Af þeim 2,3 milljörðum króna Nýsköpunarmiðstöð Íslands sótti um úr úr Rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóði, samkeppnissjóðum sem fjármagnaðir eru með opinberu fé, á árunum 2007 til loka árs 2015 hefur hún fengið 875 milljónir króna. Miðstöðin hefur alls skilað inn 274 umsóknum á tímabilinu og hlotið 183 styrki.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands er stofnun sem heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hennar, samkvæmt lögum um hana, er „að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu“. Á árinu 2015 fékk miðstöðin 537 milljónir króna í bein framlög úr ríkissjóði. Í ár er áætlað, samkvæmt fjárlögum, að hún fá samtals 569 milljónir króna úr ríkissjóði og muni auk þess afla sértekna upp á 843 milljónir króna.
Samkvæmt lögum um Nýsköpunarmiðstöð fær hún tekjur sínar frá framlögum úr ríkissjóði, þjónustugjöldum, fjármagnstekjum, tekjum vegna hlutdeildar í félögum og „öðrum tekjum“. Aðrar tekjur eru styrkir sem miðstöðin sækir í, meðal annars hjá samkeppnissjóðum sem hið opinbera fjármagnar.
Sækir í flestum tilfellum um styrki með öðrum
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, beindi fyrirspurn til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í lok nóvember síðastliðinn og spurði hvort Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefði sótt um eða fengið styrki úr samkeppnissjóðum og á hvaða lagagrundvelli það væri gert. Auk þess óskaði hann eftir upplýsingum um umfang þeirra styrkja sem miðstöðin hafði fengið.
Svar Ragnheiðar Elínar barst í gær. Þar segir að Nýsköpunarmiðstöðin geti sótt um styrki á grundvelli laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun frá árinu 2007. „Nýsköpunarmiðstöð styður við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, m.a. með því að veita þeim húsnæði, ráðgjöf, leiðsögn og upplýsingar[...]Nýsköpunarmiðstöð sækir í flestum tilfellum um styrki með öðrum, svo sem sprotafyrirtækjum eða fyrirtækjum sem eru í rannsóknum og þróun. Því er það aðeins hluti styrksins sem sótt er um sem rennur til Nýsköpunarmiðstöðvar,“ segir enn fremur í svarinu.
Þar er síðan birt tafla sem sýnir að Nýsköpunarmiðstöð hefur fengið 38 prósent þeirrar upphæðar sem hún hefur sóst eftir úr ofangreindum tveimur samkeppnissjóðum frá árinu 2007. Alls hefur miðstöðin fengið 875,3 milljónir króna í styrki á tímabilinu en hún sóst eftir 2,3 milljarða króna í slíka á því. Sá fyrirvari er sleginn í svari Ragnheiðar Elínar að hluti umsókna sem skilað var inn árið 2015 sé enn í umsóknarferli og niðurstaða þeirra liggur ekki fyrir. Gert er ráð fyrir því í svarinu að niðurstaða þeirra verði jákvæð.
Fjórðungur styrkja fór til Nýsköpunarmiðstöðvar
Úthlutanir styrkja til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands komust síðast í fréttir í október 2015 þegar Fréttablaðið greindi frá því að miðstöðin hefði fengið fjórðung þeirra styrkja sem Orkusjóður hafði nýverið úthlutað til alls ellefu verkefna. Í umfjöllun blaðsins kom fram að formaður nefndarinnar sem velur hverjir fá styrki, Árni Sigfússon, er bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteins Inga Sigfússonar. Árni vék ekki sæti þegar fjallað var um styrkveitinguna. Árni kallaði umfjöllun Fréttablaðsins „ljótan leik“ í samtali við Stundina. Hann hafnaði því að eitthvað væri athugavert við úthlutunina, enda væri hún til ríkisstofnunar, ekki persónulega til bróður hans.
Forsvarsmaður fyrirtækisins Valorku kvartaði til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna málsins og taldi Árna vera vanhæfan til að koma að úthlutun styrka til Nýsköpunarmiðstöðvar vegna vensla. Hann vildi meina að málsmeðferðin hafi getað verið í andstöðu við stjórnsýslulög. Í öðrum kafla þeirra segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu".
Fréttaskýringin var uppfærð 11:30 til að leiðrétta rangfærslur sem upphaflega voru í henni. Um er að ræða heildarstyrkjaumsóknir Nýsköpunarmiðstöðvar en ekki heildarúthlutanir sjóðanna.