Þingflokkur Framsóknarflokksins hittist í hádeginu í dag til að ræða meðal annars umfjöllun Kastljóss um viðskiptafléttu Hrólfs Ölvissonar, framkvæmdastjóra flokksins, sem sýnd var á RÚV í gær. Í þættinum var einnig fjallað um umfangsmikil viðskipti Finns Ingólfssonar, fyrrverandi Seðlabankastjóra og ráðherra Framsóknarflokksins, og Helga S. Guðmundssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Seðlabankans.
Framsókn þegir
Ráðherrar Framsóknarflokksins hafa ekki viljað tjá sig við fjölmiðla um málið í morgun, en þau báðust öll undan viðtali við RÚV og 365 fyrir ríkisstjórnarfund. Ekki var að sjá á dagskrá ríkisstjórnarinnar að málin hafi verið rædd. Kjarninn hefur ekki náð í Hrólf Ölvisson í morgun, en þær upplýsingar fengust á skrifstofu Framsóknarflokksins að hann yrði upptekinn á fundum í allan dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði við RÚV í gærkvöldi að hann meti málið svo að allt hafi verið uppi á borðum varðandi viðskiptahætti Hrólfs. Það sé þó eðlilegt að flokkurinn ræði saman um framhaldið.
Hætti tvisvar vegna skjalanna
Aflandsfélag Vilhjálms Þorsteinssonar, fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar og hluthafa í Kjarnanum, voru einnig til umfjöllunar í Kastljósi. Vilhjálmur hafði áður harðneitað því að eiga aflandsfélag og þvertók fyrir að nafn hans væri í Panamaskjölunum. Hann upplýsti svo um það, eftir eftirgrennslan Kastljóss um helgina, að hann hafi átt félag sem væri í skjölunum. Hann sagði sig úr stjórn Kjarnans í kjölfarið. Hann hafði áður sagt af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar eftir að umræður fóru af stað um félag hans í Lúxemborg.
Annar hættur - hinn ekki
Stjórnendur tveggja lífeyrissjóða fengu líka pláss í Kastljósi í gær. Kári Arnór Kárason, stjórnandi Stapa lífeyrissjóðs, átti tvö aflandsfélög og hann sagði af sér um helgina vegna umfjöllunarinnar.
Hinn stjórnandinn, Kristján Örn Sigurðsson, starfar enn sem framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins. Hann var líka skráður fyrir tveimur aflandsfélögum og er annað þeirra enn starfandi. Kjarninn hefur ekki náð í Kristján Örn í morgun. Mbl.is greinir frá því að lögfræðingur muni fara yfir mál hans á stjórnarfundi á morgun.
Hvorki Kristján Örn né Kári Arnór greindu stjórnum þeirra lífeyrissjóða sem þeir stýrðu frá þessum viðskiptahagsmunum sínum. Lög gera þó ráð fyrir að framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs sé óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess. Stjórnarformaður Sameinaða lífeyrissjóðsins, Jón Bjarni Gunnarsson, segir við mbl.is að það sé ekki víst að Kristján hafi gerst brotlegur með þögn sinni um málið.
Bessastaðatengingin
Fyrr í gær sögðu Kjarninn og Reykjavik Grapevine frá því að félag tengt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og eiginkonu hans, Dorrit Moussaeiff, sé að finna í Panamaskjölunum. Forsetinn hafði áður neitað því staðfastlega að nokkuð ætti eftir að koma í ljós sem mundi tengja hann við lekann eða aflandsfélög yfir höfuð. Félagið, Lasca Finance Limited, var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005.
Í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans í gær stóð: „Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi."
Forsetinn sagði í svari sínu til mbl.is í dag að hann hafi ekki mótað sér afstöðu til þess hvort upplýsingarnar komi til með að hafa áhrif á framboð hans eða hvort hann ætli að gera upplýsingar úr skattaskýrslum sínum og konu sinnar opinberar.