Hvað fær franskar unglingsstúlkur til þess að flýja til Sýrlands og fara berjast fyrir íslamska ríkið? Undirbúa hryðjuverkaárásir í eigin landi? Dagblaðið Le Monde birti nýlega athyglisverða blaðagrein um þetta mál sem byggir á lögreglurannsókn á nokkrum unglingsstúlkum sem eru ýmist á leið til Sýrlands eða ný komnar þaðan.
Slík rannsókn hefur aldrei þekkst áður í Frakkalandi. Hún beinist að frönskum börnum, ósköp venjulegum, ráðviltum unglingsstúlkum á aldrinum fjórtán til nítján ára sem hættulegir menn hafa ruglað í og heilaþvegið. Stúlkur á gelgjuskeiðinu, í vandræðum með sjálfsmyndina, framtíðina, aðstæður sínar og þrá annarskonar líf – í þessu tilfelli íslamska öfgastefnu og fá að drepa í nafni Allah.
Þær koma úr venjulegum millistéttarfjölskyldum, hanga í tölvunni og hafa mánuðum saman rabbað við háttsetta menn íslamska ríkisins. Þetta er saga af fimm stúlkum; tvær þeirra eru þá þegar komnar til Sýrlands, hinar þrjár hafa heitið þess að fremja hryðjuverk í Frakklandi.
Strokubarnið Léa
Léa er fjórtán ára gömul stúlka sem býr í París. Fyrirmyndarnemandi en viðkvæm og á erfitt með tjá sig, grætur oft að ástæðulausu. Hún kemur úr múslimafjölskyldu, faðir hennar er ættaður frá Alsír en er trúlaus. Móðir hennar ber ekki slæðu. Þetta er frjálslynd, venjuleg, frönsk fjölskyla. En allt í einu fyrir tveimur árum síðan fær Léa skyndilega mikinn áhuga á Islam og fer að hylja andlit sitt með slæðu, sem vekur dræmar undirtektir á heimilinu.
Þann 18. júní 2014 lætur stúlkan sig hverfa. Á þeim tíma þegar bekkjarfélagar hennar í gagnfræðaskólanum eru að mæta á mötuneytið er hún á leiðinni með 12:25 lestinni til Amsterdam. Klukkan 18:15 sendir hún pabba sínum símaskilaboð, í síðasta sinn, og stígur um borð í flugvél á leið til Istanbúl. Síðan tekur við tíu tíma ferðalag í rútu og þá er hún komin að landamærum Tyrklands og Sýrlands. Þar er tekið á móti henni og hún keyrð til Rakka í Norður-Sýrlandi. Á einum degi hefur líf hennar gjörbreyst – hún er orðin ríkisþegn „Caliphate“ – þáttakandi í byltingu íslamska ríkisins og hún er samstundis kynnt fyrir tilvonandi eiginmanni sínum, sem er átta árum eldri en hún.
Hún skildi eftir lítið kveðjubréf heima hjá sér, setti það undir dýnuna í rúminu sínu:
„Þið eruð vafalaust uppfull af áhyggjum, en eftir tíu klukkutíma verð ég orðinn meðlimur ríkis þar sem ég get stundað trú mína eðlilega og af fullri reisn. Ég er komin til hinnar heilögu borgar Cham í Sýrlandi; komin til fyrirheitna landsins, dögun hins nýja heims er í nánd. Ég yfirgaf ykkur vegna þess að hamingja mín er í húfi, ég vil fá að lifa í trúnni. Pabbi afneitar djilbeb og mamma, þú leyfir mér ekki að hætta í skólanum“
Léa, ókunnug um skilgreiningu Cham eða al-Sham, sem sögulega vísar til stórs svæðis á Miðausturlöndum en ekki borgar, lætur þess ekki getið hvar hún hyggst fara eða hvað beinlínis bíði hennar. Hún veit það ekki sjálf á þessari stundu. Franska lögreglan og leyniþjónustan kemst fljótlega að því að hún hefur undanfarið verið í samskiptum á Facebook við Abu Saad Al Maghrebi, vígamann íslamska ríkisins, sem er franskur ríkisborgari, fæddur í Nimes.
Þeir sem rannsaka málið komast síðan að því að rétt áður en hún yfirgaf heimili sitt var hún sömuleiðis í sambandi við aðrar ungar stúlkur í Frakklandi. Meðal annars Camille, fimmtán ára gömul, búsett í Suður-Frakklandi. Þótt hún komi frá algjörlega trúlausu heimili, faðir hennar ættaður frá Alsír og móðir hennar kemur frá kaþólsku heimili, þá hefur hún algjörlega frelsast; er tilbúin að fórna lífi sínu, flýja til Sýrlands og berjast þar fyrir íslamska ríkið. Allt eftir að hafa lesið greinar á netinu og verið þar í samskiptum við öfgafólk. Léa og Camille ræða saman um stríðið, trúnna og framtíðina.
