Reykjavík Media ehf., fjölmiðlafyrirtæki í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, ICIJ, sem eru alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung og fleiri erlendir fjölmiðlar hafa unnið saman að fréttaumfjöllun um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum undanfarna mánuði. Þær fréttir munu birtast þeim miðlum á allra næstu vikum. Þetta staðfestir Jóhannes Kr. í samtali við Kjarnann.
Í fyrradag opinberaði Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, í stöðuuppfærslu á Facebook að hún ætti erlent félag sem héldi utan um miklar eignir hennar. Þær eignir eru arfur sem hún fékk í kjölfar þess að fjölskyldufyrirtæki hennar seldi Toyota á Íslandi árið til til Smáeyjar ehf. fyrirtækis Magnúsar Kristinssonar, í desember 2005 fyrir 5,6 milljarða króna. Eignir forsætisráðherrahjónanna eru um 1,2 milljarðar króna samkvæmt skattframtölum og eru þær að langstærstu leyti inni í umræddu félagi. Anna Sigurlaug tiltók sérstaklega að hún hefði staðið skil á öllum sköttum hérlendis sem hún hefði átt að greiða og aðstoðarmaður forsætisráðherra sendi staðfestingu á réttum skattskilum hennar á fjölmiðla í gær.
Opinberun hennar kom í kjölfar þess að Jóhannes Kr. setti sig í samband við forsætisráðherra vegna þeirrar umfjöllunar sem birt verður á næstu vikum, en þar er meðal annars fjallað um félag eiginkonu hans.
Kjarninn upplýsti um það í gærmorgun að umrætt félag, sem heitir Wintris Inc., er skráð á Bresku Jómfrúareyjunum og að það hafi verið Landsbankinn, þáverandi viðskiptabanki Önnu Sigurlaugar, sem hafi ráðlagt henni að stofnsetja það með þessum hætti. Eignirnar sem eru í félaginu eru lausafé, skuldabréf og einhver verðbréf, þó ekki í íslenskum félögum. Eina fyrirtækjaeign Önnu Sigurlaugar á Íslandi er tíu prósent hlutur í nýsköpunarfyrirtækinu Divine Love sem stofnað var árið 2013.
Wintris áttu kröfur í slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans sem samanlagt eru upp á rúmlega 500 milljónir króna að nafnvirði.
Wintris er í dag í fjárstýringu hjá Credit Suisse í Bretlandi. Félagið er í 100 prósent eigu Önnu Sigurlaugar þrátt fyrir að það hafi um tíma verið skráð í helmingseigu Sigmundar Davíðs hjá bankanum. Í stöðuuppfærslunni sem hún birti á Facebook í fyrradag sagði: „Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fylgdi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið. Félagið var því frá upphafi rétt skráð á Íslandi og hélt utan um séreign mína. Skráningin úti og leiðrétting hennar hafði því engin eiginleg áhrif[...]Þar sem ég er ekki sérfræðingur í viðskiptum þá hef ég áfram haft fjölskylduarfinn í fjárstýringu hjá viðskiptabanka mínum í Bretlandi og þar eru gerðar sérstakar kröfur til mín og þeirra sem mér tengjast vegna þessara reglna. Frá því að Sigmundur byrjaði í stjórnmálum hef ég beðið um að ekki sé fjárfest í íslenskum fyrirtækjum til að forðast árekstra vegna þess.“
ICIJ birti gögn í samstarfi við stórmiðla í fyrra
Fyrir rúmu ári síðan birtu ICIJ samtökin, sem Reykjavík Media eru nú hluti af, upplýsingar um umfangsmikil skattsvik sem svissneski bankinn HSBC aðstoðaði þúsundir manns út um alla heim, þó einkum í gegnum útibú sitt í Bretlandi, við að fremja. Þetta var gert með því að fela peningalegar eignir fyrir skattayfirvöldum. Á meðal þeirra gagna sem birt voru voru upplýsingar um sex aðila tengda Íslandi sem ICIJ sagði að hefðu komið um 1,2 milljarði króna (9,5 milljónum dala) undan skatti. Um hafi verið að ræða þrettán einstaklingareikninga sem opnaðir voru hjá bankanum milli áranna 1995 og 2005 og tengdust þeir átján bankareikningum. Sex aðilar tengdir Íslandi áttu reikningana, og hæsta upphæð tengd einum þeirra nemur 8 milljónum dala. Skattrannsóknarstjóri fékk gögnin afhent til rannsóknar en komst að þeirri niðurstöðu í maí að þau gæfu ekki tilefni til frekari aðgerða..
Á meðal fjölmiðla sembirtu ítarlegar umfjallanir úr gögnunum frá HSBC voru The Guardian, Bild, Le Monde og rannsóknarblaðamennskuþátturinn BBC Panorama. Meðal þess sem fram kom í gögnunum var að sterkefnað þekkt fólk, ekki síst sem tengist afþreyingar- og tískuiðnaði, Formúlu 1 kappakstri og stjórnmálum, hafi kerfisbundið svikið undan skatti með leynilegum reikningum sem HSBC aðstoðaði við að koma upp og reka. Meðal þeirra sem þetta gerðu voru spænski Formúlu 1 ökuþórinn Fernando Alonso, fyrirsætan Elle McPherson, tónlistarmaðurinn Phil Collins, leikarinn Christan Slater og Hosnai Mubarak, fyrrverandi einræðisherra Egyptalands, að því er fram kom í Bild. Tugþúsundir annarra viðskiptavina HSBC í London gerðu slíkt hið sama.