Eignir stóru viðskiptabankanna þriggja, sem endurreistir voru með handafli ríkisins eftir hrun, hafa aukist um tæpa þúsund milljarða króna frá árslokum 2008, þegar arðgreiðslur sem greiddar hafa verið út úr þeim eru taldar með. Í fyrra fór eignarsafn þeirra allra yfir eitt þúsund milljarða króna og samanlagt eiga áttu Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki eignir sem metnar voru á 3.176 milljarða króna um síðustu áramót. Eigið fé þeirra var samanlagt um 669 milljarðar króna.
Samtals hafa bankarnir þrír hagnast um 477,7 milljarða króna frá því að þeir voru endurreistir í október 2008. Þeir eru þó enn að langstærstu leyti fjármagnaðir með þeim innlánum landsmanna sem færð voru inn í bankanna með neyðarlagasetningunni í október 2008. Alls eru innlán viðskiptavina 1.622 milljarðar króna eða, eða 65 prósent af allri fjármögnun Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka. Þegar innlánum frá Seðlabanka Íslands og öðrum fjármálafyrirtækjum er bætt við hækkar það hlutfall enn frekar, en Seðlabankinn og þorri fjármálafyrirtækja á Íslandi eru í eigu íslenska ríkisins.
Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa út úr ársreikningum þeirra fyrir árið 2015 sem birtir voru í síðustu viku. Tveir af bönkunum þremur eru í ríkiseigu, Landsbankinn og Íslandsbanki. Ríkið á einnig 13 prósent hlut í Arion banka á móti fyrrum kröfuhöfum, og núverandi hluthöfum, í Kaupþingi.
Hagnaðurinn nemur hátt í 500 milljarða króna
Hagnaður stóru íslensku viðskiptabankanna hefur verið óheyrilegur sleitulaust frá því að þeir voru stofnaðir. Í fyrra setti Arion banki met í hagnaði hjá sér þegar bankinn græddi 49,7 milljarða króna. Þar skipti mestu máli að hann seldi hlut sinn í í tveimur erlendum fyrirtækjum, Refresco Gerber og Bakkavör. Samtals hefur bankinn hagnast um 153,7 milljarða króna frá því að hann var endurreistur á grunni hins fallna Kaupþings haustið 2008. Hagnaður síðust tveggja ára hefur skorið sig verulega úr, enda hefur rúmlega helmingur alls hagnaðar Arion banka komið á þeim árum. Bankinn hagnaðist því um hærri fjárhæð árin 2014 og 2015 en hann gerði frá haustmánuðum 2008 og fram til loka árs 2013.
Landsbankinn hefur líka gert það ansi gott, og raunar hagnast banka mest frá hruni. Bankinn græddi 36,5 milljarða króna í fyrra. Það skýrist að mestu vegna aukins hagnaðar af hlutabréfum og markaðsskuldabréfum og vegna leiðréttingar á söluhagnaði hlutdeildarfélags hans. Samtals nemur hagnaður Landsbankans frá hruni 178,8 milljörðum króna. Árið 2015 var, líkt og hjá Arion banka, algjört metár hjá Landsbankanum. Fyrra „met“ átti árið 2013 þegar hagnaðurinn nam 29,8 milljörðum króna.
Íslandsbanki græddi 20,6 milljarða króna í fyrra, sem var 2,1 milljarði krónum minna en árið áður. Alls jókst virði hlutabréfa og fjárfestinga í hlutafé hjá Íslandsbanka um 74 prósent í fyrra. Eign bankans undir þeim lið, sem eru annars vegar bréf skráð á markað og hins vegar óskráð bréf, fór úr 11,2 milljörðum króna árið 2014 í 18,3 milljarða króna í fyrra. Hækkunin er tilkomin vegna virðisbreytinga á eignum bankans og að mestu vegna hækkunar á óbeinni eign hans í Visa Europe, í gegnum dótturfélag bankans Borgun.
Samtals hefur Íslandsbanki hagnast um 145,2 milljarða króna fá því að hann var endurreistur á rústum Glitnis. Bankinn hefur náð þeim hagnaðarárangri þrátt fyrir að hafa „aðeins“ grætt 1,9 milljarð króna árið 2011. Ástæða þess að hagnaður Íslandsbanka var það lítill það árið var aðallega vegna áhrifa gengislánadóma og niðurfærslu á viðskiptavild sem færð var á reikning bankans það árið.
Samtals hafa endurreistu viðskiptabankarnir þrír því hagnast samtals um 477,7 milljarða króna frá því að þeir voru búnir til í kjölfar hrunsins.
Allir eiga yfir eitt þúsund milljarða
Eignir bankanna hafa einnig vaxið gríðarlega á þessu tímabili. Íslandsbanki átti 658 milljarða króna í eignum í lok árs 2008. Eigið fé bankans þá var 68 milljarðar króna. Um síðustu áramót átti bankinn eignir upp á 1.046 milljarða króna. Eigið fé hans var orðið 202,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 30,1 prósent.
Landsbankinn átti 1.037 milljarða króna í lok árs 2008 og eigið fé hans þá var 157,6 milljarðar króna. Eignir hans voru metnar á 1.119 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið féð nú er 264,5 milljarðar króna.