Léa er líka í samskiptum við Juliette sem býr í Norður-Frakklandi og hefur snúist til íslamskrar trúar á aðeins einu ári, hylur andlit sitt og fer reglulega í moskuna.
Camille og Juliette eru kallaðar til yfirheyrslu hjá lögreglunni, tveimur dögum eftir hvarf Léu. Þær viðurkenna að hafa verið í sambandi við hana en neita að hafa tekið þátt í brotthvarfi hennar. Camille segist samt skilja þessa ákvörðun og segir við lögregluna:
„Foreldrar mínir eru trúleysingar. Ég er Salafi. Ég vil tilheyra íslamska ríkinu. Fyrir mér er það Sannleikurinn“
Lögreglumenn trúa vart því sem þeir sjá og heyra. Venjuleg, frönsk unglingsstúlka uppfull af trúarhita og í vígahug sem vill drepa í nafni Allah.
Þann 14. ágúst spjallar Camille við vinkonu sína á Netinu; Fatimu sem er sautján ára gömul. Þær eru hundfúlar yfir því að geta ekki komist til Sýrlands til þess að berjast.
Þær tala um sprengjuárás í Frakklandi sem önnur frönsk stelpa, Vanessa, nítján ára gömul hefur hvatt þær til þess að taka þátt í. Vanessa er alin upp í kristinni trú, en er orðin múslimi og nýgengin til liðs við öfgasveitir í Sýrlandi, mánuði á undan Léu.
„Hvað er þetta kamikaze?“
Það er lyginni líkast að fylgast með samskiptum þessara unglingsstúlkna á netinu. Orðaskiptin lýsa reiði, vonbrigðum, gyðingahatri, leiðindum, sjálfsmorðshugleiðingum og ofbeldi:
Camille: -Ef ég get ekki farið til Sýrlands ætla ég að taka þátt í kamikaze In Sha Allah.
Fatima: - Kamikaze hvað?
Camille: - Þú bara sprengir spengju.
Fatima: - Hvar? Ég ætla að reyna vera með!
Camille: - Við ætlum að ráðast á ríkisstjórnina! Helst við Eiffel-turninn.
Fatima: - Já, en þar gætu verið múslimar.
Camille: - En, við reynum líka að ráðast á gyðingahverfin.
Fatima: - Já! Það er líka gyðingahverfi í Lyon.
Þessi hryðjuverkaárás stúlknanna er langt frá því að vera þaulskipulögð en Camille hefur samt lýst því að hún ætli að stela skotvopnum frá föður sínum. Samræðurnar og samskipti þeirra eru uppfull af andúð á gyðingum. Camille er aftur kölluð til yfirheyrslu og segir þar:
„Ég er ekkert endilega öfgamanneskja. Að drepa í nafni Allah eða deyja í sjálfsmorðsárás – þetta er eðlilegur hluti þess að trúa og lifa í trú“
„Þú ættir að sjá hann – hann er ógeðslega sætur“
Umræðurnar snúast um líf og dauða, borgarastyrjöld en líka gelgjulegt rabb um hermenn íslamska ríkisins, hugrekki þeirra og dáðir, og hversu flottum skóm þeir klæðast.
Camille: Og í gær, þú veist, þetta var á Facebook, ég sá mynd af bróður, þú veist, uh ... þetta var svona Abu Guitone dæmi, þú skilur?
Fatima - Abu hvað?
Camille: - Og, alveg rosalegt. Hann fórnaði sér! Algjörlega machallah (Guðs vilji), ég meina. Þú hefði átt að sjá þetta. (hlær)
Fatima: - Já?
Camille: - Þú ættir að sjá hann, hann er í ógeðslega kúl hermannafötum og í Air Max skóm.
Fatima: - Er hægt að fá Air Max í Cham?
Camille: - Já, þeir eru með Air Max. Þegar þeir fórna sér, fá þeir að velja sér föt, þeir eru allir í Air Max. Þú veist Air Max – tennistýpan.
Þessar unglingsstúlkur sem hafa heillast af íslamska ríkinu, sjálfsmorðsárásum og styrjöldum er ekkert einsdæmi. 867 tilfelli hafa verið tilkynnt til franska innanríkisráðuneytisins, öfgafullir franskir unglingar sem líklegir eru til þess að fremja hryðjuverk. Sífellt fleiri franskar konur ganga til liðs við íslamska ríkið: Þær voru um 12% (218 konur) af öllum þeim Frökkum sem fóru til Sýrlands til þess að berjast, nú eru þær um 35% (593). Þriðjungur þeirra hefur snúist til íslamskrar trúar á síðastliðnum árum. Þær virðast, af einhverjum ástæðum vera róttækari en aðrar konur í þessum samtökum. Þessar ungu stúlkur vekja mikla eftirtekt hjá hermönnum íslamska ríkisins, sem reyna gjarnan að komast í samband við þær og lokka þær til sín.
