Sá sérstaki snýr aftur

Portúgalinn José Mourinho á ótrúlegan feril að baki sem knattspyrnustjóri. Hans bíður nú erfitt verkefni í Manchester.

mori
Auglýsing

Portú­gal­inn José Mour­inho hefur á sextán ára ferli sínum sem knatt­spyrnu­stjóri náð mögn­uðum árangri í öllum þeim löndum þar sem hann hef­ur ­starf­að. Portú­gal, Englandi, Ítalíu og Spáni. Hann verður form­lega kynntur sem nýr knatt­spyrnu­stjóri Manchester United í næstu viku, eftir að Hol­lend­ing­ur­inn Lou­is Van Gaal var lát­inn taka pok­ann sinn, skömmu eftir að hafa lyft FA bik­arnum að loknum 2-1 sigri Manchester United á Crys­tal Palace á Wembley. Tit­ill­inn ­bjarg­aði honum ekki. Örlögin voru ráð­in. Helsta ástæðan fyrir því að hann var lát­inn fara? Deyfð, leið­indi og óásætt­an­legur árang­ur.

Leik­menn ósáttir

Sé mið tekið af umfjöllun helstu fót­bolta­miðla í Bret­landi, The Guar­dian og BBC þar á með­al, þá virð­ist Van Gaal ekki hafa náð trún­aði leik­manna og ­leik­skipu­lagið sem hann lagði upp með var umdeilt meðal þeirra. Hjá aðdá­end­um var leik­skipu­lagið gagn­rýnt harð­lega nær linnu­laust allt tíma­bilið sem lauk ný­ver­ið. 

Í upp­hafi byrj­aði liðið með 3-5-2 taktík, en féll frá henni fljót­lega þegar stigin létu á sér standa. Margir leik­manna voru að spila í stöðum sem þeir höfðu ekki leikið mikið áður, sem virt­ist engan veg­inn skila sér í góðu gengi eða sann­fær­andi spila­mennsku. Hinn dínamíski og ástríðu­kenndi hrað­i ­sem Alex Fergu­son var frægur fyrir að ná fram í liði Manchester United, í sinni stjóra­tíð, var eins fjarri og hugs­ast gat.

Auglýsing

Mourinho kann þá snilld að búa til fyrirsagnir með yfirlýsingum á blaðamannafundum.

Daniel Taylor, pistla­höf­undur The Guar­di­an, sagði í pistli í gær að tveggja ára dvöl Louis Van Gaal hefði ein­kennst af leið­in­legum fót­bolta, ­sem sýni sig í fáum skor­uðum mörkum og hægum fót­bolta, og síðan einnig léleg­um ­móral hjá leik­mönn­um. Þetta sé eitt­hvað sem Manchest United geti ekki sætt sig við.  Á liðnu tíma­bili skor­aði liðið 49 ­mörk en með­al­talið í úrvals­deild­inni hjá lið­inu er 76,4 mörk á tíma­bili. Þetta ­segir sína sögu.  

Til við­bótar má nefna að sam­kvæmt Opta stats ­töl­fræði­gagna­grunn­inum þá voru aðeins þrjú lið í deild­inni sem sköp­uðu sér­ ­færri færi. Hið hrika­lega slaka Aston Villa að sjálf­sögðu, og síðan West Brom og Watford. Þetta er staða sem Manchester United á ekki að venjast, svo ekki sé nú ­dýpra í árina tek­ið.

Nýtt upp­haf er framund­an, hjá þessu sig­ur­sælasta félagi í sögu enskrar knatt­spyrnu. Knatt­spyrnu­stjóri númer fjögur (Da­vid Moyes, Ryan Giggs, Louis Van Gaal) frá því Alex Fergu­son hætti, er að fara taka við stjórn­ar­taumun­um.

Hræði­leg enda­lok hjá Chel­sea

Hinn 53 ára gamli Mour­inho kemur ekki til Manchester á há­punkti fer­ils síns, svo mikið er víst. Hann var rek­inn frá Chel­sea 17. des­em­ber í fyrra, þegar tíma­bilið var ekki hálfn­að. Chel­sea, sem hann gerði að enskum ­meist­ara tíma­bilið á und­an, byrj­aði leik­tíð­ina hræði­lega og var í 16. sæt­i, eftir að hafa tapað níu af sextán leikjum tíma­bils­ins, þegar hann var rek­inn.

Mour­inho var í guða­tölu hjá stuðn­ings­mönnum liðs­ins, og er það eflaust enn. En þessi árangur var ekki boð­legur og ekk­ert annað var í stöð­unni en að Mour­inho hætti, því ekki gátu leik­menn­irnir hætt.

