Síðasta vika var ein sú tíðindamesta í íslenskum stjórmálum til þessa. Pólitíkin einskorðaðist þó ekki við Alþingi og flokkana sem þar sitja, heldur varpaði hún enn skýrara ljósi á hlutverk forsetaembættisins. Svo virðist sem frammistaða Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og atburðarrásin á Bessastöðum hafi ýtt enn frekar við mögulegum forsetaframbjóðendum og þeim sem nú þegar hafa tilkynnt um framboð. En framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en 21. maí næstkomandi, svo nægur tími er eftir.
Þó er þrennt nýtt að frétta eftir helgina sem ber að segja frá:
1. Andri Snær Magnason tilkynnir framboð sitt klukkan 17 í dag.
2. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur er kominn undir forsetafeldinn.
3. Ólafur Ragnar Grímsson útilokaði ekki í viðtali að hann mundi bjóða sig fram aftur.
Bergþór Pálsson söngvari hefur fengið fjölda áskorana til að bjóða sig fram og hann segist enn vera að hugsa málið. Hann segist vera algjörlega „50/50“ í afstöðu sinni en líst vel á Guðna Th. sem forseta og telur sig mundu styðja hann ef hann ákvæði að fara.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segist enn vera að íhuga málið af fullri alvöru. Hún ætlar að tilkynna af eða á innan viku.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sterklega verið orðaður við forsetaframboð og hefur Þjóðarpúls Gallup meðal annars verið að mæla stuðning við hann. Davíð hefur þó ekkert gefið út, en heimildir Kjarnans herma að hann íhugi nú málið vandlega.
Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur og rithöfundur, er staddur í Reykjavík og ætlar meðal annars að hitta sitt bakland og ræða forsetaframboð. Hann á enn eftir að ákveða sig og býst við að senda út tilkynningu um ákvörðun öðrum hvoru megin við næstu helgi.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, er enn að hugsa málið mjög alvarlega. Ætlar að reyna að tilkynna í þessari viku eða næstu.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fékk mikinn stuðning til framboðs eftir síðustu viku, þegar hann stóð í sjónvarpssetti Ríkissjónvarpssins í beinni útsendingu klukkutímum saman og skýrði atburðarrásina fyrir áhorfendum. Guðni hefur verið einn helsti álitsgjafi fjölmiðla þegar kemur að forsetaembættinu og sagnfræðihliðinni á stjórnmálum.
Sigrún Stefánsdóttir, forseti félags- og hugvísindastofnunar Háskólans á Akureyri, er enn að hugsa málið. Hún er nú stödd erlendis með nemendum og ætlar sér að taka sér tíma í að taka ákvörðun. Undirskriftarsöfnun henni til stuðnings er hafin.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra, er enn að hugsa málið.
Þorgrímur Þráinsson rithöfundur er hættur við að bjóða sig fram til forseta. Hann sagðist reyndar aldrei vera alveg ákveðinn, en í síðustu viku gaf hann út að hann ætlaði sér ekki að taka slaginn.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í fyrra að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram á ný. Hann vildi hins vegar ekki útiloka það við fréttamenn í síðustu viku þegar hann var spurður út í mögulegt framboð.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ekki viljað svara hvort hann ætli að bjóða sig fram. Þar hefur ekki orðið breyting á. Það sama er að segja um Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans.
Fleiri sem hafa verið orðaðir við forsetaframboð eru Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur, Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar og Linda Pétursdóttir athafnakona. Ekki náðist í þau við vinnslu fréttarinnar.