Camille segir frá þessu í spjalli við vinkonu sína:
„Já, og margir bræður fóru að biðja mig um að giftast sér og allt! Eftir að við urðum vinir á Facebook. Þeir eru mjög vingjarnlegir og hjálplegir. Gefa manni góð ráð eins og: „Ekki fara í mosku í Frakklandi, það er ekki kennt rétt Islam þar, hið rétta Islam er í Cham, við munum kenna þér allt, treystu okkur kæra systir“ – Ég er búinn að fá fullt af bónorðum, ég á eftir að enda með 50 eiginmenn þarna.“
Abu Saad Al Maghreb, 22 ára gamall vígamaður, ættaður frá Frakklandi, sem lokkaði hina 14 ára gömlu Léu til Sýrlands hefur sent öllum þremur, Léu, Camille og Juliette bónorð. Hann var fyrsti Frakkinn til þess að birtast opinberlega og segjast berjast fyrir íslamska ríkið. Nýlega sást hann í myndbandi á netinu þar sem hann fagnaði árásunum í París 13. nóvember 2015.
Al Magreb hefur lengi elsts við stelpur á netinu sem sýna íslamskra ríkinu áhuga, rætt við þær og veitt þeim ýmiskonar ráðleggingar. Hann þykir beita miklum þrýstingi og hvetur þær til þess að koma til Sýrlands hið fyrsta áður en landamærum þar verði lokað.
Dómskerfið og frönsk viðurlög
Hvernig bregðast dómstólar við þessum stúlkum? Teljast þær hættulegar í heimalandi sínu? Eða eru þær ef til vill hættulegastar sjálfum sér? Þrjár konur sem hafa snúið aftur frá Sýrlandi sitja nú í frönsku fangelsi. Það er frekar litið á þessar konur sem fórnarlömb en stríðsmenn. Ungar konur sem ganga til liðs við íslamska ríkið hafa þurft að þola hópnauðganir, pyntingar og ýmiskonar viðbjóð og snúa gjarnan til baka, til síns heimalands, niðurbrotnar og örvinglaðar. Þetta er í flestum tilfellum ráðvillt, ungt og hvatvíst fólk sem hefur enga hugmynd um hvað raunverulega bíður þeirra.
Samkvæmt hugmyndafræði íslamska ríkisins eiga konur ekki að taka þátt í átökum – þær eiga að sjá um húsverkin, ala upp börn og þjóna karlmanninum, en margir hryðjuverkasérfræðingar telja engu að síður að þær séu oft mun öfgafyllri en þeir karlmenn sem ganga til liðs við íslamska ríkið.
Mál þessara frönsku stúlkna, sem hér hafa verið rakin, eru til meðferðar hjá frönskum dómstólum. Vanessa er ein þeirra kvenna sem hafa snúið aftur til Frakklands. Hún yfirgaf Sýrland og eiginmann sinn í júlí 2015 og situr nú í frönsku fangelsi. Eftir sjálfsmorðstilraunir í fangelsinu hefur verið reynt að flýta máli hennar.
Dómstólar og lögregluyfirvöld eiga í vandræðum með að afgreiða og rannsaka þessi flóknu og viðkvæmu mál. Frakkar eru opinberlega í stríði við íslamska ríkið, lögreglan hefur fengið víðtækar heimildir til að koma böndum á hryðjuverkamenn og neyðarlögin gilda enn í Frakklandi.
Hvernig ber að taka á málum þessara ungu stúlkna, sem sumar hverjar eru enn ólögráða börn? Camille situr í sérstöku barnafanglesi. Hún hefur fengið að hitta fjölskyldur barna sem hafa flúið til Sýrlands til þess að berjast. Þegar hún kom fram fyrir dómstóla í september 2014 reyndi hún að draga í landi með öfgaskoðanir og sagði að hún hefði verið heilaþvegin og ekki með sjálfri sér. Lögreglan telur þó að hún sé úlfur í sauðagæru, hættulegur vígamaður íslamska ríkisins sem þrái ekkert heitara en að berjast áfram í Sýrlandi. Í janúar síðast liðnum var fengelsisdómur hennar framlengdur.
Greinin er lauslega þýdd úr Le Monde. Upprunalegu greinina má lesa hér.