukin vaxtamunaviðskipti væru fagnaðarefni.Viðskiptin væru merki um að tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi væri að aukast. Þau væru þó líkt og áfengið, góð í hófi.

Yfir 50 milljarðar í ríkisskuldabréf

Í fyrrasumar voru síðan sagðar fréttir af því að vaxtamunaviðskipti væru klárlega hafin að nýju. Og samkvæmt svarinu sem Þorsteini barst frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þá voru þau umtalsverð á árinu. Alls voru keypt ríkisskuldabréf fyrir um 54 milljarða króna af erlendum aðilum í fyrra. Mest var keypt í skuldabréfaflokki sem er á gjalddaga 2025, eða fyrir um 21 milljarða króna. Næst mest var keypt í flokki sem er á gjalddaga 2031, eða fyrir um 15,1 milljarð króna. Nánast allar fjárfestingar erlendra aðila í ríkisskuldabréfum voru gerðar af lögaðilum, ekki einstaklingum.

Erlendir aðilar virðast líka vera búnir að fá áhuga á íslenskum hlutabréfum. Þeir keyptu slík fyrir um 5,8 milljarða króna á síðasta ári. Mestur áhugi var á bréfum í Icelandair (1.031 milljón króna) og Marel (1.022 milljón króna). Auk þess keyptu erlendir fjárfestar í HB Granda, Högum, Eimskip og Reitum fyrir 820-848 milljónir króna á árinu 2015.

Fengu tugmilljarða afslátt á íslenskum eignum

Það eru ekki bara vaxtamunaviðskiptin sem hafa gert Ísland að aðlandi fjárfestingakosti fyrir erlenda aðila sem eiga peninga á undanförnum árum. Hin svokallaða fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem sett var upp til að vinna á snjóhengju erlendra gjaldmiðlaeigna eftir hrunið, var einnig ansi arðbær leið fyrir þá sem áttu peninga í útlöndum og vildu flytja þá til Íslands.

Í útboðum fjárfestingaleiðarinnar, sem lauk í febrúar í fyrra, komu alls um einn milljarður evra til landsins og fyrir þær fengust um 206 milljarðar króna. Miðað við opinbert gengi Seðlabankans á evru í febrúar 2015 þá voru evrurnar sem komu inn í landið um 157 milljarða króna viði. Því fengu fjárfestarnir sem nýttu sér þessa leið, en margir þeirra voru Íslendingar sem áttu fé erlendis, 48,7 milljarða króna virðisaukningu á fjárfestingu sína. Á mannamáli þýðir það að þeir sem skiptu gjaldeyri í útboðum fjárfestingaleiðar Seðlabankans á árunum eftir hrun fengu um 20 prósent afslátt, alls tæplega 50 milljarða króna, á eignum sem þeir keyptu á Íslandi. Þær eignir gátu t.d. verið fasteignir, hlutabréf eða skuldabréf. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Aur lumar á góðri lífslausn
Kjarninn 14. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None