Arion banki átti eignir sem metnar voru á 641,2 milljarða króna í lok árs 2008. Eigið fé bankans, sem þá hét Nýi Kaupþings, var 76,9 milljarðar króna. Í lok árs 2015 voru eignir Arion banka metnar á 1.011 milljarða króna og eigið fé bankans var 202 milljarða króna.
Árið 2015 var því árið sem eignarsafn allra stóru viðskiptabankanna fór yfir eitt þúsund milljarða og samanlagðar eignir þeirra í árslok voru 3.176 milljarðar króna. Eignir bankanna eru nú 840 milljörðum krónum meiri en þær voru í árslok 2008. Þá á eftir að telja til þann arð sem þeir hafa greitt til hluthafa á tímabilinu. Þeir hafa samtals greitt út 129,4 milljarða króna í arð frá lokum hrunsársins. Langstærstur hluti þeirra arðgreiðslna hafa verið greiddar af Landsbankanum, eða 82,6 milljarðar króna.
Þegar arður sem greiddur hefur verið út úr Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka til eigenda þeirra er lagður saman við hækkun á eignarsafni þeirra er ljóst að samanlagt hefur hreinn ágóði þeirra frá lokum árs 2008, eftir skatta og gjöld, verið 969,4 milljarðar króna.
Eigið féð rúmlega tvöfaldast þrátt fyrir arðgreiðslur
Eigið fé bankanna, sá hagnaður og virðisauki sem ekki hefur verið greiddur út í arð, hefur líka vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Sá vöxtur er að stórum hluta tilkominn vegna þess sem kallað er „óreglulegir liðir“. Það er til dæmis sala á eignum eða hækkun á virði þeirra milli ára. Einhver ágóði sem er tilkominn vegna breytu sem eru ekki hluti af grunnrekstri bankanna.
Samanlagt nam eigið fé Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka 302,5 milljörðum króna í lok árs 2008. Um síðustu áramót þá nam það 668,7 milljörðum króna. Það hefur því rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili þrátt fyrir að bankarnir hafi, líkt og áður sagði, þegar greitt út 129,4 milljarða króna í arð. Eiginfjárhlutfall bankanna allra er afar hátt. Hjá Landsbankanum og Íslandsbanka er það um 30 prósent en rúmleg 24 prósent hjá Arion banka. Sterk rök eru fyrir því að bankarnir þurfi að halda því háu til að geta tekist á við möguleg áföll í framtíðinni og þær sviptingar og áskoranir sem þeir þurfa óumflýjanlega að takast á við þegar höftum verður lyft.
Hið mikla eigið fé gerir það hins vegar líka að verkum að erfitt gæti verið að selja bankanna, líkt og að minnsta kosti hluti ríkisstjórnar Íslands vill gera. Ef miðað er við að greitt verði ein króna fyrir hverja krónu sem bankarnir eiga í eigið fé þyrftu áhugasamir fjárfestar að greiða um 480 milljarða króna fyrir þann 28,2 prósent hlut sem til stendur að selja í Landsbankanum og allt hlutafé Íslandsbanka og Arion banka. Ljóst er að ekki margir innlendir fjárfestar, ef einhverjir, hafa getu til að kaupa slíka hluti með eigin fé utan lífeyrissjóðanna, sem munu nær örugglega ekki kaupa alla bankanna.
Fjármagnaðir með innstæðum okkar
Með neyðarlögunum sem sett voru 6. október 2008 var ákveðið að gera innstæður Íslendinga að forgangskröfum í þrotabú þeirra banka sem féllu næstu daganna á eftir. Í framkvæmd virkaði hugmyndin þannig að nýir bankar voru endurreistir á grunni þeirra sem féllu og allar innlendar innstæður Íslendinga voru færðar inn í þá. Með því var tryggt að þær töpuðust ekki og með þeim var hægt að fjármagna nýju bankanna, sem reistir voru á grunni hinna gömlu. Til að mæta þessum skuldum, því innstæður eru jú skuldir banka við viðskiptavini sína, voru ferðar inn eignir úr þrotabúunum yfir í nýju bankanna. Þær eignir hafa síðan ávaxtast mjög á undanförnum árum og umsýsla með þær útskýrir stóran hluta af ofurhagnaði bankanna þriggja frá hruni.
Þótt að bönkunum hafi tekist að koma miklu af eignum sínum í verð á þessum tíma þá hefur fjármögnun þeirra lítið breyst. Aðgengi þeirra að erlendum fjármálamörkuðum er takmarkað og kjörin sem þeim bjóðast fyrir skuldabréfaútgáfu ekkert sérlega beysin, þótt þau hafi lagast á undanförnum misserum. Þess vegna eru bankarnir enn fjármagnaðir að langstærstu leyti af innstæðum landsmanna. Samanlagt nema innstæður frá viðskiptavinum þeirra allra 1.622 milljörðum króna, eða rúmlega 65 prósent af samanlögðum skuldum bankanna. Þegar innstæður Seðlabanka Íslands, sem er hluti af ríkinu, og annarra fjármálastofnanna, sem eru að mestu í ríkiseigu, er bætt við hækkar þetta hlutfall enn frekar.