Sprengingarnar í Brussel staðfestu það sem margir hafa sagt að undanförnu: Hryðjuverk eru veruleiki sem Evrópumenn munu búa við næstu árin. Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hefur ítrekað sagt að undanförnu að það sé ekki spurning um hvort - heldur einungis hvenær stór hryðjuverkaárás verði framin í Evrópu. Að þessu sinni var það Brussel, 31 látinn - 270 særðir.
Öll spjót hafa raunar beinst að Brussel eftir árásirnar í París. Borgin er helst þekkt fyrir afburða súkkulaði, gæðabjór og nú: herskáa múslima og hryðjuverkamenn.
Molenbeek-hverfinu í Brussel hefur verið lýst sem útungunarstöð hryðjuverkamanna og þar lá Salah Abdasalem í bæli móður sinnar í heila þrjá mánuði, óáreittur. Þar voru árásirnar í París undirbúnar, þaðan komu helstu hryðjuverkamennirnir, þar vopnuðust Kouachi-bræður áður en þeir réðust á Charlie Hebdo. Um 500 Belgar, allflestir úr Molenbeek hafa farið til Sýrlands til þess að berjast þar fyrir íslamska ríkið. Sem er Evrópumet. Margt af þessu fólki hefur snúið til baka eftir áralanga herþjálfun og hrylling.
Af hverju er ekki fyrir löngu búið að fínkemba þetta hverfi?
Brussel er miðpunktur og höfuðborg Evrópusambandins, þaðan er stutt til Lundúna, Parísar, Amsterdam og Berlínar. Árás á Brussel er árás á Evrópu; árás á vestræn gildi um frjálst samfélag. Það hefur kraumað í Frökkum og öðrum Evrópubúum vegna öryggismála í Belgíu eftir árásirnar í París 13. nóvember. Franskir ráðamenn, sérfræðingar, lögregluyfirvöld og fleiri hafa harðlega gagnrýnt belgísku lögregluna, máttleysi hennar og skipulagsleysi. Eftir handtökuna á Abdasalem kom François Hollande fram á blaðamannafundi og bar lof á samstarf Frakka við Belga í því máli. Hann ítrekaði að það væri nauðsynlegt að Evrópulöndin myndu framvegis vinna betur saman gegn hryðjuverkavánni. Hryllingurinn í Brussel 22. mars var því gífurleg vonbrigði, en um leið brýn áminning þess að löndin taki höndum saman.
Bræðrabönd
Tveir þeirra sem tóku þátt í hryðjuverkaárásunum í Brussel voru bræður. Sá sem spengdi sig á Zaventem-flugvellinum í Brussel hét Ibrahim el-Bakraoui. Bróðir hans, Kahalid, sprengdi sig á Maalbek-brautarstöðinni. Þeir eru fæddir og uppaldir Belgar. Þetta er nýr veruleiki. Sjálfsmorðsárásir. Fólk að ráðast á sína eigin landa. El-Bakraoui bræður voru þekktir glæpamenn í Belgíu. Þeir höfðu margsinnis verið handteknir fyrir ofbeldi og ýmiskonar glæpi en ekki verið bendlaður við öfgahópa íslamista fyrr en nýlega. Síðasta sumar var Ibrahim vísað úr landi í Tyrklandi og sendur með flugi til Hollands. Tyrknesk yfirvöld segjast hafa sent viðvörun til hollenskra og belgískra yfirvalda um að Ibrahim væri tengdur sýrlenskum hryðjuverkasamtökum en ekki hafi verið brugðist við þeim viðvörunum. Þetta er enn ein gagnrýnin á belgísk lögregluyfirvöld – en það er fátt um svör.
Lögreglan leitar enn þriðja mannsins, Naijim Lacchraoui. Hann er sagður spengjusérfræðingur sem hafi gert sprengjur og undirbúið hryðjuverkin í París í nóvember. Hann er talinn hafa verið náinn samstarfsmaður Salah Abdeslam sem var handtekinn í Brussel síðastliðinn föstudag. Nú þykir líklegt að hann hafi verið einn þeirra sem fórst í spengingunni á flugvellinum.
Bræður hafa verið áberandi hryðjuverkamenn síðast liðin ár. Kouachi-bræður réðust á Charlie Hebdo ritstjónarskrifstofurnar og bræðurnir Tamerlan og Dzhokhar Tsarnaev frömdu hryðjuverkin í Boston-maraþonhlaupinu 2013. Hryllingurinn á þriðjudag er tengdur við handtöku Salah Abdeslam. Bróðir hanns, Brahim, er einn þeirra sem tók þátt í þeim árásum og sprengdi sjálfan sig í loft upp. Það er hugsanlegt að enn stærri árás hafi verið í bígerð.
Fasisminn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum
Er hryðjuverkamönnum að takast ætlunarverk sitt, að skapa glundroða, ótta og spennu? Landamæraeftirlit hefur verið stóraukið og fylgi hægri-öfgamanna rýkur upp. Hryðjuverkin eru árás á vestræn gildi, frelsi og umburðarlyndi. Á meðan á öllu þessu gengur eykst fylgi hægri öfgamanna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er hin raunverulega hætta. Íslamistarnir eru af sama anga og hægri öfgamennirnir, þeir vilja aðskilja ólíka hópa, uppræta fjölmenningarsamfélagið og taka upp reglur og siði sem giltu á miðöldum.
Litlir, herskáir, hryðjuverkahópar hafa raunar verið til í Evrópu síðast liðin 200 ár. Í Rússlandi, Frakklandi, á Norður-Írlandi, Spáni, Ítalíu og víðar hafa litlar sellur og hópar ráðist á saklausa, almenna borgara í pólitískum tilgangi. Þeir eru hluti af samfélaginu eins og nauðgarar, morðingjar og ölvað fólk á bílum sem veldur slysum og hörmungum. Íslamistar í Evrópu eru lítill hópur – en valda nú miklum glundroða. Samt er raunin sú að fleiri deyja í bílslysum eða reykingum. En það eru afleiðingarnar, uppvöxtur fasimans sem er mesta áhyggjuefnið. Aukinn viðbúnaður og öryggisgæsla er hjá lögreglu um alla Evrópu, það gilda enn neyðalög í Frakklandi, landamæragæsla hefur verið aukin, njósnir og eftirlit með almennum borgurum. Sú opna, frjálslynda Evrópa sem við þekkjum er kannski óðara að hverfa. Hernaðaraðgerðir í Mið-Austurlöndum virðast litlum árangri skila og raunar er stefna Vesturlanda á þeim heimshluta síðastliðin hundrað ár, hrein hörmung.
Hvernig á þá að bregðast við hryðjuverkum? Þetta er helsta verkefni Evrópu um þessar mundir. Á upprisuhátíðinni er kannski vert að huga að gömlum boðskap frá stríðshrjáðu svæði og gera eins og stendur í Rómverjabréfinu:
„Gjaldið engum illt fyrir illt“.