Kosningabarátta forsetaframbjóðendanna var rædd og greind á opnum fundi í Háskóla Íslands í dag. Þá var einnig velt vöngum yfir því við hverju megi búast í þróun embættisins þegar Ísland fær nýjan forseta í haust. Sérfræðingar við HÍ rýndu í skoðanakannanir um gengi frambjóðenda, fjölmiðlaumfjöllun og hugmyndir fræðimanna um hlutverk og völd forsetans.
Fundurinn, sem haldinn var í hádeginu, var fámennur og þegar fundarstjórinn Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, bauð gesti velkomna sagði hann í léttum tón að það væri „gott að einhver, í miðju EM-æðinu, láti sig framtíð lýðveldis okkar varða.“
Núverandi stjórnarskrá getur valdið óþolandi upplausn og ágreiningi
Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, sagðist ætla að gera tilraun til þess að svara þeirri spurningu hvernig embætti forsetans verði í framtíðinni. Margt sé mjög óljóst varðandi embættið og oft háð persónulegri túlkun þeirra sem verma stólinn að hverju sinni.
Guðmundur sagði það gefið í skyn í stjórnarskránni að forsetinn hafi alls konar völd sem hann í raun og veru hafi ekki, eins og til dæmis að leggja fram frumvörp. Það sé þó sett í hálfgert uppnám í 13. greininni, þar sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta sé arfleifð frá þeim tíma sem konungar voru álitnir hálfgerðar guðlegar verur.
Guðmundur ræddi líka um 26. greinina, málsskotsréttinn, sem hann gantaðist með að Íslendingar kunni nú á dögum flestir utan að, svo mikið hafi verið rætt um hana. Hann benti á að þáverandi stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson hafi sagt að 26. greinin væri í raun dauður lagabókstafur. Hann beitti þó greininni sjálfur 2004 þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum.
Guðmundur segir nauðsynlegt að kveða skýrar á um í hverju vald forsetans felist í raun og veru.
„Það er mjög brýnt að skýra forsetaembættið betur. Stjórnarskráin er oft þversagnakennd og opin fyrir alls konar túlkunum,“ segir Guðmundur. „Það getur valdið óþolandi upplausn og ágreiningi. Svo er óheppilegt ef forseti ferðast um lönd og boðar aðra utanríkisstefnu en Alþingi. Það getur valdið ruglingi, sem er ekki æskilegt á alþjóðavetvangi.“
Hann lauk máli sínu með því að hvetja fólk til þess að kjósa.
„Kosningabaráttan hefur svolítið fallið í skuggann af annarri keppni, sem virðist skipta fólk meira máli. En þetta er ekki síður mikilvægur kappleikur.“
Uppgjör við stórkallalega embættistíð
Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, setti forsetaembættið í kynjafræðilegt samhengi, hver ímynd eða ásjóna embættisins væri og hvort þetta hefði eitthvað ákveðið kyngervi. Hún sagði embættið hafa afhelgast í einhverjum skilningi með tilkomu Ólafs Ragnars og benti á að aldrei hafi verið gert grín að Vigdísi Finnbogadóttur í Áramótaskaupi, nema árið 1994, þar sem henni bregður fyrir að taka á móti útlendingum. Og það þótti óviðeigandi.
Þorgerður ræddi um grein Baldurs Hermannssonar, árið 1995 í DV, sem bar heitið Nýtt blóð á Bessastaði, og fjallaði um „þrásetu Vigdísar“ eftir 16 ár og nauðsyn fyrir nýtt blóð. Hún sagði Baldur hafa skrifað að réttur maður á Bessastaði geti hjálpað okkur að skilgreina hvað það þýði að vera Íslendingur.
„Honum varð að ósk sinni þegar Ólafur varð forseti og embættið fékk á sig karllæga ímynd eða kyngervi og endar sem stórkallalegt valdaembætti,“ sagði Þorgerður. „Og öryggisventillinn verður hans tæki. Hann færir sig upp á skaftið og fjarlægist hinn kvenlæga arf Vigdísar og Kristjáns Eldjárn.“ Hún benti á viðbrögð Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, eftir Útey. Það hafi verið kvenlægt þó að hann sjálfur væri karl.
