Sunnudaginn 25. júní 2013 lenti lítil flugvél á Kastrup flugvelli við Kaupmannahöfn. Venjulega þykir slíkt ekki í frásögur færandi enda fara hundruð flugvéla um Kastrup á degi hverjum. Nokkrir blaðamenn, sem voru á flugvellinum í allt öðrum erindagjörðum veittu vélinni athygli þegar hún lenti og þótti hálf dularfullt að henni var, strax eftir lendingu, ekið á sérstakt svæði á flugvellinum. Þetta svæði er yfirleitt ekki notað nema í sérstökum tilvikum og einkennilegt þótti blaðamönnunum að bifreið frá lögreglunni ók fast upp að vélinni þannig að engin leið var að sjá hvort einhverjir, og þá hverjir, færu frá borði. Þótt blaðamennirnir spyrðust fyrir fengu þeir engin svör. Löngu síðar kom í ljós að ferðalag þessarar flugvélar var dularfullt í meira lagi.
Keypti tíu flugmiða
Þremur dögum fyrr, 22. júní, hafði maður að nafni Edward Snowden
verið staddur í Hong Kong og keypt þar tíu flugmiða. Til Indlands, Rússlands og
átta annarra áfangastaða. Edward þessi Snowden var á flótta og tilgangurinn með
að kaupa svona marga flugmiða var að villa um fyrir bandarísku leyniþjónustunni
sem var að eltast við hann. Hún vildi nefnilega hafa hendur í hári hans. Honum
tókst reyndar, óviljandi, að villa um fyrir leyniþjónustunni. Réttara væri kannski
að segja að hún hafi villt um fyrir sjálfri sér. Leyniþjónustan hafði, með
fulltingi bandarískra stjórnvalda, óskað eftir því við stjórnvöld í Hong Kong
að maður að nafni Edward JAMES Snowden yrði kyrrsettur og handtekinn.
Það var
þetta millinafn, James, sem varð til þess að Edward Snowden, með millinafnið
Joseph, var ekki handtekinn í Hong Kong og gat óáreittur farið um borð í
flugvél til Moskvu. Edward Joseph Snowden sagði síðar í viðtali að hann hafi
vel vitað að hringurinn væri farinn að þrengjast ég reyndi bara að brosa og
vera afslappaður þegar ég innritaði mig” Hann vissi ekkert um nafnabrenglið hjá
bandarísku leyniþjónustunni. Af miðunum tíu sem Snowden hafði keypt í Hong Kong ákvað hann
að nota miðann til Rússlands, nánar tiltekið til Moskvu. Þegar vélin frá Hong
Kong lenti í Moskvu komst Snowden að því að bandarísk stjórnvöld höfðu ógilt
vegabréf hans, meðan hann sat í flugvélinni.
Strandaður í Moskvu
Það að bandarísk stjórnvöld höfðu ógilt vegabréf Snowdens þýddi að
hann komst hvergi. Á þessum tíma var ekki sérlega kært með stjórnvöldum í
Moskvu og Bandaríkjunum og þess vegna kom það nokkuð á óvart að bandarísk
stjórnvöld skyldu, með því að ógilda vegabréfið, neyða rússnesk yfirvöld til að
sitja uppi með Snowden.
Hvað hafði Snowden gert af sér?
Ástæða þess að Edward Snowden komst í
heimsfréttirnar og varð óvinur Bandaríkjanna númer eitt (eins og þarlendir
fjölmiðlar kölluðu hann) var að hann hafði „lekið” fjölmörgum upplýsingum um
starfsemi bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA. Meðal annars um að
stofnunin hefði fylgst með daglegu lífi tugþúsunda bandarískra borgara, án
þeirra vitundar. Snowden hafði verið starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar,
CIA og þannig haft aðgang að margvíslegum upplýsingum sem að mati bandarískra
stjórnvalda vörðuðu þjóðaröryggi. Upplýsingunum kom Snowden til samtakanna
WikiLeaks sem birtu þær á vefsíðu sinni.
Sótti um hæli í 21 landi
Edward Snowden var nú innlyksa í
flugstöðinni í Moskvu. Þótt í sjálfu sér væsti ekki um hann ætlaði hann ekki að
gera flugstöðina að heimili sínu. Hann sótti því um pólitískt hæli í að minnsta
kosti 21 landi, þar á meðal Rússlandi. Stjórnvöld þar buðu honum hæli gegn því
að hann myndi láta rússnesku leyniþjónustunni í té allar þær upplýsingar sem
hann byggi yfir. Þessu tilboði hafnaði Snowden. Nokkrum dögum síðar tilkynnti
Vladimir Putin forseti að Snowden væri ekki velkominn til Rússlands,
uppljóstrarinn dvaldi því áfram í flugstöðinni í Moskvu, komst hvergi.