Lit­ríkt upp­haf

Fer­ill Mour­inho er með nokkrum ólík­ind­um. Árið 2000 var hann, þá aðeins 37 ára gam­all, ráð­inn knatt­spyrnu­stjóri Ben­fica, en hætti eftir níu leiki við stjórn­völ­inn. Allt hafði gengið vel, en inn­an­húspóli­tík­ réð því að hann hætti.

Í júlí 2001 tók hann við União de ­Leiria, sem telst lítið félag í Portú­gal. Undir hans stjórn var það í þriðja sæti í Portú­gal. Stóra tæki­færið kom svo í jan­úar 2002 þegar Porto réð hann sem knatt­spyrnu­stjórna. Liðið var í fimmta sæti þegar hann tók við, og ekki inn í bik­ar­keppn­i. 

Porto end­aði í þriðja sæti. Í lok tíma­bils­ins lof­að­i hann stuðn­ings­mönnum að vinna deild­ina að ári. Þarna sást glitta í kok­hraust­an ungan mann á upp­leið, sem átti eftir að setja mark sitt á Evr­ópu­bolt­ann. 

Á tíma­bil­inu 2002 til 2003 var Porto óstöðv­andi. Liðið sigr­aði í deild­inni, með­ ell­efu stiga for­skoti á Ben­fica, varð bik­ar­meist­ari og sigr­aði í UEFA Cup. Tíma­bil­ið 2003 til 2004 var síðan ævin­týri lík­ast. Þá sigr­aði Porto allt sem það gat unn­ið, og líka Meist­ara­deild Evr­ópu. Sterkur kjarni leik­manna mynd­aði agað og öflugt lið, sem eng­inn fann leið til að sigra eða slá út úr Evr­ópu­keppn­i. ­Mik­il­væg­ustu leik­menn liðs­ins á þessu tíma­bili voru Deco, Ricardo Car­valho og Man­iche, sem Mour­inho náði í samn­ings­lausan eftir að honum var leyft að fara frá Ben­fica. 

Sann­ar­lega ótrú­legur árang­ur, sem opn­aði dyrnar að stærstu félögum Evr­ópu.Chel­sea ævin­týrið

Hjá Chel­sea var nú kom­inn ungur Rússi, Rom­an A­bramovich, í eig­anda­sæt­ið, en hann var með fulla vasa fjár sem rekja mátti til olíu­auð­linda í Síber­íu. Hann sætti sig ekki við að Claudi­o Rani­eri, sem kom sá og sigr­aði með Leicester á nýaf­stöðnu tíma­bili, hafi aðeins náð öðru sæti árið 2004, og vildi gera Chel­sea að meist­ara. Þá var Mour­inho ráð­inn, og fékk hann met­greiðslu fyrir samn­ing­inn, 4,2 millj­ónir punda, eða um 750 millj­ónir króna.

Mour­inho sýndi strax að hann væri kom­inn til að setja mark ­sig á fót­bolta­heim­inn. Á fyrsta blaða­manna­fund­inum sagði hann þessi fleygu orð: „Ég vil ekki hljóma hroka­full­ur, en ég kem hingað sem Evr­ópu­meist­ari og tel að ég sé sá sér­staki, fyrir þetta verk­efn­i.“ Við­ur­nefn­ið, sá sér­staki, fest­ist strax við hann. 

Til þess að gera langa sögu stutta þá varð Chel­sea að stór­kost­legu liði undir stjórn Mour­in­ho. Eiður Smári Guðjohnsen, sem enn er í ís­lenska lands­lið­inu 20 árum eftir að hann spil­aði fyrsta leik­inn með því, átt­i frá­bær ár undir stjórn Mour­in­ho. Leik­manna­hóp­ur­inn var ógn­ar­sterk­ur, með Frank Lampard og John Terry fremsta meðal jafn­ingja, og skil­aði Mour­inho titli strax á fyrsta tíma­bili, vorið 2005. Það var fyrsti deild­ar­meist­ara­tit­ill Chel­sea í 50 ár.

Aftur vann Chel­sea deild­ina árið eft­ir, og virt­ist Mour­in­ho á góðri leið með að búa til magnað sig­ur­sælt lið til langrar fram­tíð­ar, þrátt ­fyrir mikla sam­keppni frá Manchester United, Arsenal og Liver­pool.