Þorgerður gaf í skyn að Ólafur hefði synjað fjölmiðlalögunum árið 2004 í kjölfar heimastjórnarafmælisins, þar sem forsetaembættið kom ekkert að undirbúningnum, og hann hafi móðgast.
„Hann var erlendis á þeim tíma og sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem honum var stórlega misboðið,“ sagði hún. „Það er freistandi að velta fyrir sér hvort þetta hafi haft einhver áhrif. Hann reynir á þolmörk valdsins og í hruninu er hann gagnrýndur fyrir að hafa verið klappstýra og ímynd hans stórlega löskuð.“
Þorgerður sagði Ólaf hafa einstaka hæfileika til að endurskapa sjálfan sig með Icesave, þar sem hann spilaði á þjóðernishyggjuna. Hún ræddi einnig um Pútín Rússlandsforseta, en tók fram að hún væri ekki að bera þá tvo saman. En benti á að vinsældir Pútíns byggi ekki síst á því að hann endurreisti þjóðarstolt Rússa. Hún lauk máli sínu með því að segja að nú siglum við inn í nýja tíma sem verður að einhverju leyti uppgjör við stórkallalega embættistíð.
Meiri neikvæðni hjá Davíð og Ástþóri
Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjúnkt í blaða- og fréttamennsku, ræddi um fjölmiðlaumfjöllun í kosningabaráttunni og um embættið, sem hún sagði að væri svo sannarlega ekki létt verk nú á tímum.
„Það er óhætt að segja að umfjöllun hafi verið mjög mikil. Bæði í hefðbundnum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum,“ sagði Valgerður. Áhorf á umræðuþætti í sjónvarpi hefur verið mjög mikið og frambjóðendur hafa þúsundir fylgjenda á samfélagsmiðlum.
„Það má fullyrða það að ef fólk hefur áhuga á að kynna sér frambjóðendurna, þá eru þær upplýsingar mjög aðgengilegar víða. Því hefur verið haldið fram að þessi barátta hafi fyrst og fremst verið háð á samfélagsmiðlum og að þeir hafi gjörbreytt eðli kosningabaráttunnar. Ég veit ekki alveg hvað er átt við með því og held að það eigi að setja fyrirvara við það,“ sagði hún.
Ekki sé nóg fyrir frambjóðendur að stóla einungis á samfélagsmiðla, enda sé kosningabaráttan í flestum skilningi frekar gamaldags.
„Farið út á meðal fólks, allir ferðast um landið og fara á vinnustaði og leggja hendur á börn, eins og sagt var um páfann,“ sagði hún í léttum tón. Hún undirstrikaði að samfélagsmiðlarnir væru viðbót og leiddi lausleg rannsókn hennar í ljós að Guðni Th. Jóhannesson sé með langflesta fylgjendur, efni frá honum er skoðað mest og dreift mest og fær flestar athugasemdir. Hjá flestum frambjóðendum séu athugasemdir frá almenningi mjög almenns eðlis, nokkur dæmi um spurningar og svör, en minna af neikvæðum athugasemdum.
„Þetta er oftast „Áfram Halla“ eða „Flottur Guðni“,“ tók hún sem dæmi. Það sé aftur meiri neikvæðni hjá Davíð Oddssyni og Ástþóri Magnússyni.
Ofmetin áhrif skoðanakannanna
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, spurði hvort úrslitin gætu breyst á laugardag, með einn frambjóðanda með svo afgerandi forystu.
„Svarið er já, en líkurnar á tapi eru ákaflega litlar. Ég kann engin dæmi þess.“ sagði hann. „Kjörsókn getur haft áhrif. Ef hún verður lítil, að sumir frambjóðendur með harðari stuðningsmannahóp, getur það breytt hlutföllum. En það er mjög ólíklegt að einhver fari upp fyrir Guðna.“
Varðandi eðli embættisins sagði Ólafur að hefðin sé þannig að þingrofsréttur sé hjá forsætisráðherra.