Uppákoman með forseta Bólivíu
Þann 3. júlí 2013 var einkaþota bólivíska
forsetans Evo Morales, sem var á leið frá Moskvu til Bólivíu, neydd til að
lenda í Vín í Austurríki. Bandarísk stjórnvöld töldu að Snowden væri um borð í
vélinni og Frakkland, Portúgal og fleiri lönd neituðu um flugleyfi
(yfirflugsleyfi) í loftrými sínu vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum. Snowden
var ekki um borð í vélinni en þessi uppákoma hleypti illu blóði í Rússa og
Snowden var veitt tímabundið hæli í Rússlandi, síðar var það leyfi framlengt
til ársins 2017.
Danmörk og Snowden
Á meðan Edward Snowden stoppaði í Hong
Kong og ekkert var vitað um fyrirætlanir hans hafði bandaríska leyniþjónustan
samband við dönsk lögregluyfirvöld. Bandaríkjamenn töldu líklegt að Snowden
myndi ferðast til Kaupmannahafnar og vildu tryggja að hann yrði kyrrsettur þar
og sendur rakleiðis til Bandaríkjanna. Þremur dögum eftir að Snowden kom til
Moskvu lenti flugvélin sem getið var í upphafi þessa pistils í Kaupmannahöfn.
Þótt blaðamenn veittu henni athygli grunaði þá ekki að hún ætti, ef til þess
kæmi, að flytja Snowden til Bandaríkjanna. Vélin stóð á Kastrup í nokkra daga
en þegar ljóst var að Snowden væri genginn Bandaríkjamönnum úr greipum fór hún
aftur vestur um haf.
Svíar komast yfir bréf
Í byrjun desember á liðnu ári var í
fréttaskýringaþætti í sænska sjónvarpinu, SVT, greint frá bréfi sem fréttamenn
sjónvarpsins höfðu komist yfir. Bréfið sem var frá bandaríska
dómsmálaráðuneytinu og leyniþjónustunni hafði verið sent til lögregluyfirvalda
í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Í bréfinu stóð að bandarísk yfirvöld
krefðust þess að Snowden yrði umsvifalaust handtekinn ef hann kæmi til einhvers
áðurnefndra landa og Bandaríkin myndu þá þegar í stað fara fram á framsal hans.
Áðurnefnd flugvél átti svo að flytja hann til Bandaríkjanna.
Danskir þingmenn krefjast svara
Eftir að sænska sjónvarpið, og síðar
einnig norska sjónvarpið, NRK, greindu frá bréfinu sem áður var getið kröfðust
nokkrir danskir þingmenn þess að fá upplýsingar um þátt Dana og hvort danska
stjórnin og lögreglan hefðu samþykkt beiðni Bandaríkjamanna. Þingmennirnir
bentu á að hefði slík beiðni verið samþykkt bryti það í bága við mannréttindasáttmála
sem Danmörk væri aðili að. „Getur það verið að Danmörk hafi ætlað sér að brjóta
mannréttindi til að þóknast Bandaríkjamönnum?” spurði Nikolaj Villumsen
þingmaður Einingarlistans. Og krafðist svara. Fyrrverandi og núverandi
ráðherrar svöruðu engu.
Danskir þingmenn sætta sig ekki við að
ráðherrar þegi, eða svari út og suður, og ætli þannig að humma óþægileg mál
fram af sér. Þingmenn Eingarlistans, og einnig þingmenn annarra flokka,
kröfðust þess aftur og aftur að fá svör við spurningum um þátt dönsku
stjórnarinnar varðandi Snowden.
Síðastliðinn föstudag sendi Søren Pind dómsmálaráðherra frá sér yfirlýsingu þar sem frá því er greint að dönsk dómsmálayfirvöld hafi á sínum tíma heimilað lendingu bandarískrar flugvélar og að Snowden kæmist í hendur Bandaríkjamanna ef hann kæmi til Danmerkur.
Margir danskir þingmenn eru mjög ósáttir við framgöngu
danskra dómsmálayfirvalda og krefjast þess að fá nánari skýringar og umræður um
málið í þinginu. Augljóst sé að dönsk stjórnvöld hafi ekki vílað fyrir sér að
brjóta grundvallarmannréttindi til þess að þóknast Bandaríkjamönnum, ef Snowden
hefði komið til Danmerkur.