Í dag kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, nýja hugverkastefnu fyrir Ísland. Hún hefur það að leiðarljósi að Ísland verði hugverkadrifið, eins og það er nefnt í stefnunni, árið 2022. Stefnan tekur til áranna 2016 til 2022, eða næstu sex ára.
Við fyrstu sýn virðist skýrslan, sem tekin var saman í tilefni af þessari vinnu, vera vönduð og mikilvægt innlegg í háleitt markmið hugverkastefnunnar.
Hópurinn að baki hugverkastefnunni ásamt ráðherra: Gunnar Örn Harðarson, Þorlákur Jónsson, Borghildur Erlingsdóttir, Brynhildur Pálmarsdóttir og Ragnheiður Elín.
Hugverkastefnan fjallar um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, þ.e. þau hugverkaréttindi sem falla undir verkefnasvið ráðuneytisins en þau eru vörumerki, einkaleyfi, hönnunarskráningar og önnur skyld réttindi.
Það er full þörf á því að vinna að eflingu hugverkiðnaðar. Til framtíðar litið getur Ísland ekki reitt sig á auðlindadrifið hagkerfi eingöngu, heldur felast tækifærin í einhverju öðru. Þar eru hugverkin og sköpunin að baki þeim lykilatriði.
Í skýrslunni sem kynnt var í dag, er vitnað til bandarískrar rannsóknar á hagrænum áhrifum hugverkaiðnaðnar í Bandaríkjunum. Í niðurstöðunum kemur fram að 34,8 prósent af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna árið 2010 hafi mátt rekja til hugverkaréttindatengdrar starfsemi og að slík fyrirtæki hafi skapað 27,1 milljón starfa í bandaríska hagkerfinu. Þá hefur USPTO, bandaríska einkaleyfa- og vörumerkjastofnunin, nýlega sent frá sér athugun sem snýr sérstaklega að frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum. Könnunin náði til 45.817 einkaleyfaumsókna sem áttu það sameiginlegt að vera fyrstu umsóknir viðkomandi aðila. Fram kom að samhliða veitingu einkaleyfis hafi starfsmönnum sprotafyrirtækja fjölgað að meðaltali um 36 prósent á fimm ára tímabili eftir að viðkomandi réttindi voru veitt. Aukning í sölu vöru og þjónustu á sama fimm ára tímabili var 51 prósent. Þessar tölur gefa til kynna að samþykkt og birt einkaleyfi hafi veruleg áhrif á vöxt sprotafyrirtækja, bæði hvað varðar starfmannafjölda, sölu, áframhaldandi nýsköpun og árangur þeirra til lengri tíma litið.
Þessar upplýsingar sýna vel, hversu mikilvægt það er að styrkja hugverkaiðnaðinn eins og kostur er.
Það er gott að nú sé búið að marka stefnuna, og taka saman upplýsingar til að vinna með áfram. Það er grundvöllur þess að hægt sé að fara af stað, og tengja saman ólíka þætti innan íslensks samfélags. Samspil menntakerfisins og atvinnulífsins – ekki síst auðlindadrifna hluta hagkerfisins – skapar grunninn að sterkum hugverkaiðnaði, eins og glögglega kemur í skýrslunni.
Einkageirinn er drifkraftur, þar sem hlutirnir gerast, en með góðri og skynsamlegri samvinnu við stjórnvöld á hverjum tíma, menntastofnir, sjóði og fjármálakerfið, þá má ná enn lengra en stefnt var að í upphafi.
Vonandi næst það markmið að Ísland verði hugverkadrifið árið 2022, en það er ekki sjálfsagt að svo verði. Tækifærin eru fyrir hendi og það er um að gera, ekki síst fyrir einkagerann og hagsmunasamtök innan hans, að taka þessu vopni sem hugverkastefnan er, traustu taki og vinna að framgangi þessa mikilvæga málaflokks.