En þegar eng­inn deild­ar­meist­ara­tit­ill skil­aði sér vorið 2007 virt­ist sam­starf Mour­inho við eig­and­ann og helstu starfs­menn félags­ins ver­a orðið slæmt. Þegar Ísra­el­inn Avram Grant var ráð­inn yfir­maður knatt­spyrnu­mála, í óþökk Mour­in­ho, var mælir­inn full­ur. Hann hætti hjá Chel­sea 20. sept­em­ber 2007, nokkuð óvænt. 

Inter-­tím­inn óg­leym­an­legur

Þegar Mour­inho tók við Inter, í júní 2008 eftir nærri árs­frí frá þjálfun, var mikil pressa á hon­um. Nýtt lið var í mót­un, en leik­manna­hóp­ur­inn var góð­ur. Ungir og reynslu­miklir ­leik­menn í bland, og góð sam­setn­ing varn­ar-, miðju-, og sókn­ar­manna. Und­ir­ ­stjórn Mour­inho varð Inter besta félags­lið Evr­ópu, sigr­aði allt sem það gat unnið heima fyr­ir, bæði deild og bik­ar, og varð Evr­ópu­meist­ari vorið 2009.

Enn einu sinni sann­aði Mour­inho hæfi­leika sína, með því að ­byggja upp nýtt lið á skömmum tíma, og finna sig­ur­blönd­una sem svo erfitt er að hrista fram. Tvö sig­ur­sæl tíma­bil í röð hjá Inter, leiddu til þess að Real Ma­drid réð hann til starfa. Þar tók við gam­al­kunnug bar­átta stór­veld­anna, Real Madrid og Barcelona. Real Madrid var iðu­lega í fremstu röð, undir stjórn Mour­in­ho, en þurfti að sætta sig við að vera skrefi á eftir Barcelona, nokkuð oft. Þó ekki vorið 2012, þegar Real Madrid sigr­aði deild­ina með nokkrum yfir­burð­um.

Ári síðar var annað upp á ten­ingn­um. Real náði ekki að sigr­a ­deild­ina, og tap­aði fyrir erki­fj­end­unum Atlet­ico Madrid í úrslit­u­m bik­ar­keppn­inn­ar.

Mour­inho hætti með liðið eftir tíma­bil­ið. Mán­uði eftir það, var hann búinn að skrifa undir hjá Chel­sea, og hóf þá feril númer tvö í London. Á tíma­bil­inu 2013 til 2014 varð Chel­sea í þriðja sæti, en sigr­aði svo deild­ina ­tíma­bilið 2014 til 2015. Gull­trygg­ing sig­urs­ins kom þegar þrír leikir vor­u eft­ir.

Byrj­unin skelfi­lega á tíma­bil­inu sem nú er að ljúka, er ­fá­títt hlið­ar­spor á stór­kost­legum sextán ára ferli Mour­in­ho.

Stjórn­un­ar­hæfi­leikar

Mour­inho þótti strax sína afburða­hæfi­leika sem stjórn­and­i. ­Sjálfs­ör­yggið upp­mál­að, og með skýra áherslun á smá­at­riðin í liðs­stjórn­un. Hann hefur verið sagður snill­ingur í sál­fræð­i­stríð­inu, þó brott­rekstur hans hjá Chel­sea sé ákveðið hlið­ar­spor á þeim ferli. Nán­ast allan sinn feril hefur það verið einn af hans stærstu kost­um, að halda leik­mönnum sínum við efnið og taka ­sjálfur á sig hit­ann sem fylgir fjöl­miðlaum­fjöllun og press­unni sem hún skap­ar.

En hvernig mun Mour­inho halda um taumana hjá Manchester United? Það er erfitt að segja. Einn af þeim sem hefur fylgst með Mour­inho í gegnum tíð­ina, og haldið með Manchester United lengi, er Gunn­laugur Jóns­son, ­þjálf­ari ÍA í Pepsi-­deild karla. Hann segir að Mour­inho þurfi að finna „dráp­seðlið“ sem ein­kenndi tím­ann þegar Alex Fergu­son réði ríkjum á Old Traf­ford. „Sem Man. Utd. aðdá­andi hefur maður verið á báðum átt­u­m hvaða skref félagið ætti að fara. Hlut­irnir voru ekki í réttum far­vegi með Van Ga­al, liðið var óspenn­andi, spil­aði hægt og það vant­aði í það dráp­seðlið sem sir Alex var búinn að búa til hjá lið­inu. Kost­ur­inn við að fá Mour­inho á þessum ­tíma­punkti er að hann kemur til leiks til að sanna sig eftir bullið hjá Chel­sea. Hann er með­vit­aður um kröf­urnar sem eru í Leik­húsi Draumanna og hvað hefur farið úrskeiðis hjá Moyes og Van Gaal. Ég hef ekki áhyggjur að hann get­i ekki búið til massíva liðs­heild, það hefur hann gert svo vel hjá Chel­sea, Inter Milan og Porto. Ég ætla því að vona að þetta sé hár­rétt skref hjá félag­inu og ég held að þessi bik­ar­tit­ill sem liðið vann um helg­ina hafi hell­ing að segja ­fyrir leik­manna­hóp­inn og nú er Móra að fylgja því eft­ir. Það er alla­vega ljóst að þetta er ekki auð­veldasta starfið í brans­anum og reynsla Mour­inho kem­ur honum til góða þar,“ segir Gunn­laug­ur.

