Greining Capacent á tryggingamarkaðnum íslenska leiðir það í ljós að markaðsverðið á Sjóvá og TM, miðað við stöðu mála 26. febrúar síðastliðinn, er vanmetið en verðið á VÍS er of hátt.
Heildarmat tryggingarfélaganna þriggja er um 11 prósent hærra en markaðsvirði þeirra segir til um, miðað við fyrrnefndan viðskiptadag fyrir tæpri viku. Þannig var markaðsvirði Sjóvá 19,8 milljarðar en að mati greinenda Capacent er það 25,6 milljarðar. Markaðsvirði TM var 17,1 milljarður en mat greinenda Capacent var að TM væri 19,5 milljarða króna virði. Hjá VÍS var þessu öfugt farið, en á meðan markaðsvirði þess var 22,8 milljarðar þá var virði félagsins metið 21,1 milljarður. Þetta kemur fram í skýrslu Capacent, sem Kjarninn hefur undir höndum, og var kynnt 29. febrúar síðastliðinn.
Lágt metin
Í greiningunni, sem kynnt var 29. febrúar síðastliðinn, kemur fram að íslensk tryggingafélög séu á hálfvirði, í alþjóðlegum samanburði. Nefnt er að íslensk tryggingarfélög séu nú verðmetin um þessar mundir á 1,2 sinnum eigið fé en í Evrópu sé víðast hvar horft til mun hærri margfaldara, eða 2,8 sinnum eigið fé. Ástæðan fyrir þessum mun, að mati greinenda Capacent, er sögð vera sú að rekstur tryggingarhlutans, það er grunnþáttarins í starfseminni, skilar betri afkomu hjá samanburðarfélögunum.
Horft á skráðu félögin
Sérstaklega er vikið að þessum fyrrnefndu félögum í greiningunni á tryggingamarkaðnum, þar sem þau eru öll skráð á markað og með mestu hlutdeild á markaði, sé miðað við iðgjöld. VÍS er með mestu hlutdeildina, 33,3 prósent, TM er með 26,8 prósent, Sjóvá 28,3 prósent og Vörður, sem er í eigu Arion banka, með 11,6 prósent. Þrátt fyrir að vera minsta félagið á markaðnum þá hefur markaðshlutdeild Varðar vaxið nokkuð á undanförnum árum, og farið úr 9,2 prósentum árið 2010 í 11,6 prósent nú, eins og fyrr segir.
Fjárfestingastarfsemi ber uppi góða afkomu
Fjárfestingarstarfsemi tryggingarfélaganna skilaði góðri afkomu í fyrra. Hún hefur ekki verið betri í sex ár, en að meðaltali uxu eignir tryggingarfélaganna um 15 prósent í fyrra. Ávöxtun verðbréfa á Íslandi var góð í fyrra, og hækkuðu til að mynda hlutabréf félaga sem skráð er í kauphöll Íslands um 43 prósent í fyrra. Sé horft til þessarar ávöxtunar eigna, í samhengi við samsett hlutfall félaganna, það er hlutfall iðgjalda sem fer í að greiða tjón og standa undir rekstri, þá telst þetta góð ávöxtun.
Samsetta hlutfallið hefur verið undanfarið ár í kringum 100
prósent hjá tryggingarfélögunum, eins og sjá má á meðfylgjandi.
Krefjandi tími og háar arðgreiðslur
Í greiningu Capacent kemur fram að næstu ár gætu verið krefjandi fyrir tryggingarfélögin, þar sem ekki sé hægt að ganga að því vísu, að ávöxtun á eignamörkuðum verði jafn góð og hún hefur verið að undanförnu. Verðbréfamarkaðir séu oft aðeins á undan hagsveiflunni, eins og erlendar rannsóknir sýni. Tryggingarfélögin gæti þurft að búa sig undir erfiðari rekstrarskilyrði en hafa verið fyrir hendi undanfarið.
Hluthafar tryggingarfélganna hafa notið góðs af góðu gengi
tryggingarfélaganna, og má vísa til tillagna sem liggja fyrir til samþykktar á
aðalfundum félaganna sem fara fram á næstunni. Tillögur, sem bornar verða undir
aðalfundi, gera ráð fyrir arðgreiðslum töluvert umfram árlegan hagnað. Mesta
arðgreiðslan er fyrirhuguð hjá VÍS, um fimm milljarðar króna, en hagnaðurinn í
fyrra var rúmlega tveir milljarðar.
Samtals er gera tillögurnar ráð fyrir 8,5 milljarða arðgreiðslu frá VÍS, TM og
Sjóvá, vegna rekstursins í fyrra.