Stjórn Haga hf., stærsta smásölufyrirtæki landsins, telja ekki lengur þröf á því að greiða niður skuldir umfram lánasamninga. Mikil áhersla hefur verið lögð á skuldaniðurgreiðslu á undanförnum árum og skuldir félagsins hafa lækkað gríðarlega á skömmum tíma. Á resktrarárinu 2011/2012 voru nettó vaxtberandi skuldir Haga 8,4 milljarðar króna. Í lok síðasta rekstrarárs, sem lauk í febrúar 2016, voru þær orðnar 701 milljón króna. Skuldirnar minnkuðu um rúmlega 900 milljónir króna milli áranna á undan og með áframhaldandi skuldaniðurgreiðslu verða Hagar með nánast engar nettó vaxtaberandi skuldir í nánustu framtíð.
Þess í stað samþykkti stjórn Haga þann 15. apríl arðgreiðslustefnu sem felur í sér að lögð verði áhersla á að félagið skili til hluthafa sinn þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári. Áfram er stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum arð sem nemi að lágmarki 50 prósent hagnaðar næstliðins rekstrarárs, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Að auki mun félagið kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem Finnur Árnason, forstjóri Haga, hélt í gær vegna ársuppgjörs Haga.
Eiginfjárhlutfallið 55,1 prósent
Smásölurisinn Hagar, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaup, hefur átt góðu gengi að fagna síðan fyrirtækið var skráð á markað í lok árs 2011. Skráningin markaði upphafið á endurreisn hlutabréfamarkaðarins eftir hrunið. Hagar selja vörur fyrir um 78,4 milljarða króna á ári. Veltan hefur aukist um tíu milljarða króna á fimm árum.
Í lok rekstrarársins 2011/2012 var eigið fé Haga 6,2 milljarðar króna. Í lok febrúar síðastliðins var það 16,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið hefur farið úr 26,6 prósent í 55,1 prósent. Líkt og áður sagði hafa nettó vaxtaberandi skuldir verið greiddar upp að mestu á þessu tímabili. Á sama tíma hefur félagið þegar greitt út 4,4 milljarða króna í arð til hluthafa sinna og stefnir að því að greiða tæpa tvo milljarða króna í viðbót í næsta mánuði, verði arðgreiðslutillögur samþykktar á aðalfundi sem er framundan.
Arðsemi eigin fjár Haga hefur hins veg]ar farið hratt lækkandi. Hún var 47,7 prósent á rekstrarárinu 2011/2012 en var 23,1 prósent á nýliðnu rekstrarári. Það þýðir að arðsemin er rúmlega helmingi minni en hún var fyrir fimm árum. Það breytir því ekki að arðsemin sem hluthafar Haga eru að fá á eigið fé sitt er mjög góð og vandséð að mörg önnur viðskiptatækifæri á Íslandi muni gefa þeim meiri arðsemi. Samt sem áður leggur stjórn Haga til við aðalfund að heimilt verði á næstu 18 mánuðum að kaupa allt að tíu prósent af heildarhlutafé félagsins
Lífeyrissjóðirnir eiga rúman helming
Frá því að Hagar voru skráðir á markað hefur gengi bréfa í félaginu margfaldast. Skráningargengið var 13,5 krónur á hlut en í lok dags í gær var gengi bréfanna 49 krónur á hlut. Umtalsverð samþjöppun hefur einnig orðið í hluthafahópnum frá skráningu, aðallega vegna uppkaupa lífeyrissjóða landsins á bréfum í Högum. Sameiginlega eru þeir nú langstærstu hluthafar félagsins með 52,9 prósent hlut. Fjöldi hluthafa alls er 960.