Fyrir skömmu kom út bókin „2017: War With Russia”. Höfundur hennar er Richard Shirreff fyrrverandi yfirhershöfðingi og næstæðsti yfirmaður herafla NATO í Evrópu. Maður sem gjörþekkir umfjöllunarefni bókarinnar og þótt hún sé skáldsaga byggir hún á þekkingu og reynslu höfundar. Í bókinni lætur höfundur koma til átaka ungra Rússa og lögreglu í Ríga, höfuðborg Lettlands. Þrír Rússar falla fyrir kúlum lögreglunnar. Kveikt er í ráðhúsi borgarinnar og áður en hendi er veifað er fjölmennt rússneskt herlið mætt í hlaðvarpann í Ríga. Þetta er „til að varðveita friðinn og rússneska minnihlutann í Lettlandi” segir forseti Rússlands. Mat Rússa er ískalt: Lettland er NATO land en Bandaríkjamenn og önnur aðildarríki bandalagsins munu aldrei hætta á stríð til að verja lítið og fámennt land. Á þremur sólarhringum eru Eistland, Lettland og Litháen undir stjórn Rússa og heimurinn á suðupunkti.
NATO sefur á verðinum
Ef hrollur fer um lesandann er tilgangi höfundar náð. En tilgangurinn er líka að vekja athygli á nauðsyn þess að NATO sé við öllu búið, en því fari fjarri að svo sé í dag. NATO þarf, að mati bókarhöfundar að búa svo um hnútana að enginn taki áhættuna af því að ógna einu eða fleirum aðildarríkjum bandalagsins.
Ógnin úr austri
Þótt bók Richards Shirrefs sé skáldsaga er innihaldið og sú sýn sem þar er dregin upp ískyggilega raunveruleg mynd af þeirri stöðu sem uppi er á Eystrasaltssvæðinu. Þar er ástandið ekki ”business as usual” (allt við það sama) einsog Janis Berzins yfirmaður rannsókna í Lettneska herskólanum komst að orði. Það eru orð að sönnu. Rússar hafa nýlega komið upp þremur nýjum herstöðvum við vesturlandamæri sín og hótað að koma fyrir í Kalíningrad við Eystrasalt svonefndum Iskander stýriflaugum sem borið geta kjarnaodda. Ummæli sænska hershöfðingjans Anders Brannström af þessu tilefni vöktu athygli en hann sagði að ”Svíþjóð gæti átt í stríði innan nokkurra ára.”
Þrjú þúsund manna herlið og eldflaugavarnakerfi
NATO undirbýr nú að senda herlið, þrjú þúsund manns til Eystrasaltslandanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháen. Endanleg ákvörðun um þetta verður tekin á leiðtogafundi NATO í Varsjá í næsta mánuði. Eystrasaltslöndin hafa lengi óskað eftir að NATO efli viðbúnað sinn á þessu svæði. Löndin þrjú óttast að risinn í austri kunni að láta reyna á hina svonefndu 5. grein Atlantshafssáttmálans sem segir að árás á eitt aðildarríki NATO sé árás á öll ríki bandalagsins.
Í viðtali við danska dagblaðið Berlingske sagði Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, að stjórnvöld í Eystrasaltslöndunum spyrji „hvort NATO geti staðið við þessa yfirlýsingu og hvort bandalagið vilji standa við hana.” Bandaríkin hafa þegar svarað þessari spurningu játandi og það hafa fleiri NATO lönd einnig gert.
Bandaríkin tóku sömuleiðis fyrir nokkrum vikum í notkun fyrsta hluta evrópska eldflaugavarnakerfisins sem hefur verið í undirbúningi um margra ára skeið. Rússar hafa brugðist illa við þessum aukna viðbúnaði og Mikhail Vanin sendiherra Rússa í Danmörku sagði í blaðaviðtali fyrir nokkrum mánuðum að Danmörk gæti orðið skotmark rússneskra kjarnorkuflauga ef danska ríkisstjórnin yrði aðili að eldflaugavarnakerfinu. Í viðtali við dagblaðið Politiken fyrir nokkrum dögum sagði sendiherrann að aukinn viðbúnaður NATO í Eystrasaltslöndunum krefðist viðbragða Rússa.
Sérfræðingar telja hernaðaraðgerðir Rússa ósennilegar
Margir hernaðarsérfræðingar í aðildarríkjum NATO telja afar ósennilegt að Rússar grípi til hernaðaraðgerða. Þeir sýni frekar klærnar með alls kyns hótunum, truflunum og skemmdum á orkuflutningabúnaði. Þeir muni fremur nota ýmsar slíkar aðferðir til að rjúfa samstöðu NATO ríkjanna og mynda klofning í þeirra röðum.
Hvað gerist ef Rússar hertaka sænska smáey?
„Ef ég væri í sporum Rússa og ætlaði mér að valda deilum og klofningi innan NATO myndi ég koma fyrir herliði á lítilli og óbyggðri sænskri eyju,” sagði Janis Berzins sérfræðingur hjá Lettneska herskólanum í viðtali og bætti við „Hvað myndi gerast? Jú, Svíþjóð myndi kvarta og biðja NATO um hjálp. Í slíku tilviki á 5. grein Atlantshafssáttmálans (árás á einn er árás á alla) ekki við, Svíar eru ekki í NATO. Og hvað þá?”
Svíar óttast Rússa
Svíum stendur stuggur af ógn Rússa. Fyrir tíu dögum samþykkti mikill meirihluti á sænska þinginu, Riksdagen, að Svíar gætu boðið hersveitum NATO til landsins. Það gildi bæði um æfingar og ef óvissuástand skapist. Sænsku borgaraflokkarnir styðja NATO aðild en ríkisstjórnin er því mótfallin og sömuleiðis meirihluti þingmanna Í nýlegri skoðanakönnun studdi meirihluti Svía aðild landsins að NATO en það hefur ekki gerst áður.
Taugastríð
„NATO þarf að búa þannig um hnútana að þar á bæ hrökkvi menn ekki í kút og hörfi ef rússneski björninn rymur” sagði Uffe Ellemann-Jensen í áðurnefndu viðtali við Berlingske. „Skynji Rússar að NATO sé tvístígandi og ráðalaust líta þeir á það sem sigur.”
Lukasz Kulesa hernaðarsérfræðingur og yfirmaður rannsókna hjá rannsóknastofnuninni European Leadership Network telur að Rússar láti sitja við hótanirnar einar. Helsta hættan stafi af fjölmennum heræfingum, ef þær fari úr böndunum geti allt gerst. Þá gæti komið til átaka á Eystrasaltssvæðinu, átaka sem enginn kærir sig um en allir óttast.