Áberandi munur er á menntunarstigi þeirra sem vilja helst sjá Ólaf Ragnar Grímsson áfram í embætti forseta Íslands og þeirra sem vilja Andra Snæ Magnason. Eftir því sem menntunarstig er hærra þeim mun líklegra er að fólk vilji Andra Snæ sem forseta.
Ólafur Ragnar nýtur 52,6 prósenta fylgi í nýjustu skoðanakönnun MMR og Andri Snær er með 29,4 prósent. Halla Tómasdóttir mældist með 8,8 prósenta fylgi.
Séu lýðfræðiþættir skoðaðir hjá þeim sem vilja kjósa þá tvo frambjóðendur sem njóta mest fylgist, sést að tekjur skipta líka máli þegar kemur að fylgi Ólafs Ragnars og Andra Snæs. Þeir tekjuhærri eru líklegri til að kjósa Andra Snæ heldur en þeir tekjulægri.
Hærra hlutfall háskólamenntaðra vilja Andra Snæ sem forseta, eða 45,2 prósent, á móti 34,4 prósentum þeirra sem vilja Ólaf. 73.5 prósent þeirra sem eru einungis með grunnskólapróf vilja Ólaf Ragnar á móti 9,3 prósentum sem vilja Andra Snæ.
MMR spurði: „Eftirfarandi einstaklingar hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Hvern þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?" Fjöldi svarenda var 953 einstaklingar. Könnunin var gerð 22. til 26. apríl 2016. Aðrir frambjóðendur en Ólafur Ragnar, Andri Snær og Halla fengu undir tveggja prósenta fylgi.