Apple hefur um langt skeið verið eitt allra verðmætasta
fyrirtæki heimsins. Um tíma var virði þess nálægt 700 milljörðum
Bandaríkjadala, snemma árs 2014. Gríðarlegur vöxtur hefur einkennt starfsemi
fyrirtækisins í meira en áratug. Raunar má rekja upphafið af ótrúlegri
velgengni fyrirtækisins í seinni tíð aftur til ársins 2001, þegar Steve Jobs heitinn birtist
nokkuð óvænt með nýja vöru, sem hann hafði mikla trú á. „Má ég kynna iPod,“
sagði hann, eftir að hafa rakið vandamálin sem Apple vildi leysa á
tónlistarmarkaði. „Enginn markaðsleiðandi, tæknin er til staðar,
notendaviðmótið einfalt,“ sagði Jobs, með sínum sannfærandi en ofureinfalda
hætti. Svo rakti hann með áhrifaríkum hætti, hvernig Apple sæi þessa stöðu.
Sumir segja þetta áhrifamestu tæknikynningu sögunnar, en eflaust má deila um það endalaust.
Leiðandi fyrirtæki
Frá þessari kynningu hefur Apple verið leiðandi fyrirtæki í heiminum, þegar kemur að fjarskiptum, hugbúnaði, hönnun, myndavélatækni og útgáfustarfsemi. Þegar iPod-inn kom á markað þá leystust kraftar úr læðingi innan Apple sem erfitt að var að sjá fyrir hvernig myndu leiða til breytinga. Snjallsímavæðingin, sem samfélagsmiðlar hafa ýtt undir með gjörbreyttu samskiptamynstri fólks, hefur leitt til gríðarlegs fjárstreymis til Apple.
Raunar eru fá fordæmi í sögunni fyrir viðlíka fjárhagslegri stöðu hjá fyrirtæki eins og Apple hefur sýnt á undanförnum árum. Í lok árs 2014 átti fyrirtækið um 200 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé. Þegar það gaf út skuldabréf í fyrra, þá fékk fyrirtækið neikvæða vexti. Eftirspurnin var slík, að það gat sótt sér ókeypis peninga þegar það þurfti að taka lán, keypt eigin bréf og endurskipulagt fjárhagsstöðu sína með hagstæðasta mögulega hætti.
Frá því Steve Jobs, stofnandi og forstjóri Apple, lést úr krabbameini, 5. október 2011, þá hefur reksturinn verið í föstum skorðum og vöxturinn haldið áfram. Tim Cooke hefur stýrt þessari tækniskútu í gegnum mikinn tekjuvöxt. En undirliggjandi hafa samt verið áhyggjur af því hvað myndi taka við, þegar vaxtarkúrfan hægir á sér eða stöðvast.
Milljarðarmæringur spyr spurninga og selur
Maður er nefndur Carl Icahn. Hann er milljarðarmæringur og
þykir með virtustu fjárfestum heimsins þegar kemur að alþjóðlegri tækni. Hann
fjárfestir í hlutabréfum fyrirtækja, sem eru að veðja á vöxt utan heimasvæðis
og þá einkum í Asíu. Icahn hefur á þessu ári verið að selja bréf sín í Apple, fyrir meira en fjóra milljarða Bandaríkjadala.
Í
síðustu viku dró til tíðinda, þegar hann tjáði sig við fjölmiðla og sagði
áhyggjurnar einkum vera af Kína.„Ég hef áhyggjur af Kína og hvernig Apple mun
reiða af þar,“ sagði Icahn í viðtali við Bloomberg. Markaðsvirði Apple hefur lækkað jafnt og þétt
að undanförnu, en segja má að það hafi hrunið niður á undanförnum dögum. Á
innan við einum degi lækkað það um sjö prósent, síðastliðinn miðvikudag, og er
markaðsvirði þess nú um 520 milljarða Bandaríkjadala. Lækkunin á markaðsvirði
frá það fór hæst árið 2014, nemur um 180 milljörðum Bandaríkjadala, sem er
upphæð sem er margfalt hærri en virði Tesla, Amazon, Facebook, Twitter og Space
X, samanlagt.
Sett í íslenskan veruleika þá nemur verðfallsupphæðin 22 þúsund milljörðum
króna, sem er á við tífalda árlega landsframleiðslu Íslands.
Stærðirnar þegar Apple er annars vegar eru því miklar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Hvað gerist næst?
Stór spurningin sem fjárfestar horfa til hér í Bandaríkjunum, er hvað muni gerast næst. Eins og mál standa nú, þá er ekki talið líklegt að Apple geti myndað mikinn vöxt á næstu misserum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins féll sala saman um þrettán prósent, miðað við sama ársfjórðung fyrir ári. Þar með lauk ótrúlegu skeiði, sem taldi 51 ársfjórðung, þar sem fyrirtækið sýndi vöxt miðað við sama tímbil ári fyrr.
Enginn ætti þó að afskrifa Apple, þrátt fyrir að fyrirtækið standi um margt á tímamótum þessi misserin. Vörur fyrirtækisins er ennþá gríðarlega eftirsóttar, þrátt fyrir allt. Tekjurnar námu 50,6 milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi, en flestar spár höfðu gert ráð fyrir að minnsta kosti 52 milljörðum Bandaríkjadala. Einkum er það fall á sölu á iPhone símum sem er að valda því, að tekjur vaxa ekki milli ára, og því eru miklar vonir bundnar við að Apple komi fram með eitthvað óvænt og notendavænt – eins og Steve Jobs var frægur fyrir – á næstu misserum. Margir hafa horft til innreiðar á bílamarkað og einnig á orkumarkað, með umhverfisvænum tæknilausnum.
Allt mun þetta skýrast, þegar framtíðin ber að dyrum. Þannig var það oft hjá Jobs.