Eftir mikið sálfræðistríð, taugastríð og hálfgert stríð inn á vellinum sömuleiðis, voru það leikmenn Leicester City sem gátu leyft sér að fagna eins og óðir væru, á heimili framherjans Jamie Vardy, þegar ljóst var að liðið hafði tryggt sér sigur í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta þetta árið.
Árangurinn þykir með allra ótrúlegustu íþróttaafrekum í seinni tíð, og aðeins sigur Nottingham Forrest, árið 1978, kemst nálægt þeim ólíkindum sem sigur Leicester er í sögu enska fótboltans. Fótboltaheimurinn allur virðist í hálfgerðu „sjokki“ því þetta átti einfaldlega ekki að vera hægt. Lið, þar sem samanlagt virði byrjunarliðsins var 22 milljónir punda – eða sem nemur innan við helmingnum af dýrasta leikmanni Manchester City – átti ekki að geta þetta. Í 132 ára sögu félagsins var sigur í efstu deild ekki raunhæfur möguleiki. En þetta breyttist þegar reynslumikill Ítali mætti á æfingasvæðið og byrjaði að starfa með gömlum samstarfsmanni sínum hjá Chelsea, hinum kennaramenntaða Steve Walsh. Hann starfaði þá sem leikgreinir í leikmannavali, og náðu þeir vel saman.
Ranieri mætir á svæðið
Ítalinn Claudio Ranieri tók við Leicester í júlí 2015. Á undan honum hafði Nigel Pearson verið við stjórnvölinn. Óhætt er að segja að þessir tveir menn séu ólíkir, þegar kemur að stjórnunarstíl. Pearson var frægur fyrir að taka virkan þátt í æfingum, og vaða í leikmenn í tæklingum og skallaeinvígum, þrátt fyrir að hafa lítið erindi í leikinn sökum lélegs forms og aldurs. Skapvonskuköst hans voru einnig fræg. Hann átti það til að gjörsamlega sturlast og haga sér eins og ótemja. Ástríðan var hans helsti styrkur og veikleiki.
Það sem verra var, að Pearson náði heldur ekki góðum árangri, eftir því sem leið á. Hann var aðallega bara brjálaður undir lokin, og missti því eðlilega starfið. Góður árangur í fyrstu var ekki nóg.
Ranieri er sagður dæmigerður ítalskur herramaður. Rólegur, ákveðinn og talar til leikmanna með mikla reynslu í farteskinu. Hann setti fljótlega mark sitt á liðið og ákvað að vinna þétt með Steve Walsh, sem nú er aðstoðarmaður hans. Frá honum komu góðar hugmyndir og góð ráð. Sumar hugmyndanna reyndust afdrifaríkar í meira lagi, eins og sú að hálfpartinn skipa Ranieri að kaupa N‘Golo Kanté frá Caen í Frakklandi fyrir 5,6 milljónir punda. Hann var nánast óþekktur áður en Leicester keypti hann, en Walsh var sannfærður um að þetta væri leikmaður sem Leicester þyrfti á að halda.
Frá því að hinn 25 ára gamli Kanté kom til félagsins hefur hann verið einn allra besti leikmaður úrvalsdeildarinnar. Duglegur og gerir fá mistök. Tveggja manna maki í varnarleik liðsins á miðjunni, og oft ógnandi fram á við sömuleiðis. Hann hefur verið mikilvægur hlekkur í keðjunni hjá Leicester, sem hefur staðið allt af sér.
Var ekki skrifað í skýin í upphafi
Ranieri er ekki sá knattspyrnustjóri sem kemur fyrst upp í hugann, þegar sigur er til umræðu. Fram að sigrinum stórkostlega með Leicester, sem raungerðist í gær þegar Chelsea og Tottenham gerðu 2-2 jafntefli á Stamford Bridge, hafði Ranieri aldrei gert lið að deildarmeistara. Hann komst nálægt því með Chelsea árið 2004, Valencia 1998 og Juventus 2008, en allt kom fyrir ekki. Hann var alltaf í öðru sæti, eða neðar. Aldrei komu deildarmeistaratitlar.
En Ranieri hefur samt haft á sér gott orð sem knattspyrnustjóri, og þykir þægilegur í umgengni og mikill fagmaður. Sjálfur hefur hann sagt, að besti leikmaður sem hann hafi þjálfað sé Frank Lampard, goðsögn Chelsea, sem er markahæsti miðjumaður í sögu deildarinnar. Ekki Zola. Ekki Roberto Baggio. Ekki Totti. Heldur Lampard.
Ástæðan er ekki síst sú að Lampard endurspeglar þá þætti sem Ranieri vill sjá hjá leikmönnum. Hlýðni, aga og skilvirkni. Hann vill að leikmenn leggi sig fram, en haldi einbeitingu, og sinni sínu hlutverki. Nái að hámarka eiginleika sína í hverjum leik.
Ranieri á langan feril að baki en hann hefur verið
knattspyrnustjóri hjá atvinnumannafélögum í efstu deildum, á Ítalíu, Spáni,
Frakklandi og Englandi, frá því árið 1988. Þá stýrði hann Cagliari á miklu
uppbyggingarskeiði, og tók svo við Napoli árið 1991 og stýrði því til 1993. Félagið var í sárum eftir að Diego Maradona, besti knattspyrnumaður heims, var handtekinn í kókaínvímu, í beinni útsendingu í sjónvarpi, og settur í leikbann.
