Búið er að leggja drög að „horfinna manna skrá“ í LÖKE-kerfinu, en hún hefur ekki verið til staðar. Þannig er skráin sýnileg lögreglumönnum um land allt svo unnt sé að vinna með hana. Skráin verður samkeyrð nýju forriti sem lögreglan notar við að bera kennsl á lík og líkamshluta, PlassData, svo halda megi þar utan um upplýsingar um lífssýni, tannfræðilegar upplýsingar og fleira. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2015.
Oftar vopnuð en ekki
Sérsveitin var vopnuð í meiri en helmingi verkefna sinna á síðasta ári. Sérsveitin fór í 198 sérveitarverkefni árið 2015 og var vopnuð í 104 tilfellum. Fram kemur í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2015 að langflest verkefnin séu tengd einhvers konar aðstoð. Næstfjölmennasti flokkurinn er kennsla. 22 sprengjutilvik komu upp árið 2015 og 75 vopnatilvik. Flest verkefni sérsveitarinnar sneru að almennum handtökum, heimilisofbeldi og hefðbundnu eftirliti.
Mikill kynjahalli
Af 79 lögreglumönnum ríkislögreglustjóra eru einungis fjórar konur. Það gerir um fimm prósent starfsmanna. Af 22 yfirlögregluþjónum sem starfa hjá lögreglunni er engin kona. Af 124 varðstjórum eru sjö konur, sem gerir um fimm prósent. Hlutfall kvenna er hæst meðal almennra lögreglumanna, en það eru þær um 20 prósent, eða 54 konur af 205 lögreglumönnum.
Tvö alvarleg bílslys
Lögreglan lenti tvisvar sinnum í alvarlegum bílslysum á síðasta ári. Það fyrra varð þegar breytt jeppabifreið hjá lögreglunni á Austurlandi valt við Dreka í Holuhrauni með þeim afleiðingum að bifreiðin var dæmd óviðgerðarhæf. Bifreiðin var í umsjá lögreglunnar á Norðurlandi eystra er óhappið varð. Seinna slysið varð þegar lögreglubifreið sérsveitar lenti í umferðaróhappi í neyðarakstri.
Fleiri minniháttar tjón urðu á einhverjum af þeim 140 bifreiðum sem lögreglan hefur yfir að ráða árið 2015, en þau eru ekki alvarleg. Alls voru skráð 58 tjón á árinu, og kostuðu þau rúmar 11 milljónir króna, en til samanburðar voru þau 74 árið 2012 og kostuðu um 17,5 milljónir. Tíu nýjar bifreiðar voru pantaðar á árinu og fóru þær til notkunar í sjö embættum.