Á Íslandi búa í dag um 333.000 manns. Þar af eru um 30.000 þúsund innflytjendur frá öðrum löndum og svipað magn af íslenskum ríkisborgurum fæddum hér á landi búa erlendis. Íslendingar eru þó mun fleiri. Á árunum 1870 til 1914 flutti um 20% þjóðarinnar til Kanada og Bandaríkjanna. Í dag eru Vestur-Íslendingar a.m.k. 135.000 talsins. Auk þess fluttu margir Íslendingar til Danmerkur, Bretlands, Brasilíu, Ástralíu og fleiri landa. Má því ætla að fólk með íslenskan uppruna sé um hálf milljón. Hér er listi yfir þekkt erlent fólk sem á rætur að rekja til eldgamla ísafolds.
10. Guy Maddin
Kvikmyndagerðarmaðurinn Guy Maddin er einn af athyglisverðustu listamönnum samtímans. Hann er sannkallaður sonur kanadísku borgarinnar Winnipeg og bera margar af myndum hans keim af því. Hann fæddist þar árið 1956, sonur hjónanna Charles og Herdísar. Í upphafi virtist fátt benda til þess að hann yrði framúrstefnulegur leikstjóri því að hann nam hagfræði við Winnipeg háskóla á áttunda áratugnum og starfaði svo sem bankastjóri. Um miðjan níunda áratuginn hóf hann að gera stuttmyndir og skömmu seinna kvikmyndir í fullri lengd. Kvikmyndir hans eru mjög óhefðbundnar. Þær eru draumkenndar og minna mikið á kvikmyndir frá þriðja og fjórða áratug seinustu aldar. Hann er þó mjög virtur bæði innan kvikmyndageirans og heimaborgar sinnar. Hans þekktustu verk eru Archangel (1990) og Twilight of the Ice Nymphs (1997) en hann hefur aldrei sagt skilið stuttmyndagerð. Auk þess hefur hann sett upp fjölda listasýninga þar sem áhersla er lögð á hreyfimyndir.
9. Kristjana Gunnars
Kristjana Gunnars er fædd í Reykjavík árið 1948. Hún er dóttir hjónanna Gunnars Böðvarssonar jarðeðlisfræðings og listakonunnar Tove Christensen Böðvarsson. Gunnar vann víða um heim og flutti fjölskyldan til Oregon fylkis á vesturströnd Bandaríkjanna árið 1964. Kristjana giftist og flutti til Kanada þremur árum síðar. Á næstu árum sótti hún sér háskólamenntun og á árunum 1974-1975 kenndi hún hér á Íslandi við alþýðuskólann á Eiðum. Kristjana hafði dundað sér við skriftir allt frá unglingsárum og árið 1980 kom út hennar fyrsta bók, ljóðabókin One-Eyed Moon Maps. Síðan þá hefur hún gefið út fjölda ljóðabóka, skáldsagna og smásagna. Tengsl hennar við Ísland hafa ávallt verið sterk og hún hefur notað Íslendingasögurnar, goðafræðina og dagbækur vesturfara við skriftir sínar. Þemu á borð við útlegð, söknuð og ævintýraþrá eru áberandi í verkum hennar.
8. Gunnar Hansen
Leikarans Gunnars Hansen verður ávallt minnst fyrir að leika fjöldamorðingjann þroskahefta Leðurfés úr hryllingsmyndinni Texas Chain Saw Massacre frá árinu 1974. Hann fæddist í Reykjavik árið 1947 en flutti til Maine í Bandaríkjunum með fjölskyldu sinni fimm ára gamall. Hann lærði ensku og stærðfræði við Austin háskóla í Texas og þar kynntist hann leiklistinni fyrst. Skömmu eftir útskrifina fékk hann hlutverkið fræga en þar virtist ferillinn ætla að enda því að hann hafði mun meiri áhuga á skrifum og hafnaði mörgum kvikmyndahlutverkum. Hann skrifaði fyrir ýmis tímarit á áttunda og níunda áratugnum en á þeim tíunda hóf hann á ný að leika í kvikmyndum. Hann fékk hlutverk í ýmsum hryllingsmyndum sem fengu þó litla ef nokkra dreifingu. Tengsl hans við Ísland voru endurnýjuð í einum af hans seinustu hlutverkum, í kvikmynd Júlíusar Kemp Reykjavik Whale Watching Massacre frá árinu 2009. Gunnar lést þann 7. nóvember síðastliðinn.
