Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var eigandi félagsins Wintris Inc. þegar það lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna þriggja. Í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var í dag kom fram að forsætisráðherra hefði selt helmingshlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar á einn bandaríkjadal 31. desember 2009. Samkvæmt kröfuskrá Landsbanka Íslands lýsti Wintris kröfu í bú hans 30. október 2009, tveimur mánuðum áður en að Sigmundur Davíð seldi hlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar. Frestur til að lýsa kröfum í bú Glitnis rann út 26. nóvember 2009 og í bú Kaupþings 30. desember 2009. Þar sem Wintris lýsti kröfum í bú beggja síðarnefndu bankanna, og fékk þær samþykktar, er ljóst að þeirri kröfu var lýst áður en kröfulýsingarfrestur í búin rann út. Því var þeim lýst áður en Sigmundur Davíð seldi sinn hluta í Wintris til Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu sinnar, á gamlársdag 2009. Svokölluð CFC-löggjöf tók gildi hérlendis daginn eftir, 1. janúar 2010.
Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja með. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Forsætisráðherrahjónin hafa ekki viljað svara fyrirspurnum Kjarnans um hvort Wintris hafi skilað skýrslu ásamt greinargerð í samræmi við CFC-löggjöfina.
Wintris á kröfur upp á rúman hálfan milljarð
Wintris lýsti samtals kröfum upp á 523 milljónir króna í bú bankanna þriggja. Miðað við væntar endurheimtir mun félagið fá rúmlega 120 milljónir króna upp í þær kröfur. Kröfurnar eru tilkomnar vegna þess að félagið keypti skuldabréf á bankanna þrjá fyrir hrun.
Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í upphafi árs 2009. Hann hefur setið á þingi frá því í apríl það sama ár. Sigmundur Davíð var því orðinn þingmaður þegar félag hans lýsti kröfum í bú bankanna. Sigmundur Davíð varð síðan forsætisráðherra eftir alþingiskosningarnar 2013. Á meðal þeirra mála sem ríkisstjórn hans stóð frammi fyrir að taka á var áætlun um losun hafta og slit búa föllnu bankanna. Eftir margra ára undirbúning náðist endanlegt samkomulag við kröfuhafa föllnu bankanna síðla árs 2015 sem gerði þeim kleift að slíta búunum gegn greiðslu stöðugleikaframlags.
Sigmundur Davíð kom beint að þeirri vinnu með setu sinni í ráðherranefnd um efnahagsmál og með setu sinni í ríkisstjórn. Hann kom þó ekki að vinnu við slit búanna með þeim hætti að nauðsynlegt hafi þótt að láta sérstakar innherjareglur fjármála- og efnahagsráðuneytisins gilda um hann. Þær náðu hins vegar yfir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, aðstoðarmenn hans, starfsmenn ráðuneytisins sem komu að vinnunni og alla sérfræðinga sem ráðnir voru til verkefnisins, þar sem þeir gerðu verksamninga við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Kröfuhafar fá meira en ef skatturinn hefði verið lagður á
Í greinargerð Seðlabanka Íslands um mat á uppgjöri föllnu fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaframlaga, sem birt var í lok október 2015, kom fram að stöðugleikaframlög myndu nema tæplega 379 milljörðum króna. Sú upphæð miðar við að hægt verði að selja Íslandsbanka á háu verði, og því gæti framlagið mögulega orðið umtalsvert lægra.
Í áætlun stjórnvalda sem kynnt var í júní 2015 kom fram að tekjur af 39 prósent stöðugleikaskatti myndi skila ríkissjóði 682 milljörðum króna. Það munar því að minnsta kosti 300 milljörðum krónum á stöðugleikaframlagsleiðinni og stöðugleikaskattsleiðinni. Því er ljóst að meira var til skiptanna fyrir kröfuhafa föllnu bankanna, meðal annars Wintris, vegna ákvörðunar um að láta búin greiða stöðugleikaframlag en stöðugleikaskattur hefði verið lagður á þau.
Vildi gefa Gróu á leiti frí
Eiginkona forsætisráðherra greindi frá tilurð Wintris í stöðuuppfærslu á Facebook 15. mars síðastliðinn. Fjórum dögum áður hafði tilvist félagsins verið borin upp á forsætisráðherra í viðtali í ráðherrabústaðnum í Reykjavík. Viðtalið tók fréttamaður frá sænska ríkissjónvarpinu ásamt Jóhannesi Kr. Kristjánssyni, hjá Reykjavík Media. Sigmundur Davíð gekk út úr viðtalinu eftir að spurningar um Wintris voru lagðar fyrir hann. Viðtalið var hluti af Kastljósþætti sem sýndur var fyrr í dag. Hann er hluti af viðamiklu samstarfi fjölmiðla á alþjóðavísu með alþjóðlegu rannsóknarblaðamannasamtökunum ICIJ, sem hafa undanfarna mánuði unnið úr gríðarmiklum gagnaleka frá lögmannsstofu í Panama, sem heitir Mossack Fonseca & Co. Sú stofa stofnaði meðal annars þúsundir félaga á aflandseyjum fyrir íslenska aðila. Eitt þeirra félaga var Wintris.
Í stöðuuppfærslu sinni sagði eiginkona forsætisráðherra að opinberunin væri meðal annars tilkomin vegna þess að gefa ætti Gróu á leiti frí. Þar var ekki minnst á spurningar ofangreindra blaðamanna um Wintris né viðtalið sem forsætisráðherra gekk út úr.
Sigmundur Davíð birti spurningar og svör sín og eiginkonu sinnar vegna Wintris-málsins á bloggsíðu sinni 27. mars. Þar víkur hann m.a. að skráningu félagsins og segir að það hafi verið skrá á þau bæði vegna þess að þau hafi verið með sameiginlegan bankareikning. Anna hafi hins vegar verið eigandi allra eigna Wintris. „Þegar við ákváðum að gifta okkur fylgdi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Um svipað leyti, síðla árs 2009, var skipt um umsýslufyrirtæki og þegar starfsmenn þess fóru yfir gögn félagsins bentu þeir okkur á að við værum bæði skráð hluthafar í félaginu. Við höfðum fram að því ekki hugsað sérstaklega út í fyrirkomulagið sem lagt var upp með af bankanum í upphafi. Það hafði alla tíð verið ljóst í huga okkar beggja að Anna væri eigandi þessara eigna og það hafði ekki breyst þrátt fyrir fyrirhugað brúðkaup. Þá voru eignir félagsins og tekjur af þeim færðar Önnu til tekna á skattframtali hennar. Við sendum því strax svar til baka um að svona ætti þetta ekki að vera og létum breyta því.“
Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug giftu sig í október 2010, tíu mánuðum eftir að hlutur Sigmundar Davíðs í Wintris var seldur til eiginkonu hans.