Hvorki Íslandsbanki eða Landsbankinn, sem báðir eru í eigu íslenska ríkisins, vilja svara því hversu miklar fjárhæðir séu undir vegna ákvörðunar þeirra að færa alla viðskiptavini sína í þjónustu eins greiðslukortafyrirtækis. Allir viðskiptavinir Íslandsbanka hafa annað hvort verið, eða verða, færðir í kortaviðskipti við MasterCard sem íslenska greiðslukortafyrirtækið Borgun sér um útgáfu fyrir og allir viðskiptavinir Landsbankans hafa annað hvort verið, eða verða, færðir í kortaviðskipti við VISA sem greiðslukortafyrirtækið Valitor sér um.
Íslandsbanki á 63,47 prósent hlut í Borgun og ljóst að samningur bankans við MasterCard og Borgun mun færa fyrirtækinu auknar tekjur, enda munu um 40 prósent viðskiptavina bankans færast yfir til MasterCard. Hinir voru þar fyrir. Þær auknu tekjur munu skila Íslandsbanka sem eiganda aukinni arðsemi.
Hjá Landsbankanum er færslan mun minni, en undir tvö prósent viðskiptavina hans munu færast úr MasterCard til VISA. Landsbankinn á ekki lengur hlut í íslensku greiðslukortafyrirtæki eftir að hafa selt hlut sinn í bæði Borgun og Valitor á undanförnum árum. Sala hans á hlut sínum í Borgun hefur verið mjög umdeild, líkt og Kjarninn hefur fjallað ítarlega um.
Arion banki mun áfram bjóða viðskiptavinum sínum upp á bæði Visa og MasterCard kort. Valitor er að nánast öllu leyti í eigu Arion banka.
Þýðir breytingu á tugþúsundum kortum
Kjarninn beindi fyrirspurn til Íslandsbanka um hvert umfang þeirra fjárhæða sem séu undir í samningi bankans við MasterCard og Borgun. Þ.e. hversu miklar fjárhæðir séu undir á ársgrundvelli. Í svari Íslandsbanka segir að það geti ekki upplýst um hversu háar fjárhæðir sé að ræða. Færsla bankans alfarið yfir í MasterCard-kort þýði breytingu á 34 þúsund kreditkortum og 90 þúsund debetkortum viðskiptavina ÍSlandsbanka. Þegar sé búið að skipta út 38 prósent þeirra.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka fór hann í útboð með þjónustuna og fór það fram í byrjun árs 2013. Í kjölfarið samdi bankinn við alþjóðlega greiðslukortafyrirtækið MasterCard og íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækið Borgun síðla þess árs. Sú ákvörðun var tekin af bankanum eftir að endurskoðunarfyrirtækið KPMG hafði gert úttekt á tilboðum sem bárust, en alþjóðlega greiðslukortafyrirtækið VISA og hið íslenska Valitor, sem er helsti útgefandi og þjónustuaðili VISA á Íslandi, gerðu einnig tilboð. Um er að ræða fimm ára samning og Íslandsbanki segir að nýtt útboð á þjónustunni muni fara fram þegar sá samningur rennur út. Viðskiptavinum Íslandsbanka var kynnt þessi breyting í október 2014.
Íslandsbanki segir að tvær meginástæður hafi verið fyrir því að hann kjósi að einbeita sér eingöngu að MasterCard-kortum. Það einfaldi vöruframboð bankans og að með MasterCard séu viðskiptavinir hans og bankinn sjálfir „betur í stakk búinn til þess að taka þátt í þeirri þróun og þeim breytingum sem framundan eru í kortaheiminum.“
Í nóvember 2014 leitaði Kjarninn eftir upplýsingum hjá Valitor um málið og hversu miklum tekjum fyrirtækið yrði af vegna færslu á allri útgáfuþjónustu vegna greiðslukorta frá þeim til Borgunar. Fyrirtækið vildi ekki veita neinar upplýsingar um málið.
Byrjað var að skipta út öllum debetkortum hjá viðskiptavinum Íslandsbanka í byrjun árs í fyrra.
Landsbankinn segir að um viðskiptaupplýsingar sé að ræða
Kjarninn beindi einnig fyrirspurn til Landsbankanst um umfang þeirri viðskipta sem færðust frá MasterCard til VISA, og þar af leiðandi frá Borgun til Valitor, þegar bankinn ákvað að allir viðskiptavinir hans ættu að vera með VISA kredit- og debetkort.
Í svari bankans segir að um afar litla breytingu sé að ræða. Um tvö þúsund einstaklingar og um 500 fyrirtæki voru með MasterCard-kreditkort frá Landsbankanum, en Borgun sá um um útgáfu á þeim. Hlutfall þeirra í heildarfjölda kreditkorta hjá bankanum var undir tvö prósent. Yfir 98 prósent viðskiptavina Landsbankans voru því þegar með VISA-greiðslukort sem Valitor þjónustar útgáfu á.
Þegar ákvörðunin var tekin um það að Landsbankinn myndi einungis gefa út VISA-kort var farið í verð- og fýsileikakönnun hjá þeim aðilum á íslenskum markaði sem bjóða upp á slíka útgáfuþjónustu. Bæði Borgun og Valitor skiluðu inn tilboði og að mati Landsbankans var tilboð Valitor hagstæðara. Því var samið við það fyrirtæki um útgáfuþjónustu. Samningurinn er til fjögurra ára og Landsbankinn segir að þegar honum ljúki verði að nýju leitað tilboða í útgáfuþjónustu.
Landsbankinn vill hins vegar ekki gefa upp hvaða verð hann fékk hjá Valitor í tengslum við útboðið. Það séu viðskiptaupplýsingar sem snúi að samkeppni milli fyrirtækja sem sinni útgáfu greiðslukorta á Íslandi.