Sjálfstæðisflokkurinn fékk langmesta styrki fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 samkvæmt ársreikningum flokksins á vefsvæði Ríkisendurskoðunar. Flokkurinn fékk tæpar 20 milljónir frá sveitarfélögum og tæpar 30 milljónir frá lögaðilum. Píratar fengu langminnst allra flokka, 970 þúsund frá sveitarfélögum og 300 þúsund frá lögaðilum.
Vill ekki greina frá endurgreiðslu
Ekki fæst uppgefið hversu háa upphæð Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurgreitt af styrkjum sem flokkurinn fékk árið 2006 frá FL Group og Landsbankanum. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir í skriflegu svari til Kjarnans að ekki verði gefið upp hversu háa upphæð flokkurinn hafi endurgreitt. Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006 og námu samtals 56 milljónum króna. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Á landsfundi flokksins árið 2013 sagði Jónmundur Guðmarsson, þáverandi framkvæmdastjóri, að flokkurinn hefði þegar endurgreitt um 18 milljónir króna. Samkvæmt því stóðu þá 38 milljónir króna eftir árið 2013.
Samfylkingin ætlar ekki að endurgreiða tugi milljóna
Þórður bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið einn flokka að endurgreiða styrkina. „Sama átti ekki við um annan stjórnmálaflokk sem ákvað að þiggja háa styrki það sama ár en ákvað að endurgreiða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurgreitt árlega af rekstrarfé sínu og hafa áætlanir gengið út á að ljúka endurgreiðslum fyrir árið 2018,“ segir hann. Þórður á þar við Samfylkinguna, en fram kom árið 2009 að meðal þeirra sem styrktu flokkinn árið 2006 voru Kaupþing, FL-Group, Glitnir, Landsbankinn og Baugur upp á rúmar 36 milljónir króna. Þau sögðust hins vegar aldrei ætla að greiða styrkina til baka.
Sjálfstæðisflokkurinn á toppnum og Píratar á botninum
Eins og kom fram í umfjöllun Kjarnans í gær um fjármál stjórmálaflokka og áætlanir um fjárútlát í komandi kosningabaráttu vildu framkvæmdastjórar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar ekki gefa upp núverandi fjárhagsstöðu. Þeir vísuðu í birtingu ársreikninga á vefsíðu Ríkisendurskoðunar og þar eru nýjustu ársreikningar fyrir árið 2014 og þar eru styrkir til stjórnmálaflokka útlistaðir. Hvorki Samfylking né Framsóknarflokkur svöruðu fyrirspurninni.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 19,7 milljónir í styrki frá sveitarfélögum og 28,9 milljónir frá fyrirtækjum og lögaðilum. Eitt framlag frá einstaklingum umfram 200 þúsund var lagt fram upp á 300 þúsund krónur, frá Jóni Zimsen. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum 2014 eru þeir einu sem hafa sent Ríkisendurskoðun sundurliðað uppgjör um styrki og framlög.
Framsóknarflokkurinn þáði 5,8 milljónir í styrki frá sveitarfélögum og 18 milljónir frá fyrirtækjum og lögaðilum. Stjórnmálamenn innan Framsóknarflokksins styrktu flokkinn um 1,5 milljón með framlögum yfir 200 þúsund.
Samfylkingin fékk 4,7 milljónir í styrki frá sveitarfélögum og 8,4 milljónir frá fyrirtækjum og lögaðilum. Framlög einstaklinga umfram 200 þúsund voru 2,8 milljónir, öll frá stjórnmálamönnum í Samfylkingunni.
Vinstri græn fengu 3,6 milljónir frá sveitarfélögum og 1,3 frá fyrirtækjum og lögaðilum. Framlög einstaklinga umfram 200 þúsund voru 4,2 milljónir, öll frá stjórnmálamönnum í Vinstri grænum.
Píratar fengu 970 þúsund frá sveitarfélögum og 300 þúsund frá fyrirtækjum og lögaðilum. Engin framlög frá einstaklingum voru yfir 200 þúsund.
Björt framtíð fékk 3,6 milljónir frá sveitarfélögum og 780 þúsund frá fyrirtækjum og lögaðilum.