„Ástæða afturköllunarinnar var sú að við yfirferð málsins í tengslum við gerð ágrips í því til Hæstaréttar á liðnum vikum, vaknaði það viðhorf að sterkar líkur væru á að málið hefði fyrnst í meðförum yfirvalda. Rannsókn rýfur fyrningu en í ljósi þess að rannsókn málsins beindist aðallega að sakargiftum sem síðar reyndust ekki vera hlítandi refsiheimildar fyrir og rannsóknartíminn verður ekki nema að litlu leyti skýrður með rannsókn á þeim sakargiftum sem áfrýjað var til Hæstaréttar, eftir sýknudóm héraðsdóms, teljum við að slíkur vafi sé á að rofi á fyrning vegna þeirra brota hafi verið komið fram.“
Þetta kemur fram í svari Helga Magnúsar Gunnarsson, aðstoðarríkissaksóknara, við fyrirspurn Kjarnans til Ríkissaksóknara, um hvers vegna ákveðið var að fella niður áfrýjun í Aserta-málinu svokallaða, sem greint var frá í gær. Ákært var vegna meintra brota á 8. grein laga um gjaldeyrismál þar sem segir að leyfi Seðlabankans þurfi til að eiga milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi, en fallið var frá stórum hluta málsins árið 2013. Í desember 2014 voru þeir sýknaðir af þeim hluta málsins sem eftir stóð.
Ákærðir í málinu voru Gísli Reynisson, Ólafur Sigmundsson, Markús Máni Michaelsson Maute og Karl Löve Jóhannsson, en málinu er nú lokið og þeir saklausir af þeim sökum sem beindust að þeim.
Helgi Magnús segir í svarinu til Kjarnans, að við heildarmat á málinu hafi þetta verið niðurstaðan, að fella niður áfrýjunina. Fjárskortur og of mikill hægagangur við málsmeðferð sé ein af ástæðunum. „Heildarmat á málinu og þeim tíma sem liðinn var leiddi til þessarar niðurstöðu sem og það að ljóst var að áframhaldandi meðferð málsins fyrir Hæstarétti ofan á það sem á undan var komið var ósanngjörn gagnvart sakborningum, einkum vegna þess að nokkrar líkur eru á að Hæstiréttur mundi sýkna í málinu vegna fyrningar,“ sagði Helgi.
Helgi Magnús segir að sjónarmið Ríkissaksóknara hafi ekki fengið hljómgrunn við afgreiðslu fjárlaga. Æskilegt væri að starfsskilyrðin væru ekki þannig, að Ríkissaksóknari þyrfti að sitja undir ámæli fyrir að brjóta reglur um afgreiðslutíma mála.
„Hafa verður í huga að frá fyrstu yfirheyrslu sakborninga í janúar 2010 til næstu í júní 2012 liðu tæp 2 1/2 ár. Þessi sjónarmið fengu ekki neina umfjöllun í héraðsdómi og komu ekki upp við yfirferð málsins í tengslum við ákvörðun um að áfrýja því. Dráttur á afgreiðslu þessa máls er í samræmi við drátt sem orðið hefur á málum vegna álags hjá Ríkissaksóknara og vissulega væri æskilegt að ríkissaksóknara væru búin betri starfsskilyrði þannig að hann þyrfti ekki að sitja undir ámæli fyrir að brjóta reglur um afgreiðslutíma mála en svona er það bara og okkar sjónarmið hafa ekki fengið hljómgrunn þrátt fyrir t.d. athugasemdir ríkisendurskoðunar á síðasta ári um fjárskort embættisins og það að tiltölulega lága fjárhæð þarf til að bæta úr.“
Arnar Þór Stefánsson hrl., lögmaður Ólafs Sigmundssonar sem var einn ákærðu í málinu, sagði í gær, að málið hefði „frá degi eitt“ ekki verið neitt mál, og því hefði aldrei átt að ákæra í því. „Líklegast þarf enginn að bera ábyrgð á þessu - frekar en fyrri daginn,“ bætti hann við.