Alls jókst virði hlutabréfa og fjárfestinga í hlutafé hjá Íslandsbanka um 74 prósent í fyrra. Eign bankans undir þeim lið, sem eru annars vegar bréf skráð á markað og hins vegar óskráð bréf, fór úr 11,2 milljörðum króna árið 2014 í 18,3 milljarða króna í fyrra. Hækkunin er tilkomin vegna virðisbreytinga á eignum bankans og að mestu vegna hækkunar á óbeinni eign hans í Visa Europe, í gegnum dótturfélag bankans Borgun. Alls skilaði sú hækkun sér í 5,4 milljarða króna hækkun á eigin fé Íslandsbanka á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem birtur var í morgun.
Landsbankinn, sem átti 31,2 prósent hlut í Borgun, seldi sinn hlut í fyrirtækinu í nóvember 2014 á 2,2 milljarða króna til félags í eigu stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta þeirra. Sá hlutur hefði verið margfalt meira virði í dag, um fimmtán mánuðum síðar, ef bankinn hefði ekki selt hann.
Þótt Íslandsbanki hafi hagnast vel á eignarhlut sínum í Borgun þá er ekki jákvæð þróun allstaðar í eignarsafni bankans. Í ársreikningnum segir að „þróun mála og horfur í olíuvinnslu hafa haft áhrif á stöðu bankans gagnvart fyrirtækjum í þjónustu við olíuiðnað á hafi og hefur bankinn bókað virðisrýrnun á þessa stöðu. Bankinn hefur í meira en tíu ár átt af og til hagsmuni tengda norskum rekstraraðilum þjónustuskipa, en sú staða var í lok árs u.þ.b. 1% af útlánasafni bankans.“
Kjarninn hefur greint ítarlega frá því á undanförnum vikum að Íslandsbanki og Arion banki hafi lánað norska skipafyrirtækinu Havila, sem á 27 skip sem þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó, háar fjárhæðir á árunum 2013 og 2014. Havila rambar nú á barmi gjaldþrots og er í viðræðum við kröfuhafa sína um endurskipulagningu á skuldum. Félagið færði niður virði skipaflota síns fyrr í þessum mánuði um 21 milljarð króna. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið úr um 115 dölum á tunnu í 32 dali frá sumrinu 2014. Til að vinnsla á olíu í Norðursjó borgi sig er talið að verðið þurfi að vera um 60 dalir á tunnu.
Hagnaður bankans 20,6 milljarðar króna
Annars var árið í fyrra heilt yfir ágætt hjá Íslandsbanka. Hagnaður bankans á árinu 2015 var 20,6 milljarðar króna, eða 2,1 milljarði krónum minna en bankinn hagnaðist um árið áður. Ástæðan fyrir minni hagnaði liggur aðallega í lægri einskiptisliðum, eins og sölu á eignum, og í styrkingu krónunnar. Hagnaður af reglulegri starfsemi eykst hins vegar á milli ára um 1,4 milljarða króna og var 16,2 milljarðar króna í fyrra. Þá jukust útlán til viðskiptavina um fimm prósent á árinu og þóknanatekjur um 15 prósent. Eiginfjárhluthall Íslandsbanka var 30,1 prósent um síðustu áramót, en alls átti bankinn þá 202,2 milljarða króna í eigið fé. Arðsemi eiginfjár Íslandsbanka lækkaði þó á milli ára. Hún var 10,8 prósent í fyrra samanborið við 12,8 prósent árið áður.
Bankinn er fyrstur stóru bankanna þriggja til að birta reikning sinn fyrir árið 2015 en hinir tveir, Arion banki og Landsbankinn, munu gera slíkt hið sama síðar í vikunni. Arion banki mun birta á morgun, miðvikudag, og Landsbankinn á fimmtudag.
Hagnaður Íslandsbanka hefur verið stöðugur undanfarin fjögur ár. Samtals hefur bankinn hagnast um 145,2 milljarða króna frá árinu 2009.
Ætlar að greiða 10,3 milljarða króna í arð
Þótt að langt sé liðið frá hruni heldur hrein virðisbreyting útlána áfram að skila hagnaði. Slík breyting skilaði alls 8,1 milljarði króna í fyrra, eða um 40 prósent af hagnaði bankans. Í tilkynningu vegna ársuppgjörsins segir að þar af hafi 11,3 milljarðar króna vegna endurmats á framtíðarsjóðsstreymi frá útlánum og 3,2 milljarðar króna vegna gjaldfærslu sem „samanstendur af almennri og sértækri virðisrýrnun útlána“. Endurskipulagningu á lánum og kröfum sem bankinn yfirtók með miklum afföllum eftir hrunið er að sögn hans lokið og „fyrir vikið er ekki gert ráð fyrir árframhaldandi jákvæðum áhrifum á hagnað komandi ára“.
Íslandsbanki er, líkt og hinir viðskiptabankarnir, einn stærsti skattgreiðandi landsins. Alls greiddi bankinn 5,9 milljarða króna í tekjuskatt í fyrra og 2,9 milljarða króna í svokallaðan bankaskatt, sem búist er við að verði lagður niður í ár. Auk þess greiddi Íslandsbanki sérstakan sex prósent fjársýsluskatt á hagnað umfram einn milljarð króna og framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda, til FME og umboðsmanns skuldara. Heildarskattar og gjöld námu 10,8 milljörðum króna sem er nánast sama upphæð og bankinn greiddi árið 2014, þegar heildargreiðslur voru 10,7 milljarðar króna.
Íslandsbanki er sem kunnugt er kominn að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins eftir að slitabú Glitnis afhenti hlutabréf sín í honum sem hluta af stöðugleikaframlagi sínu. Sá arður sem Íslandsbanki ætlar að greiða á árinu 2016, um 10,3 milljarðar króna, mun því renna óskiptur til ríkissjóðs.