Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur ætlar að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hann tilkynnir framboð sitt í Salnum í Kópavogi í dag, uppstigningardag. Guðni ætlar að etja kappi við sitjandi forseta, þó að hann hafi áður sagt að „sitjandi forseti vinni alltaf”. En það var áður en honum datt í hug að hann sjálfur ætti möguleika á að fella hann.
Nú eru þrettán manns í framboði til forseta Íslands, að sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, meðtöldum. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru fjórir með mest fylgi: Ólafur, Guðni, Halla Tómasdóttir og Andri Snær Magnason. Aðrir frambjóðendur mælast með afar lítið eða nánast ekkert fylgi.
En hverjir eru þessir fjórir frambjóðendur sem virðast ætla að berjast um Bessastaði? Og hvað voru þeir að gera áður?
Umhverfisverndarsinnað skáld
Andri Snær Magnason er einn af vinsælustu rithöfundum landsins. Hann hefur skrifað fjölda verka. Andri er ötull talsmaður umhverfismála og hefur látið sterkt að sér kveða á þeim vettvangi, bæði innanlands og utan. Nú síðast hefur hann í samstarfi við Björk Guðmundsdóttur tónlistarkonu vakið athygli á stofnun hálendisþjóðgarðs á Íslandi. Hann er í þjóðkirkjunni.
Andri fæddist í Reykjavík þann 14. júlí 1973 og verður 43 ára í sumar.
Fjölskylduhagir
Foreldrar Andra eru Kristín Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur og Magni Jónsson læknir. Andri kvæntist eiginkonu sinni, Margréti Sjöfn Torp, árið 1999 og eiga þau fjögur börn: Huldu Filippíu, Elínu Freyju, Kristínu Lovísu og Hlyn Snæ.
Fjölskyldan býr við Karfavog í Reykjavík. Andri er í þjóðkirkjunni.
Menntun og störf
Stúdentspróf úr MS árið 1993. BA próf í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1997. Andri hefur skrifað fjölda bóka; skáldsögur, barnabækur, leikrit, ljóð og fræðirit. Bækur hans hafa komið út í 35 löndum og hlotið alþjóðleg verðlaun. Leikrit hans hafa verið sett upp víða um heim. Andri hefur haldið fjölda fyrirlestra víða um heim varðandi nýsköpun, efnahagsmál, menningarmál, friðarmál og umhverfismál. Hann hefur haldið erindi í Columbia University, Tokyo Tec, MIT, Humboldt og víðar. Þá hefur hann tekið þátt í samkeppnum með arkitektum og arkitektastofum og verið gestakennari hjá Listaháskóla Íslands.
Andri Snær er einn af stofnendum Toppstöðvarinnar, sem rekur aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í Elliðaárdal, og bókafélagsins Nykurs. Hann er einn af stofnfélögum Framtíðarlandsins og setið í stjórn Landverndar.
Sagnfræðingur með forsetaembættisblæti
Guðni Thorlacius Jóhannesson sagnfræðingur hefur verið einn helsti álitsgjafi fjölmiðla þegar kemur að umfjöllunum um störf forseta Íslands og embættið sem slíkt. Hann hefur náð að halda sig utan flokksbundinnar pólitíkur allan sinn feril og virðist sækja fylgi bæði til vinstri og hægri. Guðni stendur utan trúfélaga, en hann sagði sig úr kaþólsku kirkjunni í kjölfar fregna af kynferðisbrotum innan hennar.
Guðni fæddist í Reykjavík þann 26. júní 1968 og verður því 48 ára daginn eftir forsetakosningarnar í sumar.
Fjölskylduhagir
Foreldrar Guðna eru Margrét Thorlacius, kennari og blaðamaður, og Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari og íþróttafulltrúi.
Guðni kvæntist fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, árið 1995 og eiga þau eina dóttur, Rut. Guðni og núverandi eiginkona hans, Eliza Reid, sem er frá Kanada, giftu sig 2004 og eiga þau saman börnin Duncan Tind, Donald Gunnar, Sæþór Peter og Eddu Margréti. Fjölskyldan býr við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi.
