Fjórðungur aðspurðra vill að Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur verði forseti Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson er eftir sem áður með langmest fylgi og mælist með 46 prósent, í nýrri skoðanakönnun Maskínu. 15 prósent segjast ætla að kjósa Andra Snæ Magnason og 1,8 vilja Höllu Tómasdóttur. Guðni hefur enn ekki tilkynnt hvort hann ætli að bjóða sig fram, en sagðist í gær ætla að gera það mjög bráðlega. Þetta er fyrsta könnunin sem birtist um fylgi Guðna eftir að hann íhugaði alvarlega að bjóða sig fram til forseta. Könnun Maskínu var gerð dagana 18. til 29. apríl. Nær þriðjungur svarenda á eftir að gera upp hug sinn og tekur ekki afstöðu til frambjóðenda.
Unga fólkið og framsóknarmenn vilja Ólaf
Ólafur er með mikið yfirburðafylgi meðal yngstu kjósendanna, en þrír af hverjum fjórum vilja að hann sé forseti áfram. Hann er með 32 til 45 prósenta fylgi í öðrum aldurshópum. Meira en 30 prósent þeirra sem eru 45 ára eða eldri segjast ætla að kjósa Guðna Th. en hann hefur ekkert fylgi meðal yngstu kjósendanna. Andri Snær nýtur mests stuðnings þeirra sem eru 25 til 44 ára, en 22 prósent þeirra segjast ætla að kjósa hann.
Ólafur Ragnar nýtur mests stuðnings meðal kjósenda Framsóknarflokksins. Niðurstöður Maskínu ríma vel við nýjasta Þjóðarpúls Gallup þar sem fram kom að 83 prósent kjósenda Framsóknarflokks eru ánægðir með framboð hans og 71 prósent Sjálfstæðismanna. Könnun Maskínu leiðir í ljós að fjórir af hverjum fimm kjósendum Framsóknarflokks vilja Ólaf Ragnar og sjö af hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks. Ólafur nýtur minnsta stuðnings meðal kjósenda Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. Guðni hefur aftur á móti mestan stuðning meðal kjósenda Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata en minnstan meðal kjósenda stjórnarflokkanna.
Fylgi Ólafs og Guðna tók stökk í Wintris-málinu
Maskína hefur spurt opið frá áramótum hvern fólk vill sjá í embættinu. Svarendur fengu því ekki fyrirfram gefna möguleika og þurftu að skrifa niður nafn þess sem þeir vildu sjá. Guðni Th. var fólki ekki ofarlega í huga fyrr en í kring um þann tíma sem Ólafur tilkynnti um framboð sitt. Fylgi Ólafs hefur þróast mikið síðan frá áramótum, en hann mældist með sjö til tíu prósenta fylgi frá janúar til mars, en fyrri partinn í apríl fór fylgið upp í 20 prósent og svo í tæplega 46 prósent eftir að hann tilkynnti framboð. Fylgi Höllu hefur dalað.
Auk Ólafs, Andra, Höllu og Guðna voru Katrín Jakobsdóttir, Hrannar Pétursson og Ástþór Magnússon einnig nefnd í síðustu könnun.
Svarendur í könnunum í janúar og febrúar voru í kring um 400 og þá voru mjög margir sem tóku ekki afstöðu. í þremur nýjustu könnununum í mars og apríl voru svarendur Maskínu á bilinu 870 til 1080.
Þorgerður ætlar ekki fram og Berglind komin til landsins
Ellefu manns eru nú í framboði til forseta Íslands. Fimm hafa dregið framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar tilkynnti ákvörðun sína; Vigfús Bjarni Albertsson, Bæring Ólafsson, Guðmundur Franklín, Heimir Örn Hólmarsson og Hrannar Pétursson.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra, hefur íhugað framboð lengi. Hún gaf það út í þættinum Vikunni á RÚV í gær að hún ætli ekki að gefa kost á sér. Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Frakklandi, er komin til landsins til að ræða við bakland sitt um mögulegt framboð. Samkvæmt RÚV er stutt í að hún tilkynni ákvörðun sína.
Fleiri hafa verið nefndir í tengslum við framboð en hafa ekki gert upp hug sinn. Má þar nefna Stefán Jón Hafstein, Ellen Calmon, Guðrúnu Nordal og Sigrúnu Stefánsdóttur.
Kosning í útlöndum hófst í dag
Kosning utan kjörfundar erlendis vegna forsetakosninganna má hefjast í dag, 30. apríl. Algengast verður þó að framkvæmd kosninganna hefjist ekki fyrr en á mánudag, þar sem margar stofnanir eru lokaðar í dag. Ef Íslendingur hefur búið erlendis í meira en átta ár þarf að tilkynna sig aftur inn á kjörskrá og rann frestur til þess út þann 1. desember síðastliðinn.
Það hefur staðið lengi til að endurskoða þessi lög um utankjörfundaratkvæðagreiðslu, í ljósi þess að kosning hefst áður en það liggur ljóst fyrir hverjir verði endanlega í framboði. Þannig er auðveldlega hægt að kjósa fólk nú sem ekki hefur boðið sig formlega fram og mun mögulega ekki gera það þegar á hólminn er komið, og ekki hægt að kjósa fólk sem mun mögulega bjóða sig fram áður en framboðsfrestur rennur út.
Tíminn styttist óðum
Tilkynna þarf framboð formlega til innanríkisráðuneytisins í síðasta lagi fimm vikum fyrir kosningar, eða fyrir miðnætti föstudaginn 20. maí. Framboðunum skal fylgja samþykki forsetaefnis, nægilegur fjöldi meðmælenda sem vottaður skal af viðkomandi yfirkjörstjórn um að meðmælendurnir séu kosningarbærir. Forsetakosningarnar verða laugardaginn 25. júní.