Það vinna nú fleiri fyrir netmiðla í Bandaríkjunum en fyrir prentmiðla. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum bandaríska vinnumálaráðuneytisins sem birtar voru í byrjun júní. Þar segir að í júní 1990 hafi um 458 þúsund manns starfað við prentmiðla í Bandaríkjunum. Í mars 2016 var sú tala komin niður í 183 þúsund, og þar með dregist saman um næstum 60 prósent. Á sama tíma hefur starfsmönnum netmiðla fjölgað úr 30 þúsund í nálægt 198 þúsund. Þeir hafa því næstum sjöfaldast á 26 árum.
Raunar eru nokkrir mánuðir síðan að netmiðlarnir tóku fram úr prentmiðlunum í starfsmannafjölda. Það gerðist fyrst í október 2015. Í frétt Niemanlab um þessa þróun segir að það sé óhætt að draga þá ályktun að störfum hjá prentmiðlum í Bandaríkjunum haldi áfram að fækka. Flest lítil og meðalstór dagblöð þar í landi eiga í miklum vandræðum með að finna sér nýja tekjustrauma samhliða því að auglýsingatekjur þeirra dragast hratt saman og upplagið sem prentað er minnkar hratt eftir því sem áskrifendum fækkar. Þessi þróun er einnig að hafa áhrif á stórblöð eins og The New York Times, sem hefur sett aukin kraft í að reyna að ná fólki í stafræna áskrift að útgáfu sinni. Þótt að netáskrifendurnir séu nú yfir einni milljón þá er blaðið enn nokkuð frá því að ná þeim tekjumarkmiðum sem það hefur sett sér. Vanity Fair greindi nýverið frá því að The New York Times ætli að segja upp að minnsta 200 manns sem vinna á ritstjórn útgáfunnar í byrjun næsta árs til að aðlaga sig að nýjum veruleika.
Störfum á netmiðlum fjölgar hins vegar skarpt, sérstaklega á allra síðustu árum. Þeim hefur t.d. fjölgað um helming í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Vert er að taka fram að hér er einungis verið að tala um störf sem skapast hafa hjá miðlum sem gefa einungis út stafrænt. Störf þeirra sem vinna á netsíðum prentmiðla eða sjónvarpsstöðva eru ekki talin með.
Lesendum prentmiðla á Íslandi fækkar hratt
Á Íslandi hefur lestur prentmiðla dregist skarpt saman og tekjur þeirra líka. En sú þróun hefur gengið hægar en víðast hvar annars staðar. Lestur stærsta dagblaðs landsins, Fréttablaðsins, hefur til að mynda hrunið á örfáum árum. Í apríl 2010 lásu 64 prósent landsmanna blaðið. Í maí 2016 var það hlutfall komið niður í 48,3 prósent. Einn af hverjum fjórum lesendum blaðsins hefur því yfirgefið það á síðustu sex árum.
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins, hefur aldrei í rúmlega 100 ára sögu sinni, mælst með lægri lestur en í síðasta mánuði. Alls lesa nú 27,5 prósent landsmanna blaðið. Árið 2009, þegar nýir eigendur tóku við blaðinu og núverandi ritstjórnar þess voru ráðnir, lásu 43 prósent landsmanna blaðið. Um 35 prósent lesenda hafa því yfirgefið Morgunblaðið síðan þá.
Fyrirtækin sem reka dagblöðin tvö, 365 miðlar og Árvakur, hafa enda verið háð því að eigendur þeirra setji reglulega inn fjármagn í reksturinn á undanförnum árum til að hann beri sig.
Þriðja stóra fjölmiðlafyrirtækið sem gefur út prentmiðil – Pressan sem gefur út DV – fjórfaldaði skuldir sínar á árinu 2014.
Lélegar hagtölur og lítil aðgreining
Þann fyrirvara verður reyndar að setja á allar mælingar á tekjum íslenskra fjölmiðla að þær eru illa aðgreindar í ársreikningum stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins. Nær ómögulegt er að sjá hversu mikið af tekjum þeirra koma frá prentmiðlaútgáfu, hversu mikið frá sjónvarpsrekstri og hversu mikið frá rekstri netmiðla. Auk þess eru hagtölur um fjölmiðlarekstur á Íslandi afar slakar. Það eru til að mynda ekki til almennilegar tölur um þróun starfa á prentmiðlum annars vegar og netmiðlum hins vegar.
Fjölmiðlanefnd vann þó samantekt á stöðunni líkt og hún var á árinu 2014 og birti niðurstöðu hennar í fyrrahaust. Samkvæmt þeim tölum, sem byggðu á upplýsingum frá stærstu birtingarhúsum landsins, fer 37,4 prósent birtingarfjár á Íslandi til prentmiðla, 29,7 prósent fer til sjónvarpsstöða og 15,4 prósent til útvarpsstöðva. Tæplega 15 prósent fer til birtingar á auglýsingum á vef. Þar af fer 12,3 prósent til innlendra vefja og 2,6 prósent til erlendra, sérstaklega Facebook og Google. Um 50-60 prósent af allir veltu á auglýsingamarkaði fer í gegnum birtingarhús.
Þessi þróun er mjög í andstöðu við það sem er að gerast víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Samkvæmt spá eMarketer frá því í fyrra var gert ráð fyrir að birtingafé myndi dreifast þannig í Bretlandi að meira fé yrði varið í auglýsingar í snjallsímum og spjaldtölvum en í blaðaauglýsingar á árinu 2015. Alls gerði spáin ráð fyrir að 20 prósent auglýsingafjár myndi fara í slíkar birtingar. Samkvæmt henni átti 49,6 prósent birtingarfjár í Bretlandi fara til stafrænna miðla á árinu 2015 og gert var ráð fyrir að það hlutfall myndi vaxa upp í 57,5 prósent árið 2019. Á sama tíma gerði spáin ráð fyrir að prentmiðlar myndu fá 16,4 prósent af heildarkökunni árið 2015 og að það hlutfall lækki niður í í 12,5 prósent árið 2019.
Í Bandaríkjunum gerði eMarketer ráð fyrir að um 38 prósent af birtingarfé á árinu 2015 hafi farið í sjónvarp, 31 prósent í stafræna miðla, tæp 16 prósent í prentmiðla og átta prósent í útvarp.