7. Bjarni Tryggvason
Bjarni Valdimar Tryggvason fæddist í Reykjavík árið 1945 en flutti mjög ungur með foreldrum sínum til Kanada. Fyrst til Nova Scotia á austurströndinni en svo Vancouver á vesturströndinni. Hann lærði flug og eðlisfræði á áttunda áratugnum og vann við ýmis verkefni. Árið 1983 voru sex Kanadmenn valdir inn í geimferðaáætlun NASA og var Bjarni einn af þeim. Kanadamenn stofnuðu sína eigin geimferðastofnun, CSA árið 1989 og var Bjarni tengdur henni allt til ársins 2008. Bjarni var varamaður þegar flaugin Columbia var send á loft árið 1992. Þann 7. ágúst 1997 varð hann svo fyrsti Íslendingurinn í geimnum þegar hann fór með flauginni Discovery í samvinnuverkefni NASA og CSA. Takmark Discovery var að gera rannsóknir á lofthjúpi jarðar og ferðalagið stóð í tæpa 12 sólarhringa. Þetta var eina geimferðalag Bjarna en hann starfaði áfram hjá CSA við þjálfun geimfara og prófun búnaðar. Bjarni hefur heimsótt Ísland, verið sæmdur fálkaorðunni og heiðursdoktorstign Háskóla Íslands.
6. Peter Steele
Petrus Thomas Ratajczyk, betur þekktur sem Peter Steele, var fæddur í New York borg árið 1962. Hann söng og spilaði á bassa með nokkrum lítt þekktum þungarokkshljómsveitum á níunda áratugnum þangað til hann stofnaði loks Type O Negative árið 1989. Hljómsveitin spilaði rólegt og drungalegt þungarokk með gotneskum stíl og miklum poppáhrifum. Þeir urðu heimsfrægir árið 1993 þegar þeir gáfu út plötuna Bloody Kisses og um miðjan tíunda áratuginn voru þeir eitt af stærstu rokkböndum heims. Það var þá sem Steele sat fyrir á forsíðu tímaritsins Playgirl. Steele var rúmlega tveir metrar á hæð, ákaflega vöðvamikill og með svart slegið hár. Hann gat spilað á kontrabassa hangandi á sér með ól líkt og venjulegan rafbassa. Steele lést vegna innvortis blæðinga árið 2010 en hann hafði lengi átt við áfengis og eiturlyfjavandamál að stríða. Móðir Steele var af íslenskum ættum og heimsótti hann því landið nokkrum sinnum.
5. Tom Johnson
Johnson fæddist í Nýja Íslandi, í smábænum Baldri í Manitoba-fylki, árið 1928. Eins og margir ungir kanadískir drengir hóf hann snemma að spila ísknattleik. Hann var efnilegur varnarmaður og fékk tækifæri hjá stórliðinu Montreal Canadiens í NHL deildinni árið 1949. Honum gekk brösulega í upphafi en vann sér þó sess við hlið hins mikla Doug Harvey og mynduðu þeir eitt öflugasta varnarpar sögunnar. Johnson var ekki sérstaklega snöggur leikmaður en þótti einstaklega útsjónarsamur og snjall. Canadiens urðu fljótt yfirburðalið í deildinni og Johnson vann samanlagt 6 Stanley bikarara með liðinu á 14 árum. Tvö seinustu árin í atvinnumennsku spilaði Johnson með Boston Bruins en hann átti eftir að verða þar allt til ársins 1999, sem leikmaður, þjálfari og stjórnarmaður. Undir hans stjórn vann liðið Stanley bikarinn árið 1972. Tveimur árum áður var Johnson tekinn inn í frægðarhöll ísknattleiksins.
4. Linda Bennett
Linda Kristín Bennett, stofnandi fyrirtækisins L.K. Bennett hefur frá barnæsku verið tengd fatahönnun, tísku og list. Faðir hennar rak tískuvöruverslanir í London og móðir hennar, hin íslenska Hafdís Herbertsdóttir Bennett var myndhöggvari. Linda, sem fædd er í London árið 1964, opnaði þar sína fyrstu verslun árið 1990 og óx fyrirtækið hratt upp frá því. Bennett hannaði bæði föt, handtöskur og fleira en áherslan hefur alltaf verið á skófatnað. Skór hennar hafa þótt einstaklega glæsilegir en þó á viðráðanlegu verði. L.K. Bennett er í dag eitt af helstu tískumerkjum Bretlands og fjöldi frægra kvenna þar í landi klæðast vörum þess. Bennett hefur fengið fjölda verðlauna, m.a. sem viðskiptakona ársins og frumkvöðull ársins í Bretlandi. Árið 2006 var hún öðluð af Elísabetu II Englandsdrottningu.
