Tekjur Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) munu tvöfaldast á árinu 2016. Í fyrra voru þær 1.112 milljónir króna en áætlað er að þær verði 2.263 milljónir króna á þessu ári. Gjöld sambandsins munu einnig aukast mikið á yfirstandandi ári, vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar. Áætlað er að gjöldin verði 1.663 milljónir króna í ár en þau voru 956 milljónir króna í fyrra. Það breytir því ekki að nóg verður eftir í kassanum hjá KSÍ þegar rekstrarárið verður liðið og mótið í Frakklandi búið. Áætlaður hagnaður sambandsins er 600 milljónir króna á árinu. Það er næstum fjórum sinnum meiri hagnaður en KSÍ skilaði í ár. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun KSÍ fyrir árið 2016 sem birt var í gær.
Aðildarfélög KSÍ munu njóta góðs af þeirri miklu búbót sem þátttakan á EM í Frakklandi er fyrir efnahag íslenskrar knattspyrnu. Styrkir og framlög til aðildarfélaga KSÍ eru áætlaðir 413 milljónir króna á árinu 2016, en voru 147 milljónir króna í fyrra. Það er mikill fjárhagslegur uppgangur framundan í íslenskri knattspyrnu.
Næstum níu af hverjum tíu krónum koma frá UEFA
Í áætluninni segir að styrkir og framlög til KSÍ, sem voru 584 milljónir króna árið 2015, verði 1.725 milljónir króna á árinu 2016. Þau munu því næstum þrefaldast. Ástæðan er einfaldlega árangur karlalandsliðsins og vera þess á loka móti landsliða í fyrsta sinn á komandi sumri. Aðrar tekjur, svo sem sjónvarpsréttur og tekjur af landsleikjum munu að mestu standa í stað á milli ára. Alls falla 76 prósent allra tekna KSÍ til vegna styrkja og framlaga.
Langhæsti styrkurinn, alls 1.506 milljónir króna, kemur frá knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA). Styrkir frá sambandinu fara úr 356 milljónum króna árið 2015 og fara því langleiðina við að fimmfaldast vegna þátttöku íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi í sumar. Styrkir UEFA eru heil 87,3 prósent af öllum styrkjum og framlögum sem KSÍ fær á næsta ári.
Stærsti kostnaðarliður yfirstandandi árs er A-landslið karla, en kostnaður vegna þess er áætlaður 809 milljónir króna. Hann var 228 milljónir króna í fyrra og því ljóst að það kostar skildinginn að taka þátt í lokamóti. Kostnaður við rekstur A-landsliðs kvenna eykst líka umtalsvert á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir að hann verði 114 milljónir króna, sem er næstum tvisvar sinnum meira en þær 59 milljónir króna sem fóru í hann á árinu 2015.
Framlag frá ÍSI og getraunum 1,7 prósent af tekjum
Annars er rekstrarstaða KSÍ afar sterk. Félagið á eignir sem metnar eru á 581 milljón króna um síðustu áramót og á 221,6 milljónir króna í eigin fé. Þetta kemur fram í ársreikningi sambandsins vegna ársins 2015 sem einnig var gerður opinber í gær. Raunar er það svo að KSÍ hefur á undanförnum árum velt mun meira fé en öll önnur íþróttasérsambönd landsins til samans. Með þeirri viðbót sem áætluð er að falli til í ár mun sá munur aukast enn meira. Til samanburðar má nefna að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSI) velti um 220 milljónum króna á árinu 2014.
Þessi staða, og sú það mikla fjármagn sem KSÍ fær í formi styrkja frá UEFA og FIFA á hverju ári, hefur gert það að verkum að innan margra annarra sérsambanda er uppi sterk krafa um að KSÍ fari út úr ÍSÍ og leyfi öðrum sérsamböndum sem eiga mun erfiðara með að láta enda ná saman og sækja að njóta þeirra tekna sem til falla vegna styrkja ríkissjóðs og hlutdeildar sérsambanda í getraunartekjum. Á árinu 2016 er áætlað að KSÍ fái 33 milljónir króna framlag frá ÍSÍ og sex milljónir króna vegna íslenskra getrauna. Samanlagt er þessi tala, 39 milljónir króna, 1,7 prósent af tekjum KSÍ og ljóst að þær skipta sambandið ekki öllu máli. Þetta er hins vegar fé sem gæti skipt sköpum hjá mörgum minni sérsamböndum.