Ólafur Ragnar Grímsson ætlar sér að vera forseti áfram, eftir 20 ára setu á Bessastöðum. Með ákvörðun sinni, sem hann tilkynnti um á mánudag, sneri hann kosningabaráttunni á haus og ljóst er að hún mun hafa áhrif á þá sem hafa legið undir feldinum fræga. Í nýrri könnun MMR sem birt var í gær kom í ljós að meirihluti þjóðarinnar er ánægður með störf hans síðustu vikna og það sem vakti hvað mesta athygli var að 99 prósent kjósenda Framsóknarflokksins voru ánægðir.
Andri heldur áfram - þrír gefast upp
Tveir forsetaframbjóðendur drógu framboð sitt til baka samdægurs og Ólafur Ragnar tilkynnti að hann hefði skipt um skoðun; Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur og Guðmundur Franklín Jónsson hótelstjóri. Heimir Örn Hólmarsson hætti við framboð í nótt og sagði í tilkynningu að Ólafur Ragnar væri ástæðan. Andri Snær Magnason rithöfundur segir ákvörðun forsetans engin áhrif hafa á framboð sitt.
Ólafur Jóhann afskrifar framboð
Nokkrir mögulegir frambjóðendur hafa líka gefið út á undanförnum dögum að þeir ætli ekki fram; Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari, Davíð Þór Jónsson héraðsprestur, Linda Pétursdóttir athafnakona og Þorgrímur Þráinsson rithöfundur. Bergþór Pálsson söngvari tilkynnti svo í gær að hann væri hættur við. Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time-Warner, segir í skriflegu svari sínu til Kjarnans að hann ætli ekki í forsetaframboð, en „þar sé ekki um neina sérstaka stefnubreytingu að ræða.“
Katrín Jakobsdóttir og Jón Gnarr voru lengi orðuð við framboð og nutu mikils stuðnings í skoðanakönnunum. Þau gáfu það út fyrr á árinu að þau hugðust ekki bjóða sig fram og væru ánægð í sínum núverandi störfum.
Þrettán í dag
Flestir forsetaframbjóðendur halda þó ótrauðir áfram. Halla Tómasdóttir opnar kosningaskrifstofu sína á sumardaginn fyrsta, Elísabet Kristín Jökulsdóttir segir Ólaf Ragnar meðvirkan og hræðist ekki að fara á móti honum, Hrannar Pétursson segir framboð Ólafs hafa verið áhugaverðan snúning í baráttunni, Hildur Þórðardóttir segir við RÚV að gærdagurinn hafi komið á óvart en hún ætli að halda sínu striki. Ástþór Magnússon ætlar sér líka að sigra Ólaf.
Benedikt Kristján Mewes tilkynnti nýlega um framboð sitt og hann ætlar að halda því til streitu. Ari Jósepsson ætlar að halda sínu striki, sem og Guðrún Margrét Pálsdóttir. Bæring Ólafsson segir að ákvörðun Ólafs hafi ekki enn haft áhrif á sitt framboð. Hann láti vita ef eitthvað breytist. Magnús Ingi Magnússon, kenndur við Texasborgara, ætlar áfram í framboð. Ekki hefur náðst í Sturlu Jónsson.
Guðni, Guðrún, Sigrún, Eiríkur og Stefán liggja enn saman undir feldi
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hann ætli að bjóða sig fram, þó að hann segi vissulega að ákvörðun Ólafs hafi áhrif. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, segja við RÚV að þau séu enn að hugsa málið. Stefán Jón Hafstein segir í svari til Kjarnans að hann hafi haft á tilfinningunni að apríl yrði sviptivindasamur í pólitíkinni.
„Og reyndist sannspár. Ákvarðanir úreldast vikulega, svo ég ætla mér að rýna ástandið enn betur næstu 2-3 vikur áður en lokaákvörðun verður tekin. Pólitískar forsendur kosningabaráttunnar til forseta og þings hafa gjörbreyst," segir Stefán Jón. Ekki hefur náðst í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, en hún hefur verið að íhuga framboð.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, hafa báðir verið orðaðir við framboð en hvorugur hefur gefið nokkuð út um það.
Jón ekki hættur við
Einhverjar vangaveltur hafa skapast á samfélagsmiðlum hvort fólk sem hafi áður gefið út að þau ætli ekki að bjóða sig fram, hafi nú skipt um skoðun í ljósi breyttrar stöðu. Jón Gnarr var lengi orðaður við embættið en hann tilkynnti í janúar að hann ætlaði sér ekki að reyna að verða forseti. Þar hefur ekki orðið breyting á.
„Ég er mjög hamingjusamur í mínu lífi og sé enga ástæðu til að breyta því,” segir Jón í samtali við Kjarnann. „Það er enginn skortur á miðaldra karlmönnum í stjórnmálum á Íslandi svo ég sé ekki fram á að ég verði holdgervingur þess sem muni breyta einhverju.”