Menntun og störf
Stúdentspróf úr MR árið 1987. Sagnfræðipróf frá Warwick háskóla í Englandi. Meistaragráða í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1997, MSt gráða í sögu frá Oxford 1999 og doktor í sagnfræði 2003 frá University of London. Guðni hefur verið kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Í dag starfar Guðni sem dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fjölda fræðirita og greina, meðal annars með sérstaka áherslu á þorskastríðin og embætti forseta Íslands. Þá hefur hann einnig skrifað ævisögu Gunnars Thoroddsens, fyrrverandi forsætisráðherra, og fræðibók um forsetatíð Kristjáns Eldjárns.
Reynslubolti úr viðskiptalífinu
Halla Tómasdóttir er rekstrarhagfræðingur og hefur fjölbreyttan starfsferil að baki á sviði viðskipta. Hún starfar í dag sem fyrirlesari og ráðgjafi á alþjóðavettvangi. Hún hefur aldrei verið virk á sviði stjórnmála og er ekki flokksbundin. Halla er eina konan í forsetaframboði sem hefur mælst með yfir tveimur prósentum í skoðanakönnunum. Hún er í þjóðkirkjunni.
Halla fæddist í Reykjavík þann 11. október 1968 og verður 48 ára í haust.
Fjölskylduhagir
Halla er dóttir Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa og Tómasar Björns Þórhallssonar pípulagningameistara. Halla er gift Birni Skúlasyni og saman eiga þau tvö börn. Þau búa á Kársnesinu í Kópavogi.
Menntun og störf
Verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands 1986 og stúdentspróf við Fjölbraut við Ármúla 1989. BSc í viðskiptafræði frá Auburn University í Alabama 1993 og útskrifaðist sem rekstrarhagfræðingur með áherslu á alþjóðleg viðskipti, samskipti og tungumál frá Thunderbird í Arizona 1995. Doktorsnám og rannsóknir við Cranfield School of Management í Bretlandi á árunum 2004-2005.
Halla setti á fót stjórnendaskóla og símenntunardeild Háskólans í Reykjavík og kenndi einnig við skólann. Hún var starfsmannastjóri hjá Pepsi Cola North America og hjá Íslenska útvarpsfélaginu og var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Halla leiddi verkefnið Auður í krafti kvenna og var síðar annar stofnenda Auðar Capital og var einn stofnenda Mauraþúfunnar kom Þjóðfundinum af stað árið 2009.
Stórtækur stjórnmálamaður
Ólaf Ragnar Grímsson hefur verið í eldlínu stjórnmálanna undanfarna fjóra til fimm áratugi, verið formaður stjórnmálaflokks, setið á þingi og síðast á Bessastöðum síðustu 20 ár. Ólafur er í þjóðkirkjunni.
Ólafur fæddist á Ísafirði þann 14. maí 1943 og verður 73 ára eftir rúma viku.
Fjölskylduhagir
Faðir Ólafs var Grímur Kristgeirsson hárskeri og móðir hans Svanhildur Ólafsdóttir Hjartar húsmóðir. Ólafur kvæntist Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur árið 1974 og eignaðist með henni dæturnar Guðrúnu Tinnu og Svanhildi Döllu. Guðrún lést úr hvítblæði árið 1998, tveimur árum eftir að Ólafur var fyrst kjörinn forseti. Ólafur kvæntist Dorrit Moussaieff árið 2003. Ólafur býr á Bessastöðum en Dorrit er skráð í Bretlandi, þó utan lögheimilis og er með heimilisfesti í Ísrael, heimalandi sínu.
Menntun og störf
Stúdentspróf úr MR árið 1962. Stjórnmála- og hagfræðipróf úr háskólanum í Manchester 1965. Doktorsgráða í stjórnmálafræði úr sama skóla árið 1970. Lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1970 og skipaður fyrsti prófessor í faginu við skólann árið 1973. Kenndi við skólann á árunum 1970 til 1988. Ólafur var einnig ritstjóri Þjóðviljans og stjórnaði sjónvarps- og útvarpsþáttum.
Stjórnmálaferill
- 1967 - 1974 - Sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins og framkvæmdastjórn flokksins.
- 1974 - 1975 - Varaþingmaður fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og formaður framkvæmdastjórnar.
- 1980 - 1987 - Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins.
- 1978 - 1995 - Þingmaður og varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið og formaður flokksins frá árinu 1987. Fjármálaráðherra árin 1988 til 1991.