1. Eigin fé í íslenskum sjávarútvegi hefur safnast hratt upp á undanförnum árum, en það var neikvætt um 80 milljarða í lok árs 2008. Sé mið tekið af stöðu mála í lok árs 2014 þá var eigið fé í íslenskum sjávarútvegi, stoðgrein í íslenska hagkerfinu til áratuga, 185,4 milljarðar króna. Á sex árum hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja batnað um rúmlega 265 milljarða króna.
2. Arðgreiðslur í sjávarútvegi, á árunum 2008 til og með 2014, námu samtals 48,8 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem Jónas Gestur Jónasson, endurskoðandi hjá Deloitte, tók saman. Þetta tímabil er besta rekstrartímabil í sögu íslensks sjávarútvegs. Miklu hefur skipt í þessu samhengi, að gengisfall krónunnar styrkti samkeppnisstöðu sjávarútvegsins verulega frá því sem var fyrir hrun fjármálakerfisins og krónunnar. Sem dæmi má nefna, þá kostaði Bandaríkjadalur 58 krónur, í lok árs 2007, en í dag kostar hann 130 krónur. Fyrir fyrirtæki með stóran hluta kostnaðar í krónum, en tekjur í erlendri mynt, þá styrki þetta reksturinn.
3. Landsvirkjun, langsamlega stærsta orkufyrirtæki landsins, hagnaðist um 10,8 milljarða króna í fyrra en heildartekjur fyrirtækisins námu 54 milljörðum króna, 421 milljónum Bandaríkjadala. Meðalverðið á megavattið sem fyrirtækið fékk var 24,5 Bandaríkjadalir sem er lægsta verð sem fyrirtækið hefur fengið að meðaltali í fimm ár. Árið 2010 fékk fyrirtækið 28,7 Bandaríkjadali á megavattið. Meginskýringin er sú að álverð hefur farið lækkandi en orkusalan til álvera byggir á samningum, þar sem söluverð raforku sveiflast meðal annars eftir álverði. Eigin fé Landsvirkjunar er nú rúmlega 1,9 milljarður Bandaríkjadala, eða sem nemur 255 milljörðum króna. Skuldir hafa lækkað um 107 milljarða frá árinu 2009, og nema heildarskuldir Landsvirkjunar nú tæplega tveimur milljörðum Bandaríkjadala.
4. Verðbólga mælist nú 2,2 prósent á ársgrundvelli, 0,3 prósentustigum undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem er 2,5 prósent. Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósentum frá því í febrúar 2014, eða í tvö ár samfleytt.
5. Atvinnuleysi mælist nú 2,8 prósent, miðað við tölur Hagstofu Íslands frá því í janúar. Atvinnuleysið fór hæst upp undir átta prósent, samkvæmt mánaðarlegum mælingum Vinnumálastofnunar, seinni part árs 2009 og fyrri part árs 2010. Frá þeim tíma hefur dregið jafnt og þétt úr atvinnuleysi.
6. Íslendingar voru 332.750 1. janúar 2016. Hinn 1. janúar 2009 voru íbúar landsins 319.400. Fjölgunin á sjö árum er um 13.350 manns.
7. Sú atvinnugrein sem hefur vaxið hraðast, og er nú orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar, er ferðaþjónusta. Árið 2009 komu 464 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, en í fyrra voru þeir 1,3 milljónir. Þessi mikla fjölgun hefur haft mikil hliðaráhrif á hagkerfið, með aukinni fjárfestingu og þjónustu. Því er spáð að erlendum ferðamönnum muni halda áfram að fjölga á næstu árum, um 20 til 30 prósent á ári.
8. Mikil aukning varð í framtaksfjárfestingu í tækni- og nýsköpunargeirunum á Íslandi á síðasta ári. Alls nam ný fjármögnun fyrirtækja sem tilheyra þeim geirum, og eru oft kölluð „eitthvað annað", 194 milljónum dala, um 25,2 milljörðum króna. Til samanburðar nam fjárfesting í þeim 11,5 milljónum dala, um 1,5 milljörðum króna, árið 2014. Hún tæplega 17faldaðist því í fyrra. Árið 2014 áttu sér stað alls sjö fjárfestingar í þessum geirum en í fyrra voru þær 17 talsins. Þetta kom fram í úttekt sem vefurinn The Nordic Web, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpunarfyrirtækja á Norðurlöndum, hefur gert.
9. Íslenska ríkið á nú um 80 prósent af fjármálakerfi þjóðarinnar eftir að hafa yfirtekið eignarhald á Íslandsbanka í byrjun ársins. Ríkið á Landsbankann (98 prósent), Íslandsbanka (100 prósent), Íbúðalánasjóð (100 prósent), Byggðastofnun (100 prósent) og LÍN (100 prósent). Þá á ríkið 13 prósent hlut í Arion banka, sem nú er í söluferli. Eigið fé Landsbankans og Íslandsbanka er tæplega 450milljarðar króna, þar af er eigið fé Landsbankans 264 milljarðar. Samkvæmt fjárlögum ársins í ár, er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji 28,8 prósent hlut í Landsbankanum, og fái fyrir það rúmlega 70 milljarða króna.
10. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt á undanförnum misserum en í fyrra voru skuldir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn greiddar upp, og efnahagsáætlun sjóðsins og stjórnvalda lauk formlega. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 ma.kr. til samanburðar við 1.492 ma.kr. í árslok 2014. Samsvarar það um 10% lækkun skulda á milli ára. Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 ma.kr. í lok ársins. Það er upphæð sem nemur rúmlega 50 prósent af árlegri landsframleiðslu Íslands, miðað við bráðabirgðatölur ársins 2015.