Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra er að leika mikinn
einleik um þessar mundir. Fundur hans með Bjarna Benediktssyni, formanni
Sjálfstæðisflokksins, í morgun fór ekki vel, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Hann leiddi til þess að forsætisráðherrann ákvað að setja stöðuuppfærslu á
Facebook þar sem hann sagði að ef þingmenn
Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka
sameiginlegum verkefnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið
fyrsta. Í kjölfarið flýtti
forsætisráðherra fundi sínum með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og
hélt á Bessastaði. Þar óskaði hann eftir því að fá heimild til þingrofs, sem
Ólafur Ragnar hafnaði þar sem Sigmundi Davíð tókst ekki að sannfæra hann um að
Sjálfstæðisflokkurinn, samstarfsflokkur hans, styddi slíka tillögu.
Það sem gerir þetta útspil Sigmundar Davíð afar athyglisvert er að hann hefur ekkert rætt, að minnsta kosti formlega, við þingflokk sinn um þessa leið. Það kom bersýnilega í ljós í viðtali við Karl Garðarsson, þingmann Framsóknarflokksins, hjá RÚV í hádeginu. Þar sagði Karl að Sigmundur Davíð hefði ekki borið hótun sína um að rjúfa þing og boða til kosninga, sem hann setti fram í stöðuuppfærslu á Facebook-færslu í morgun, undir þingflokkinn. „Hann hefði kannski átt að segja þingflokknum frá þessu fyrst,“ sagði Karl.
Forsætisráðherra einangraður
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki viljað styðja Sigmund Davíð til áframhaldandi setu sem forsætisráðherra opinberlega en hafa heldur ekki viljað segjast vilja afsögn hans fyrr en Bjarni hefði haft tíma til að funda með honum. Það gerðist í morgun, nokkrum klukkutímum eftir að hafa komið aftur til landsins frá Bandaríkjunum. Nokkuð ljóst var orðið í gær að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér ekki að styðja Sigmund Davíð áfram í stól forsætisráðherra. Það kom bersýnilega fram í samtölum við þá. Auk þess fjaraði hratt undan stuðningi við hann innan Framsóknarflokksins þegar leið á daginn, og mótmælin á Austurvelli ágerðust. Þar mættu alls á milli 15-20 þúsund manns í gær, og kröfðust þess að Sigmundur Davíð myndi víkja. Svo virtist vera sem allir, jafnt samherjar og andstæðingar Sigmundar Davíðs í pólitík, almenningur og fjölmiðlar væru búnir að átta sig á því að dagar hans sem forsætisráðherra væru taldir. Þ.e. allir nema hann sjálfur og mjög þröngur hópur í kringum hann.
Í morgun mætti Sigmundur Davíð hins vegar kokhraustur í viðtal í morgunþátt Bylgjunnar og sagði ríkisstjórnarsamstarfið ekki hanga á bláþræði. Síðan fór hann til fundar með Bjarna Benediktssyni og þá breyttist allt. Forsætisráðherra ákvað í kjölfarið, einn og án samráðs við þingflokk sinn eða samstarfsflokk, að boða þingrof ef ríkisstjórn undir forsæti hans yrði ekki studd af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfarið ók hann til Bessastaða og krafðist þess af forseta landsins að hann undirritaði plagg sem veitti honum heimild til að rjúfa þing og boða til kosninga. Því hafnaði forsetinn, með þeim rökum að Sigmundi Davíð hefði ekki tekist að sannfæra sig um að Sjálfstæðisflokkurinn væri þessari ráðagerð fylgjandi.