Neysla á svínakjöti á Íslandi jókst um tíu prósent á milli áranna 2014 og 2015. Svínakjötsát á hvern íbúa jókst um tæp tvö kíló á mann að meðaltali á ári, úr 19 kílóum í 21 kíló. Að sama skapi jókst innflutningur þar sem íslenskir framleiðendur náðu ekki að anna eftispurn, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Hörður Harðarson, formaður Félags svínabænda, segir vissulega áhugavert að neyslan hafi aukist, sérstaklega í ljósi verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun síðasta vor og mikillar fjölmiðlaumfjöllunar um slæman aðbúnað svína.
Neikvæð umfjöllun og verkfall breytti engu
Verkfall dýralækna hjá MAST stóð í tæpar tíu vikur og um tíma máttu bændur hvorki slátra né setja kjöt á markað. Síðasta haust var fjallað mikið um skýrslu MAST þar sem greint var frá slæmum aðbúnaði svína á vissum búum landsins. Miklar umræður sköpuðust í kjölfarið.
Þetta hafði þó ekki þau áhrif að neysla á svínakjöti dróst saman, nema síður sé. Neysla á svínakjöti jókst úr 19,1 kílói á mann að meðaltali í 21 kíló á ári. Þetta þýðir að hver og einn borði rúm 1,7 kíló af svínakjöti á mánuði. Framleiðsla jókst einnig, sem og innflutningur. Útflutningur dróst saman.
Hörður bendir á að ein aðalbreytan sem beri að hafa í huga sé gífurleg aukning í komu erlendra ferðamanna til landsins. Hinn hefðbundni enski morgunverður, beikon og egg, vegi mjög þungt.
„Þeir borða langflestir mikið beikon og við höfum ekki náð að anna eftirspurn eftir því. Við þurfum að flytja inn svínasíður erlendis frá til að anna eftirspurninni,” segir hann. „Ferðamenn eru auðvitað mótaðir af sínu umhverfi. Þó að þeir vilji mjög gjarnan prófa góðan fisk, lambakjöt og grænmeti þá fara þeir svo aftur í það sem þeir eru vanir í sínum heimahögum eins og nautakjöt, svínakjöt og kjúkling.”
Eggjabændur spýta í lófana
Eggin eru líka nauðsynleg til að ferðamennirnir fái sinn enska dögurð. Það er ekki hægt að flytja fersk egg til landsins svo þeir um 20 eggjaframleiðendur sem á landinu eru hafa þurft að auka framleiðslu verulega á undanförnum árum til að anna eftirspurn.
Þorsteinn Sigmundsson, formaður Félags eggjabænda, segir að markaðnum sé sinnt vel. Undanfarin fimm ár hafa eggjabændur bætt við sig bæði fuglum og húsum.
„Auk ferðamannanna hefur nýr neysluhópur komið sterkt inn, sem er ungt fólk í heilsuátaki,” segir hann. „Egg eru orðin hluti af heilsufæði landans. Í dag eru egg í öllum hóteleldhúsum og öllum ísskápum. Við höfum undan, en þurftum að spýta í lófana og það gengur vel.”
Fleiri Bretar og Bandaríkjamenn
Ferðamálastofa sendi frá sér tölur í morgun þar sem fram kemur meðal annars að um 77.500 erlendir ferðamenn hafi farið frá landinu í janúar síðastliðnum, sem er tæplega 25 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra.
Þá hefur samsetning ferðamanna breyst mikið frá árinu 2010. Hlutfall Breta og Bandaríkjamanna er mun hærra en áður og hlutfall íbúa frá Norðurlöndunum hefur lækkað. Bretar og Bandaríkjamenn eru miklar beikonþjóðir og má gera ráð fyrir að hin hefðbundi enski dögurður eigi vel upp á pallborðið hjá þeim.