Lionel Messi, besti fótboltamaður heimsins og lykilmaður Barcelona og argentíska landsliðsins, tók sæti í morgun í vitnastúku í dómsal í Barcelona, þar sem hann og faðir hans Jorge þurftu að svara fyrir ásakanir um skattsvik upp á rúmlega fjórar milljónir evra, eða sem nemur um 560 milljónum króna. Hinn 28 ára gamli Messi segjast hvergi hafa komið nærri málinu. Samtals, með vöxtum, nemur fjárhæðin 4,7 milljónum evra.
Vissi ekkert
„Ég vissi ekkert um þetta, ég hugsaði bara um fótboltann,“ sagði Messi, en vitnaleiðslur yfir honum voru aðeins í gangi í fimmtán mínútur. Jorge faðir hans sagði svipaða sögu. Nema hvað hann játti því að sjá um fjárhagsleg málefni fyrir son sinn. Hann hefði hins vegar með engum hætti komið að þeim fjármálagjörningum sem málið snýst um, sem eru skattaundanskot í gegnum Belís og Úrugvæ, með hjálpa aflandsfélaga.
Peningarnir sem ekki voru gefnir upp til skatts voru greiðslur vegna styrktar- og auglýsingasamningar (image rights) Lionel Messi, á árunum 2007 til 2009. Samtals námu þær 10,1 milljónum evra, um 1,4 milljörðum króna. Þetta voru meðal annars greiðslur frá Pepsi, Procto & Gamble og Adidias.
Feðgarnir ábyrgir
Skattayfirvöld á Spáni telja Messi feðga vera ábyrga fyrir skattsvikunum, en Jorge bauðst árið 2013 til þess að greiða yfirvöldum sáttagreiðslu upp á fimm milljónir evra. Þeir greiddu fjárhæðina að lokum. Sú greiðsla er ekki til þess fallin að styrkja stöðu þeirra feðga, og hafa yfirvöld á Spáni frekar litið á það sem staðfestingu á sekt þeirra. Hins vegar gæti mögulega refsing verið mildari fyrir vikið, en miðað við refsiramma laganna sem um ræðir getur fangelsisvist ekki orðið lengri en tvö ár.
En hvers vegna er þetta mál viðamikið og jafnvel talið prófsteinn á réttarkerfi Spánar? Hið augljósa er að benda á að spjótin beinist að einum þekktasta íþróttamanna veraldar. En það er ekki síður efnahagslegi veruleiki Spánar sem þarf að horfa til í þessu samhengi. Atvinnuleysi hefur verið meira 20 prósent í landinu undanfarin ár, og hjá ungu fólki hefur það verið yfir 40 prósent. Skuldir sliga sveitarfélög um allt landið, og endurskipulagning bankakerfisins, eftir fjármálakreppuna á árunum 2007 til 2009 – á sömu árum og Messi feðgar eru sakaðir um að hafa verið að skjóta undan skatti – hefur verið kostnaðarsöm.
Alvarlegur undirtónn
Í árferði eins og þessu, er það litið sérstaklega alvarlegum augum að skjóta undan skatti, og þegar upphæðirnar eru jafn háar og í þessu máli, þá gætu hámarksrefsingar verið nýttar. Þetta á ekki að líða, segja skattayfirvöld skýrri röddu.
En hver ber ábyrgðina, ef það eru ekki eigendur fjármagnsins? Það beinist kastljósi að lögfræðistofu sem Jorge Messi réð til þess að aðstoða við skjalavinnslu og samningagerð. Þeir sáu ennfremur um eignastýringu fyrir Messi. Þetta er lögfræðistofan Juárez Veciana, sem bræðurnir Angel og Inigo Juárez stýra. Þeir bræður komu báðir fyrir réttinn í morgun, og sögðu Lionel Messi ekki hafa haft neina vitneskju um hvernig gengið var frá greiðslunum. Sögðu þeir, að samskiptin hafi verið við Jorge, en ábyrgðin væri alfarið þeirra. Þeir telja að frágangurinn á greiðslunum hafi verið í takt við alþjóðalög, og að málið sé því ekki á rökum reist. „Ég get ekki talað fyrir aðra samstarfsmenn mína, en ég get staðfest það að Lionel Messi kom ekki nálægt neinu af því sem hér um ræðir,“ sagði Inigo og lagði áherslu á mál sitt.
Dómsniðurstaða í málinu mun liggja fyrir í sumar, en lögfræðingar Messi klára að leggja fram rökstuðning í vörn hans á morgun.