„Þetta er algjörlega komið úr böndunum, ég fordæmi þetta öfgafólk sem getur ekki mótmælt friðsamlega“ – segir Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands um Nuit Debout mótmælin í Frakklandi.
Nuit Debout (Úti alla nóttina) hófust formlega 31. mars síðastliðinn og hafa því staðið yfir í heilan mánuð. Ríkisstjórn sósíalista, undir forystu François Hollande, þykir ekki standa undir nafni og vera of hægri sinnuð. Það hefur komið til alvarlegra átaka, lögreglan hefur beitt táragasi, alls 214 handtökur, 78 lögreglumenn hafa særst, þar af þrír alvarlega, sömuleiðis fjölmargir mótmælendur. Það hefur verið kveikt í lögreglubílum, Odeon-leikhúsið í miðborg Parísar var yfirtekið síðustu helgi af mótmælendum sem hugðust nota húsið fyrir fundahöld. Þegar mest hefur látið hefur fjöldi mótmælenda farið yfir 500.000 manns.
Hvað er að gerast og hverju er verið að mótmæla? Það er kannski ekki alveg ljóst. Í fyrstu snerust mótmælin um fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda á vinnulöggjöfinni, en nú snúast þau um allt kerfið, stjórnmálin, efnahagslífið. Ungt og róttækt fólk, sem leitt hefur mótmælin, vill allsherjar þjóðfélagsbreytingar. Sumir tala um byltingu. Búast má við kröftugum mótmælum í dag á baráttudegi verkalýðsins.
Ákall um allsherjar breytingar
Lögreglan í París handtók í síðustu viku fjölmarga mótmælendur á Lýðveldistorginu, Place de la Republique, og beitti táragasi þegar hópurinn reyndi að komast í gegnum lögreglutálma við torgið. Mótmælendur hafa komið saman við torgið á hverri nóttu undanfarin mánuð. Hreyfingunni Nuit Debout hefur verið líkt við Occupy Wall Street-mótmælinn í Bandaríkjunum og Indignados-hreyfinguna gegn niðurskurði á Spáni.
Það hefur lengi verið talað um nauðsyn þess að breyta vinnulöggjöfinni í Frakklandi til þess að sporna gegn atvinnuleysi og koma ungu fólki inn á vinnumarkaðinn. Lögin hafa þótt of ströng og atvinnurekendur segja það nánast óbærilegt fyrir lítil fyrirtæki að ráða fólk til starfa. Það sé erfitt að segja upp fólki, réttindi launþega séu of víðtæk og völd verkalýðsfélaga alltof mikil í Frakklandi. 35 stunda vinnuvikan gangi ekki upp og sé öllum óhagstæð.
Þess vegna kom viðskiptaráðherrann, Emmanuel Macron, fram með nýtt lagafrumvarp um breytta vinnulöggjöf á síðasta ári. Löngu tímabært – sögðu helstu sérfræðingar landsins í efnahagsmálum. Fáir áttu von á þessari öldu mótmæla. Skipuleggjendur þeirra eru að mestu leyti ungt fólk, stúdentar og róttæklingar með tengsl við verkalýðsfélög, sem kenna sig við sósíalisma og marxisma. Þau segja nýju vinnulöggjöfina tæta niður sjálfsögð réttindi launþega, en þau mótmæla líka TIP fríverslunarsamningunum, spillingu og skattaundanskotum í viðskiptalífinu (hávær umræða í kjölfar Panama-lekans), þau mótmæla misskiptingu auðs, aðbúnaði og réttindum flóttafólks. Þetta er í raun ein allsherjar kröfuganga gegn kapítalisma.
Merci patron!
Þann 24. febrúar síðastliðinn var frumsýnd heimildarmyndin Merci patron! sem er sögð kveikjan að öllu þessu báli. Myndin er afar gagnrýnin á efnahagskerfi Frakklands og Evrópu; hvernig verksmiðjur hafa verið lagðar niður og störf flutt til annara landa í hagræðingarskyni. Myndin tekur sérstaklega fyrir Bernard Arnault, ríkasta mann Frakklands, sem hefur m.a. auðgast á lúxus- og merkjavörum. Merci Patron! fylgir eftir hjónunum Jocelyn og Serge Klur sem eru atvinnulaus, berjast í bökkum og eru við það að missa íbúðina sína eftir að hafa verið sagt upp hjá tískufata-framleiðandanum Kenzo, sem er í eigu Arnault. Bernard Arnault ákveður að flytja alla framleiðsluna til Póllands til þess að draga úr launakostnaði með fyrrgreindum afleiðingum. Myndin er í stíl við verk Michael Moore, persónuleg en um leið afar gagnrýnin.