Mour­inho hefur alltaf náð árangri fljót­lega eftir að hann hefur tekið við nýju liði. Aldrei hefur liðið meira en eitt ár þar til­ ­deild­ar­meist­ara­tit­ill hefur komið í hús. Mour­inho hefur sjálfur þakk­að ­Bobby Rob­son heitnum fyrir sinn grunn í þjálfun, en Mour­inho var einn af aðstoð­ar­mönn­um hans hjá Barcelona þegar Rob­son þjálf­aði Kata­lón­íustór­veld­ið, tíma­bilið 1996 til 1997. Hvernig til mun takast hjá Manchester United mun fram­tíðin leiða í ljós, en með grunn­inn frá Rob­son, mikla reynslu og per­sónu­töfra gæti hann byggt upp sig­ur­hefð­ina sem Alex ­Fergu­son tókst að skapa.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Stíflurnar loka fyrir flæði sjávar úr Adríahafi inn í Feneyjalónið.
Feneyingar prófa flóðavarnir sem beðið hefur verið eftir
Framkvæmdir við flóðavarnakerfi Feneyinga hafa staðið yfir frá því 2003. Verkefnið er langt á eftir áætlun og kostnaður við það hefur margfaldast.
Kjarninn 12. júlí 2020
Meiri áhugi virðist vera á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fleiri kaupa utan Reykjavíkur
Talið er að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi komið í veg fyrir mikla niðursveiflu á íbúðamarkaðnum, sem tekið hefur við sér að nokkru leyti á síðustu mánuðum. Fleiri kjósa þó að kaupa íbúð utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess.
Kjarninn 12. júlí 2020
Trump stígur í vænginn við Færeyinga
Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á aukinni samvinnu við Færeyinga. Þótt í orði kveðnu snúist sá áhugi ekki um hernaðarsamvinnu dylst engum hvað að baki býr.
Kjarninn 12. júlí 2020
Fé á leið til slátrunar.
Bændum á Íslandi heimilt að aflífa dýr utan sláturhúsa með ýmsum aðferðum
Yrði sláturhús á Íslandi óstarfhæft vegna hópsmits yrði fyrsti kosturinn sá að senda dýr til slátrunar í annað sláturhús. Ef aflífa þarf dýr utan sláturhúsa mega bændur beita til þess ýmsum aðferðum, m.a. gösun, höfuðhöggi og pinnabyssu.
Kjarninn 12. júlí 2020
Þriðjungsfjölgun í Siðmennt á rúmu einu og hálfu ári
Af trúfélögum bætti Stofnun múslima á Íslandi við sig hlutfallslega flestum meðlimum á síðustu mánuðum. Meðlimum þjóðkirkjunnar heldur áfram að fækka en hlutfallslega var mesta fækkunin hjá Zúistum.
Kjarninn 11. júlí 2020
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðis.
„Við þurfum fleiri ferðamenn“
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að fleiri ferðamenn komi til Íslands sem fyrst og vill breytingar á fyrirkomulagi skimana á Keflavíkurflugvelli.
Kjarninn 11. júlí 2020
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Frekju og yfirgangi Ísraels engin takmörk sett
Kjarninn 11. júlí 2020
Sjávarútvegurinn hefur bætt við sig störfum á meðan hart hefur verið í ári hjá ferðaþjónustunni.
Ferðaþjónustan skreppur saman en sjávarútvegurinn er í sókn
Rúmlega helmingi færri störfuðu í ferðaþjónustu á síðasta ársfjórðungi miðað við árið á undan. Störfum í sjávarútvegi hefur hins vegar fjölgað um helming.
Kjarninn 11. júlí 2020
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None