Fyrir skömmu var hér í Kjarnanum pistill um „faðmlagaáráttuna“ svonefndu. Semsé þá venju sem skapast hefur á síðustu árum, að faðmast og smella eins og einum eða tveimur loftkossum með. Loftkossa- og vangaflens. Í áðurnefndum pistli kom fram að ekki væru til um faðmlögin sérstakar reglur, eða venjur, enda kannski hægara sagt en gert. Faðmlögin hafa ekki einskorðast við fullorðna, börn og unglingar hafa líka tekið upp þennan sið.
Í mörgum dönskum grunnskólum er það nánast orðin föst venja að nemendur faðmist að morgni og aftur í lok skóladags og jafnvel oft þar á milli. Beinlínis faðmlagafár segja sumir og telja þetta allt of mikið af því góða. Margir danskir grunnskólakennarar hafa haft nokkrar áhyggjur af því, og rætt í sínum hópi, hvort það sé í lagi að þeir faðmi nemendur. Á tímum þar sem ásökunum um áreitni af kynferðislegum toga hefur fjölgað mjög eru slíkar vangaveltur skiljanlegar.
Holmeagerskólinn hefur faðmlagareglur
Holmeagerskólinn í Greve á Suður-Sjálandi er almennur grunnskóli með rúmlega 700 nemendur. Þar, eins og víða annars staðar, hefur „faðmlagasiðurinn“ nánast orðið að fastri venju. Þetta á við um alla aldurshópa innan skólans, frá yngstu bekkjum til þeirra elstu.
Skólayfirvöld hafa nú sett reglur um faðmlögin. Heimilt er að faðmast að morgni, þegar skóladagurinn hefst, og aftur síðdegis þegar skólastarfi lýkur. Að mati margra nemenda og kennara voru faðmlögin komin út í hreinar öfgar. Camilla Forsberg einn stjórnenda skólans sagði í blaðaviðtali að faðmlögin hefðu í sumum tilvikum tekið á sig aðra mynd en æskilegt væri. Stærri og sterkari strákar hefðu iðulega notfært sér faðmlögin til að beita kröftum sínum eða jafnvel viljað faðma „aftanfrá“ eins og Camilla Forsberg komst að orði. Stundum hefðu faðmlög bekkjarsystkina, einkum í yngri bekkjum, orðið að eins konar fjöldafaðmlögum þar sem nemendur hefðu endað í kös á gólfinu. Þótt aldrei hefðu orðið óhöpp vegna þessa hefðu þau sem urðu neðst í hrúgunni iðulega orðið skelkuð og foreldrar í kjölfarið kvartað.
Í sumum bekkjum hafa kennarar brugðið á það ráð að hafa sérstakt faðmlagasvæði í stofunni og þegar aðstæður henta tilkynnir kennarinn að nú megi faðmast, give kram, og þá geta þau börn sem vilja tekið þátt í því staðið upp og farið á faðmlagasvæðið en hin sitja í sætum sínum. Blaðamaður Berlingske sem fékk að fylgjast með kennslu í einum bekk og þegar kennarinn tilkynnti að nú mætti faðmast tóku fimmtán börn af tuttugu og einu í bekknum þátt í því. Þegar blaðamaður spurði börnin hvað þeim fyndist um þetta fyrirkomulag voru þau öll á einu máli um að þetta væri sniðugt. „Stundum vill maður ekkert vera með og þá situr maður bara kyrr,“ sagði einn strákanna.
Að sögn stjórnenda í Holmeagerskólanum er þeim ekki kunnugt um að faðmlagareglur, líkt og hér hefur verið lýst, séu við lýði í öðrum dönskum skólum, þótt það geti vel verið.