3. Jon Dahl Tomasson
Tomasson hengdi skóna á hilluna árið 2011 eftir að hafa verið einn af eitruðustu framherjum evrópskrar knattspyrnu um nokkurt skeið. Hann er fæddur í Kaupmannahöfn árið 1976 og hóf sinn feril hjá danska liðinu K øge. 18 ára hélt hann til Hollands og spilaði aldrei framar í Danmörku. Hann spilaði m.a. með Newcastle United, Feyenoord og Stuttgart. En frægðarsól hans skein skærast með ítalska stórliðinu AC Milan. Þar vann hann fjölda titla og þar á meðal meistaradeildina sjálfa árið 2003. Hann skoraði alls 234 mörk í 574 leikjum fyrir félög sín en hann var ennþá beittari með danska landsliðinu. Í 112 landsleikjum á árunum 1997 til 2010 skoraði hann 52 mörk og þar af 3 gegn Íslandi. Hann var einn af markahæstu mönnum heimsmeistaramótsins í Japan og Suður Kóreu 2002 og evrópumeistaramótsins í Portúgal 2004. Tomasson, sem er ættaður frá Íslandi í gegnum móður sína, vinnur nú sem aðstoðarknattspyrnustjóri hollenska félagsins Vitesse Arnhem og danska landsliðsins.
2. K.D. Lang
Kathryn Dawn Lang var um tíma ein þekktasta country-söngkona heims. Hún fæddist árið 1961 og ólst upp í Albertu-fylki í Kanada. Hún varð snemma heilluð af söngkonunni Patsy Cline og spilaði framan af mestmegnis hreina country tónlist á níunda áratugnum. Hún þótti hafa einstaka rödd og sló í gegn árið 1989 með plötunni Absolute Torch and Twang. [http://www.kdlang.com/bio]Þá fór hún inn á önnur svið tónlistar, svo sem popps og jazz. Árið 2002 tók hún upp plötuna A Wonderful World með söngvaranum Tony Bennett og hafa þau margsinnis sungið saman síðan. Lang hefur unnið alls fjögur Grammyverðlaun og hún var fengin til þess að syngja á opnunarhátíð tveggja ólympíuleika (Calgary 1988 og Vancouver 2010). Hún er mikil hugsjónamanneskja og hefur barist fyrir ýmsum málefnum, t.a.m. réttindum samkynhneigðra (hún er sjálf samkynhneigð) og dýravernd. Lang á mjög blandaðan uppruna en þar á meðal íslenskan.
1. Vilhjálmur Stefánsson
Vilhjálmur Stefánsson var einn af merkilegustu en jafnframt umdeildustu landkönnuðum 20. aldarinnar. Foreldrar hans fluttu frá Íslandi til Gimli í Kanada árið 1877 og tveimur árum seinna fæddist Vilhjálmur. Þau flúðu þó til Norður Dakóta í Bandaríkjunum vegna flóða þegar hann var einungis eins árs gamall og þar ólst hann upp. Hann lærði mannfræði við Harvard háskóla og kom svo til Íslands til að rannsaka matarvenjur. Eftir það hófust ferðir hans til norðurslóða þar sem hann m.a. rannsakaði lífshætti Inúíta. Árið 1913 fengu kanadísk yfirvöld hann til þess að stýra leiðangri um nyrstu eyjur landsins. Eitt af þremur skipum leiðangursins, Karluk, fórst og fjölmargir skipverjar létust. Vilhjálmur var harðlega gagnrýndur fyrir að hafa yfirgefið skipverjana. Árangurinn af norðurslóðaferðum Vilhjálms eru þó ótvíræðar. Hann fann og kortlagði eyjar sem aldrei höfðu sést áður (Borden, Meighen, Lougheed o.fl.) og beitti sér fyrir könnun norðurslóða alla tíð síðan. Vilhjálmur lést árið 1962.