Merci Patron! er vinsælasta heimildarkvikmynd sem sýnd hefur verið í Frakklandi, slegið öll aðsóknarmet, um 320.000 manns hafa nú séð kvikmyndina, en fyrst og fremst hefur hún haft gríðarleg áhrif. Vakið reiði og mikil viðbrögð. Það er fyrst og fremst þessi kvikmynd sem hefur komið af stað Nuit Debout mótmælunum. Leikstjórinn, Francois Ruffin, vinstri róttæklingur og aktívisti, segir Bernard Aurault og aðra auðmen vera eyðileggja líf fólks og sömuleiðis helstu gildi franska lýðveldisins um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Auðsöfnun og aukin misskipting sé að rústa samfélaginu og kröfu um mannúð.
Bernard Arnaualt, sem fær það óþvegið í myndinni hefur tjáð sig um þessa myndina opinberlega. Honum finnst hún ósanngjörn árás á hann og hans fyrirtæki – kallar forsvarsmenn myndarinnar vinstri-öfgafólk sem ekki sé mark á takandi.
Mótmælin skipulögð á Twitter og Facebook
Öll þessu hörðu viðbrögð, gegn þessu frumvarpi um nýja vinnulöggjöf, hafa komið stjórnvöldum á óvart. Hollande, forseti Frakklands, sagðist í fyrstu tilbúin að setjast niður með þessu fólki, ræða málin og hlusta á sjónarmið þeirra. Þetta eru hans kjósendur, vinstri sinnað fólk sem hann þarf að treysta á í komandi kosningum á næsta ári. Hann berst við miklar óvinsældir og hefur margvegis sagt að ef honum takist ekki að draga úr atvinnuleysi muni hann ekki bjóða sig fram aftur sem forseti. Hin nýja vinnulöggjöf átti að vera svarið gegn atvinnuleysinu – þess vegna hefur forsetinn í raun staðið ráðþrota gagnvart öllum þessum mótmælum.
Allur þessi fjöldi um allt land hefur sömleiðis komið yfirvöldum í opna skjöldu. Í öllum helstu borgum: París, Nantes, Lyon, Marseille og Toulouse, hafa verið Nuit Debout kröfugöngur. Mótmælin eru skipulög á Facebook og Twitter; á slóðum eins og @OnVautMieuxQueCa fara fram umræður um breytt samfélag og róttækar breytingar á efnahagslífinu, misskiptingu auðs og spillingu í viðskiptalífinu.
Þetta er margradda og margskonar mótmæli en flestir sem þar kom að eiga það sameiginlegt að hafa horn í síðu kapítalismans; þau vilja efla ríkisvaldið, auka réttindi launafólks, atvinnulausra og innflytjenda.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sömuleiðis verið duglegir að nýta sér samfélagsmiðlana. Manuel Valls, forsætisráðherra, hefur oft tístað um Nuit Debout og kallað suma mótmælendur öfga-vinstrifólk, harmað slysin og átökin við lögregluna. Hann hefur gagnrýnt þá litlu hópa og þá svörtu sauði sem hafa hleypt öllu upp í bál og brand; sagt það hættulegt fólk sem beri að stöðva. „Þetta fólk mun þurfa gjalda fyrir gjörðir sínar – styðjum frekar lögregluna“ – segir hann á Twitter-síðu sinni.
Námsmenn og ungt fólk hafa leitt mótmælin allt frá byrjun. Þau eru orðin langþreytt á atvinnuleysi sem er komið upp í 25% hjá ungu fólki. William Martinet, formaður stúdentasamtakana UNEF, tekur að einhverju leyti undir gagnrýni Valls og harmar ofbeldið og leiðindin – en segir enn fremur að aðgerðir lögreglunnar oft hafa farið úr böndunum. Hann og aðrir skipleggjendur segja Nuit Debout aðeins vera byrjunina – framundan séu allsherjar breytingar á efnahahagslífi heims - byltingin sé hafin!