Harlem hverfið í New York er alræmt hverfi í hugum margra, og ekki af ástæðulausu. Í gegnum tíðina hefur það orðið að táknmynd fátæktar og erfiðleika svartra í stórborgum Bandaríkjanna, og hefur þessi mynd oft verið dregin upp í kvikmyndum og öðrum kimum afþreyingariðnaðar.
En staða mála í hverfinu hefur verið að batna verulega á undanförnum árum, og bendir margt til þess að hverfið verði framtíðarbústaður millistéttarfólks í New York, sem sífellt færist ofar á Manhattan eyju. Á henni búa 1,6 milljónir manna, en heildaríbúafjöldi í New York var í lok árs í fyrra 8,3 milljónir manna, en á síðustu þremur árum hefur íbúum fjölgað um 164 þúsund.
Íbúafjöldi í Harlem er svipaður og hér á landi, 335 þúsund manns á móti tæplega 333 þúsund á Íslandi. Hverfið er ekki eitt af fimm lykilhverfum borgarinnar, sem eru Staten Island, Brooklyn, The Bronx, Queens og Manhattan. Heldur telst það hluti af Manhattan byggðinni.
Mikil breyting
Saga Harlem hverfisins er um margt saga baráttu, ekki síst þegar kemur að réttindum svartra, enda hefur hverfið ávallt verið heimavöllur svartra Bandaríkjamanna. Í fyrsta skipti síðan á þriðja áratug 20. aldar eru svartir nú í minnihluta í hverfinu, eða um 40 prósent íbúa. Spænsku mælandi fólki, einkum frá Suður-Ameríku, hefur fjölgað mikið í hverfinu á undanförnum tveimur áratugum, og þá færist það sífellt í aukanna að hvítir Bandaríkjamenn velji að búa í hverfinu.
Meðaltekjur íbúa hafa hækkað umtalsvert á síðastliðnum árum. Þær eru þó enn umtalsvert lægri en landsmeðaltalið, eða sem nemur 24 prósentum lægra. Meðaltalstekjur á heimili í Harlem nema um 40 þúsund Bandaríkjadölum, um 5,2 milljónum króna. Meðaltalið í New York er rúmlega 50 þúsund Bandaríkjadalir. Kaupmáttur fólks í Harlem er því minni en gengur og gerist að meðaltali annars staðar, auk þess sem fastur kostnaður við búsetur í New York er óvíða jafn hár. Borgin er í dag 7. dýrasta borg heims, en hefur oft verið á toppi listans, sem The Economist tekur saman árlega.
Atvinnuleysi lækkar
Í gegnum tíðina hefur atvinnuleysi verið einn versti óvinur Harlme-hverfisins. Það hefur stundum verið þrefalt hærra en landsmeðaltal, en á undanförnum tveimur áratugum hefur markvisst tekist að búa til traustari vinnumarkað, meðal annars með uppbyggingu þjónustu innan hverfisins, sem fólk þurfti oft að sækja utan þess á árunum áður. Það á við um verslun og þjónustu, en einnig framleiðslu á nauðsynjavörum, svo sem fatnaði og gjafavöru. Ríki menning er fyrir þess háttar vörum í Harlem og sækja ferðamenn og íbúar annarra hverf töluvert í sérverslanir í hverfinu. Af heildarfjölda vinnumarkaðarins í Harlem vinnur um 15 prósent við þjónustustörf í hverfinu sjálfu, en færst hefur í vöxt að fólk sem vinnur sérfræðistörf á Manhattan, finni sér heimili í hverfinu.
Þá nýtur hverfið góðs af áhrifum frá Columbia-háskóla, en aðstaða á vegum skólans er að miklu leyti byggð upp í Harlem. Ríflega þrjátíu þúsund nemendur voru skráðir í skólann í fyrra, en þegar allir eru meðtaldir, kennarar, stjórnendur, rannsakendur og fjölskyldur þeirra sem starfa við skólann, eru tæplega 50 þúsund manns í samfélagi skólans.
Mánaðarleiga í miðhluta Harlem er mun lægri en neðar á Manhattan, og munar þar oft tugum prósenta á fermetraverði. Dæmigerð tveggja herbergja íbúð er víða um um 2.000 Bandaríkjadali, um 260 þúsund krónur, á mánuði, á meðan verðið neðar á Manhattan er mun hærra að meðaltali, eða nærri 4.000 þúsund Bandaríkjadölum, eða um 520 þúsund krónum á mánuði.
Atvinnuleysi mælist nú 7,7 prósent í Harlem, en landsmeðaltalið er tæplega fimm prósent. Í New York er atvinnuleysi 6,4 prósent, mest í Queens og ákveðnum hluta Brooklyn-hverfisins. Þetta er mikil breyting frá því sem var áður fyrr, en þá var algengt að ársmeðtal atvinnuleysis í Harlem væri á bilinu fimmtán til tuttugu prósent. Með tilheyrandi félagslegum vandamálum sem fylgdu. Mikið hefur dregið úr þeim, samhliða uppbyggingu sterkari innviða í hverfinu.