Svo tók Fiorentina við (1993 til 1997), Valencia (1997 til 1999), Atletico Madrid (1999 til 2000, rekinn 3. mars eftir afleitt gengi), Chelsea (2000 til 2004), aftur Valencia (2004 til 2005), Parma (12. febrúar til 31. maí 2007. Tímabundið starf), Juventus (2007 til 2009), Roma (2009 til 2011), Inter (2011 til 2012) og Mónakó (2012 til 2014). Áður en Ranieri tók við Leicester stýrði hann gríska landsliðinu í fjórum leikjum, frá júlí 2014 og fram í nóvember sama ár. Á þessum tíma tapaði Grikkland þremur leikjum og gerði eitt jafntefli. Síðasti leikurinn var niðurlægjandi tap gegn Færeyingum.
Rúmlega hálfu ári seinni birtist hann hjá Leicester, og gerðu enskir fjölmiðlar grín að þessari endurkomu Ranieri. Rifjuðu upp úrslitin hjá Grikkjum, og töldu að Ranieri væri ekki stjóri sem gæti náð árangri með Leicester. Árangur á þeim bænum, væri að halda liðinu í deildinni.
Einn af þeim sem var skeptískur á hinn 65 ára gamla Ítala var Gary Lineker, líklega frægasti leikmaður í sögu Leicester – fram að þessu tímabili. „Ranieri? Í alvöru?“ sagði hann á Twitter. Hann hefur síðan viðurkennt að hafa vanmetið Ranieri, og segir komu hans hafa verið það stórkostlegasta sem gerst hefur hjá Leicester. Hann mun þurfa að standa við stór orð um að lýsa í sjónvarpi í nærbuxum einum fata, en það sagðist hann ætla að gera ef Leicester myndi vinna titilinn. Í fyrstu útsendingunni næsta haust, verður Lineker því léttklæddur en vafalítið með bros á vöru, enda Leicester hans uppeldisfélag.
Markmiðin endurskoðuð aftur og aftur og aftur...
Ranieri er sagður vinna með tiltölulega einfalda hugmyndafræði sem knattspyrnustjóri. Hann setur leikmannahópnum markmið, gefur til kynna hvaða leikmenn hann lítur á sem fyrstu valkosti í byrjun tímabils, en endurskoðar markmiðin og valkosti í leikmannamálum stanslaust. Hann hefur stundum verið sagður of fjarlægur leikmannahópnum, og það geri leikmönnum erfitt fyrir. Skilaboðin berist ekki nógu vel til liðsins.
Hjá Leicester virðist hann hafa lagt sig fram um að ná trúnaði leikmanna. Hann lofaði mönnum pizzu-veislu ef þeim tækist að halda hreinu, og hann neyddist til að standa við það þegar Jamie Vardy rukkaði hann um það í viðtali. Ítölsk pizzu-veisla var óhjákvæmileg eftir það, öllum til ánægju.
Óhætt er því að segja að þetta hafi ekki verið vandamál hjá Leicester, að skilaboðin kæmust ekki til leikmanna. Steve Walsh hafði séð til þess, að helstu leikmenn liðsins myndu taka Ranieri vel, og vinna eftir þeirri hugamyndafræði sem hann legði upp. Allir þyrftu að skila sínu og sína samstarfsvilja.
Strax í upphafi móts þóttu spekingar sjá merki þessi, að Ranieri væri að innleiða aga og hlýðni í baráttuglaðan hóp, sem stundum hefði farið fram úr sér. Skapmenn eins og Jamie Vardy, Robert Huth, Danny Drinkwater og fyrirliðinn Wes Morgan, sýndu allir gott fordæmi með fagmannlegri framgöngu. Með Kanté og hinn magnaða Riyad Mahrez, mynduðu þessir leikmenn sterkan kjarna útileikmanna, en á milli stanganna óx Daninn Kasper Schmeichel með hverjum leiknum. Hann bjargaði liðinu hvað eftir annað, og reyndust sjö 1-0 sigrar liðsins í deildinni afar mikilvægir þegar upp var staðið. Faðir hans Peter var stoltur af frammistöðunni, og lét hafa eftir sér í gær að árangur sonarins jafnaðist á við alla titlana hjá honum sjálfum, þegar hann varði markið í gríðarlega sterku liði Manchester United.
Meistaradeild á næsta tímabili
Leicester City mun hefja leik á næsta tímabili sem enskur meistari og mun þurfa að stækka leikmannahópinn töluvert, til að standast aukið leikjaálag sem fylgir þátttöku í Meistaradeild Evrópu. Hver hefði trúað þessu?
Líklega bara leikmennirnir og síðan Ranieri sjálfur. En það gerðist samt ekki fyrr en að líða tók á tímabilið. Í takt við aðferðafræði sína þá setti hann fyrst markið á að ná 40 stigum, svo að sætið í deildinni væri tryggt. Síðan var það 55 stig. Svo endurskoðaði hann markmiðið í þriðja sinn og stefndi á sæti í Evrópukeppni. Svo var það Meistaradeild Evrópu. Og þegar titillinn var í sjónmáli, brosti hann iðulega í viðtölum og sagði að hann væri fjarlægur draumur. Allt þar til fimm leikir voru eftir, þegar enskir fjölmiðlar fóru að rifja það upp, að Ranieri hefði aldrei unnið deildarmeistaratitil á tæplega þrjátíu ára ferli sínum. Þá mætti hann alvörugefinn í viðtal og sagði skýrt: „Nú er þetta í höndum leikmanna minna.“
Titillinn fór til þeirra að lokum, og það örugglega. Því Leicester hefur sjö stiga forystu á Tottenham, sem er í öðru sæti, þegar tveir leikir eru eftir af tímabilinu. Ótrúlegasti sigur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, sem stofnuð var 1992, verður seint toppaður.