Á því þriggja vikna tímabili sem framboð Ólafs Ragnars Grímssonar varði drógu fimm einstaklingar framboð sitt til baka og sex tilkynntu að þeir ætluðu ekki að gefa kost á sér eftir töluverða yfirlegu. Ástæðan: Ákvörðun sitjandi forseta að gefa kost á sér til endurkjörs. Á sama tíma komu fram fjórir nýir frambjóðendur. Atburðarrás síðustu vikna hefur verið lyginni líkust.
18. apríl
- Ólafur Ragnar Grímsson boðar til blaðamannafundar á Bessastöðum þar sem hann tilkynnir ákvörðun sína um að gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta Íslands. Hann hafði tilkynnt í nýársávarpi sínu 1. janúar 2016 að hann ætlaði að hætta.
- Guðmundur Franklín Jónsson dregur framboð sitt til baka og lýsir yfir stuðningi við framboð Ólafs Ragnars.
- Vigfús Bjarni Albertsson dregur framboð sitt til baka og gagnrýnir framboð Ólafs.
- Linda Pétursdóttir tilkynnir að hún ætli ekki að gefa kost á sér.
- Benedikt Kristján Mewes býður sig fram til forseta.
- Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segist ánægður með framboð Ólafs Ragnars. Það sama sagði þingflokksformaður Framsóknarflokks, Ásmundur Einar Daðason.
20. apríl
Heimir Örn Hólmarsson dregur framboð sitt til baka í ljósi framboðs sitjandi forseta.
22. apríl
Ólafur Ragnar fullyrðir í viðtali við CNN að ekker eigi eftir að koma í ljós um aflandsfélög tengdum honum eða fjölskyldu hans: „No, no, no, no, no. That’s not going to be the case,” svaraði forsetinn þegar hann var spurður.
24. apríl
Bæring Ólafsson dregur framboð sitt til baka í ljósi framboðs Ólafs Ragnars og gagnrýnir forseta.
25. apríl
Eiríkur Björn Björgvinsson ákveður að gefa ekki kost á sér og gagnrýnir framboð Ólafs Ragnars.
27. apríl
- Hrannar Pétursson dregur framboð sitt til baka í ljósi framboðs Ólafs Ragnars.
- Ólafur Ragnar mælist með langmesta fylgið í skoðanakönnun MMR, eða um 53 prósent. Andri Snær Magnason mælist með tæp 30 prósent.
29. apríl
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnir að hún ætli ekki að gefa kost á sér í framboð.
1. maí
Guðrún Nordal tilkynnir að hún ætli ekki að gefa kost á sér í framboð.
2. maí
- Baldur Ágústsson býður sig fram til forseta. Hann fékk um 10 prósent atkvæða í kosningunum 2004 á móti Ólafi Ragnari.
- Enginn marktækur munur mælist á fylgi Ólafs Ragnars og Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings samkvæmt könnun Frjálsrar verslunar. Guðni mælist með rúm 51 prósent og Ólafur með tæp 49 prósent.
- Ellen Calmon tilkynnir að hún ætli ekki að gefa kost á sér.
3. maí
Greint er frá tengslum Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars, við aflandsfélög. Fram kemur að Dorrit sé skráð utan lögheimilis í Bretlandi vegna skattahagræðis.
4. maí
Berglind Ásgeirsdóttir ákveður að bjóða sig ekki fram.
5. maí
- Guðni Th. tilkynnir formlega framboð sitt til forseta.
- Dorrit sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist aldrei hafa rætt fjármál sín við eiginmann sinn.
7. maí
Ólafur Ragnar segist hafa misskilið spurningu fréttakonunnar á CNN um aflandsfélög.
8. maí
- Davíð Oddsson býður sig fram til forseta.
- Ólafur Ragnar segist óviss um framboð sitt.
9. maí
- Ólafur Ragnar dregur framboð sitt til baka.
- Guðni Th. mælist með yfirburðarfylgi í könnun MMR, tæp 60 prósent. Fylgi Ólafs Ragnar hrynur úr tæpu 53 prósentum niður í rúm 25 prósent.