Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir að Alþingi eigi að skipa rannsóknarnefnd til að kalla fram nýjar upplýsingar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins svokallaða á Búnaðarbankanum árið 2003, ef áhugi sé fyrir því að komast til botns í málinu. Hann hefur undir höndum nýjar upplýsingar og ábendingar um raunverulega þátttöku Hauck & Aufhäuser, þýsks einkabanka, í kaupunum á Búnaðarbankanum.
Þegar kaupin áttu sér stað var málið kynnt þannig að Hauck & Aufhäuser væri á meðal kaupenda að bankanum og var aðkoma erlends banka talin styrkja stöðu S-hópsins gagnvart kaupunum. Þetta kemur fram í bréfi sem Tryggvi sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 19. maí síðastliðinn og hefur verið birt á heimasíðu embættis hans.
Sú skýring sem gefin var um aðkomu Hauck & Aufhäuser hefur lengi verið dregin í efa og því oft verið haldið fram í opinberri umræðu að bankinn hafi verið leppur.
Bárust nýjar upplýsingar
Í bréfi Tryggva segir að umboðsmanni Alþingis hafi nýverið borist nýjar upplýsingar og ábendingar um „hvernig leiða mætti í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KgaA í kaupum á eignarhluta íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. á árinu 2003 með aðild hans að Eglu hf.“. Upplýsingunum var komið til umboðsmanns með þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra. Hann telur að upplýsingarnar geti haft þýðingu um „réttmæti þeirra upplýsinga sem íslensk stjórnvöld byggðu á við sölu á umræddum eignarhluta, þ. á m. við val á viðsemjenda um kaupin. Þá kann einnig að skipta máli hvort þau skilyrði sem fram komu í kaupsamningi um þessi viðskipti hafi að öllu leyti verið uppfyllt sem og þegar tekin var afstaða til beiðna kaupandans á síðari stigum um breytingar á samningsbundnum skyldum sínum“.
Tryggvi sat sem kunnugt er í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna þar sem meðal annars var fjallað um einkavæðingu bankanna og segir í bréfinu að sér hafi lengi verið ljóst að uppi hafi verið óskir um að aðild hins þýska banka að kaupunum yrði skýrð nánar. „Tilefnið eru efasemdir um að þáttur bankans hafi í raun verið með þeim hætti sem kynnt var af hálfu kaupenda eignarhlutans“.
Hann taldi því fulla ástæðu til að kanna þær nýju upplýsingar sem honum bárust nánar og kanna hvort þær gætu leitt til þess að leiða fram nýjar staðreyndir um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum. „Niðurstaða mín er sú að frekari úrvinnsla þessara upplýsinga og tilteknar athuganir og gagnaöflun sé líklegt til þess“.
Tryggvi telur hins vegar að hvorki lögbundnar starfsheimildir embættis síns né Ríkisendurskoðunar dugi til að afla þeirra ganga sem sem hinar nýju upplýsingar vísa til né til þess að afla upplýsinga og skýringa hjá þeim lögaðilum sem koma við sögu í málinu. Þess vegna vill hann koma því á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ef vilji sé til þess að fá fram nýjar upplýsingar um aðkomu þýska bankans eigi að vinna að því á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. Með öðrum orðum, þá eigi að Alþingi að skipa rannsóknarnefnd ef vilji er fyrir því að komast til botns í málinu og skýra einkavæðingu Búnaðarbankans í eitt skipti fyrir öll.
Tryggvi tekur sérstaklega fram að ekkert bendi til þess að þeir sem tóku ákvörðun fyrir hönd ríkisins um sölu á Búnaðarbankanum til S-hópsins eða unnu að þeirri sölu hafi haft vitneskju um þau atriði sem hann hefur nú fengið vitneskju um.
Áttu ekki mikið af peningum
Tortryggni gagnvart aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á kjölfestuhlut ríkisins í Búnaðarbankanum hefur verið viðvarandi allt frá því að kaupin áttu sér stað fyrir rúmum þrettán árum. Þegar íslenska ríkið ákvað að selja hlut sinn í Búnaðarbanka Íslands árið 2002 var eitt af helstu markmiðum þess að fá erlenda fjármálastofnun til að koma þar að. Það vann því mjög með þeim bjóðendum í hlut ríkisins í bankanum ef þeir höfðu slíka í sínum hópi.
Kjarninn hefur öll gögn einkavæðingarferlisins undir höndum, þar með talið fundargerðir einkavæðingarnefndar og þau gögn sem nefndin studdist við þegar hún tók ákvörðun sína um að selja einum bjóðanda umfram annan. Sá bjóðandi sem fékk á endanum að kaupa Búnaðarbankann var hinn svokallaði S-hópur, með rík tengsl inn í Framsóknarflokkinn og leiddur af Ólafi Ólafssyni, sem nú afplánar fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins, og Finni Ingólfssyni, fyrrum varaformanns og ráðherra Framsóknarflokksins.
S-hópurinn átti ekki sérstaklega mikla peninga (kaupverðið var að stórum hluta fengið að láni) og hafði enga reynslu af því að reka banka. Það var því mjög mikilvægt fyrir hann að láta líta svo út að sterkur, erlendur aðili væri með í hópnum til að gera einkavæðingarnefnd auðveldara fyrir að selja honum bankann.
Societe General verður Hauck & Aufhauser
Framan af var látið líta svo út að erlendi bankinn sem væri í slagtogi með S-hópnum væri franski bankarisinn Societe General, sem einkavæðingarnefnd þótti fýsilegt. Ljóst er á fundargerðum einkavæðingarnefndar að hún taldi nánast allan tímann að franski bankinn væri sú fjármálastofnun sem ætlaði að taka þátt í kaupunum.
Þeirri tálsýn var haldið á lofti í gegnum ferlið, þótt að aldrei fengist staðfesting á því að Societe General væri með í hópnum. Þegar leið að því að salan á Búnaðarbanka yrði kláruð komu skilaboð frá S-hópnum um að ekki væri hægt að tilkynna um hver erlendi aðilinn í hópnum væri fyrr en við undirskrift.
Búnaðarbankinn var loks seldur til S-hópsins 16. janúar 2003. Einkavæðingarnefnd fékk fyrst að vita nafn erlenda bankans sem tók þátt í kaupunum sjö dögum áður. Sá banki var þýski sveitabankinn Hauck & Aufhauser. Hann var aldrei nefndur á nafn í fundargerðum einkavæðingarnefndar.
Hauck & Aufhauser hafði aldrei nein afskipti af ætluðum eignarhlut sínum í Búnaðarbankanum og skipaði íslenskan starfsmann eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar í stjórn Eglu, félagsins sem bankinn átti hlut sinn í gegnum. Rúmum tveimur árum eftir að Hauck & Aufhauser keypti hlut í Eglu, og þar af leiðandi í Búnarbanka, var bankinn búinn að selja hann allan til annarra aðila innan S-hópsins.
Um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn keypti Búnaðarbankann hófust viðræður um að sameina hann og Kaupþing. Eftir að sú sameining gekk í gegn varð sameinaður banki stærsti banki landsins og hópurinn sem stýrði honum gerði það þangað til að hann féll í október 2008, og skráði sig á spjöld sögunnar sem eitt stærsta gjaldþrot sem orðið hefur.