Maður er nefndur Cristiano Ronaldo. Þessi 31 árs Portúgali hefur ásamt Argentínumanninum Lionel Messi verið allra besti fótboltamaður heimsins í næstum heilan áratug. Sjaldan hafa tveir leikmenn haft jafn mikla yfirburði yfir aðra leikmenn, þegar horft er til marka sérstaklega og alþjóðlegra viðurkenninga.
Ronaldo hefur í þrígang verður knattspyrnumaður ársins hjá FIFA, 2008, 2013 og 2014.
En eins ótrúlega og það hljómar - miðað við marksækni hans - þá eru það ekki mörkin sem eru aðalatriðið hjá Ronaldo.
Hann er óútreiknanlegt vopn á vellinum. Sem sýnir sig best á því hve illa andstæðingum hans gengur að stöðva hann í hverri viku.
Hann skorar eiginlega alltaf. Hægri, vinstri, skalli. Beint úr aukaspyrnu. Víti. Langskot. Hann er með öll þessi vopn í búrinu, ofan á gríðarlegan hraða, líkamlegan styrk og tækni.
Stundum er eins og hann sé vélmenni, þegar hann þeysist upp völlinn og kemur sér í færin þar sem boltinn kemur síðan.
Markið sem hann skoraði á Laugardalsvelli, 12. október 2010, var dæmigert fyrir hann. Frábær óútreiknanleg aukaspyrna sem Gunnleifur Gunnleifsson réð ekki við.
Tölurnar segja sitt: Hjá Real Madrid hefur hann skorað 260 deildarmörk, í 238 leikjum. Það er meira en mark að meðaltali í hverjum einasta leik. Þá hefur hann skorað 37 þrennur á ferlinum hjá Real Madrid, sem verður að teljast með ólíkindum, en hann kom til félagsins frá Manchester United árið 2009. Hann er eini leikmaðurinn í sögu spænsku deildarkeppninnar sem hefur skorað meira en 30 deildarmörk á tímabili, sex tímabil í röð.
Hann er þegar orðinn markahæsti leikmaður félagsins í sögunni, og stendur öllum öðrum framar, hvert sem litið er. Þá er hann líka markahæsti leikmaður Portúgals frá upphafi, með 58 mörk í 126 leikjum.
En enginn er óstöðvandi, eins og Íslendingar hafa sýnt. Þeim tókst að halda hinum eldsnögga Arjen Robben í skefjum, og það sama má segja um marga sterka leikmenn Tyrklands og Tékklands, í undankeppninni.
Það er ekki gott að segja hvernig best er að stöðva Ronaldo, en eitt er alveg öruggt: mikla samstöðu þarf að sýna í varnarleiknum, ef ekki á illa að fara, og einbeitingin verður að vera hjá leikmönnum allan leikinn. Hverja einustu sekúndu. Ef það tekst, þá er allt hægt. Íslenska liðið er sterkt þegar allir verjast og sækja sem lið. Enginn einn leikmaður getur skákað góðri liðsheild.