„Það kom í ljós að Ólafur Ragnar var ekki þeirrar skoðunar og að hann hafi virk völd í því. Hann var greinilega þeirrar skoðunar að forseti tæki sjálfstæða ákvörðun um það, hvort hann féllist á þingrof eða ekki. Ólafi mislíkaði forsætisráðherra þegar hann kom, þegar átti að leggja fram formlegt plagg, að Sigmundur Davíð hafi talað eins og hann gæti rofið þing,“ sagði Ólafur.
Hann sagði einnig að kosningabaráttan hafi ekki verið dauf, heldur hefðbundin. Hún hafi augljóslega haft einhver áhrif, þar sem Halla Tómasdóttir, sem var með tveggja prósenta fylgi í byrjun, er nú komin upp í 15 til 20 prósent.
„Það er fróðlegt að bera hana saman við hina sem hafa ekkert breyst. Þeir hafa slíkar hugmyndir um eigið ágæti að það sé náttúrulegt ástand að þeir fái 20 til 30 prósent. Og það séu svo náttúruleg öfl sem koma í veg fyrir það, eins og skoðanakannanir eða fjölmiðlar. Það kemur ekki til greina að þeir séu bara ekki nógu interesant.“
Hann undirstrikar að fáar rannsóknir sýni fram á að skoðanakannanir hafi skoðanamyndandi áhrif. Þá séu samfélagsmiðlarnir afar merkilegir í þessari baráttu fyrir margra hluta sakir, en þó sérstaklega vegna eins.
„Það er gömul saga og ný að frambjóðendur og stjórnmálamenn fari með ósannindi. Það var ekki auðvelt að leiðrétta gamlar syndir þegar fólk sagði bara eitthvað í sjónvarpi eða skrifaði í blöð, en nú þegar frambjóðandi segir eitthvað, þá eru þúsund manns strax farnir að gúgla og hrekja söguna.“
Hann tók þar dæmi um Davíð sem sagði að Guðni hefði sýnt hetjum okkar út Þorskaastríðinu vanvirðingu í fyrirlestri. Nokkrum tímum síðar hafi komið upp úr krafsinu á netinu að Davíð hafði sjálfur skrifað grein sjálfur það sem hann var að gera grín að varðskipunum. „Þetta er aukið aðhald fyrir frambjóðendur.“
Síðasti fyrirlesturinn í röðinni
Um var að ræða síðasta umræðufund fundarraðarinnar „Forseti Íslands: Hverskonar embætti er þetta?“. Fræðimenn hafa greint embættið út frá stjórnmálum, lögfræði og sagnfræði. Í lýsingu fundarraðarinnar á vef HÍ kemur fram að löngum hafi verið deilt um hvernig túlka beri ákvæði stjórnarskrárinnar um embætti forseta Íslands og skiptar skoðanir hafa verið um hvernig forsetinn beitir valdheimildum embættisins.
„Umræðan um hlutverk og völd forseta Íslands hefur verið vaxandi á undanförnum árum og ýmist er talað um pólitískan forseta eða forseta sem sameiningartákn þjóðarinnar. Má búast við að umræðan um hlutverk og valdsvið embættisins verði enn fyrirferðarmeiri nú í aðdraganda forsetakosninganna og að skiptar skoðanir verði, bæði meðal frambjóðenda sem og þjóðarinnar, um hvernig embætti forseta Íslands eigi að þróast á næstu árum,“ segir á vef HÍ.
Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild, og Stefanína Óskardóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ, höfðu rætt á öðrum fundi um stjórnskipunarlega stöðu forseta Íslands við lýðveldisstofnun og hvernig hún hefur þróast undanfarin misseri. Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi og dósent við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ, ræddi um forsetaembættið sem sameiningartákn ásamt Huldu Þórisdóttur, lektor við Stjórnmálafræðideild og Hafstein Þór Hauksson, dósent við Lagadeild. Þá hafa Ragnheiður Kristjánsdótttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Birgir Hermannsson, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild HÍ, rætt um væntingar til forsetaembættisins, meðal annars út frá lýðræðishugmyndum og í alþjóðlegum samanburði.