Philip Green, einn ríkasti maður Bretlands, hefur verið mikið í sviðsljósinu þar í landi vegna greiðslustöðvunar BHS, eða British Home Store, verslunarkeðju sem stofnuð var fyrir 88 árum síðan. Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hvernig hann hélt á þeim málum, grunsemdir eru uppi um að hann hafi meðvitað reynt að komast hjá því að greiða áfallnar lífeyrisskuldbindingar starfsmanna BHS og framkoma Green fyrir þingnefnd þótti dónaleg og yfirlætisleg.
Þessi sami Philip Green hefði getað orðið fyrirferðamikill maður í íslensku þjóðlífi. Hann reyndi fyrir tæpum átta árum að kaupa allar skuldir Baugs Group og tengdra aðila, stærsta smásöluveldis Íslands á þeim tíma, á brotabrot af virði þeirra. Sú áætlun hans tókst ekki.
Skulda 571 milljón pund í lífeyrisgreiðslur
BHS fór í greiðslustöðvun í apríl og í júní var tekin sú ákvörðun að vinda ofan af rekstri þess með því að loka verslunum, í ljósi þess að fyrirhugaðar björgunaraðgerðir tókust ekki. Niðurstaðan var mikið áfall fyrir ellefu þúsund starfsmenn keðjunnar, en hún rak alls 164 verslanir víðs vegar um Bretland.
Skuldir BHS námu 1,3 milljörðum punda þegar fyrirtækið fór í greiðslustöðvun. Tæpur helmingur þeirrar upphæðar, 571 milljón pund, var vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna BHS. Nær útilokað er talið að sala eigna muni ná að standa undir nema brotabroti af endurgreiðslu skulda og lífeyrisskuldbindinga. Við blasa því miklar afskriftir kröfuhafa og skertar lífeyrisgreiðslur til núverandi og fyrrverandi starfsmanna BHS.
Það sem vakti einna mesta athygli varðandi greiðslustöðvun BHS var að rúmu ári áður en hún skall á hafði fyrirtækið verið selt til fyrrum kappakstursökumannsins Dominic Chappell á eitt pund. Goldman Sachs fjárfestingabankinn var milliliður í kaupunum fyrir hönd seljandans, Philip Green. Hann hafði keypt BHS árið 2000 og afskráð það af markaði. Ein ástæða þess að salan vakti mikla athygi var sú að Dominic Chappell þótti ekki merkilegur pappír í fjárfestingarheiminum og þar af leiðandi ekki líklegur til að snúa við slöku gengi BHS. Hann hafði orðið gjaldþrota þrisvar og hafði aldrei komið að neins konar rekstri sem hafði gengið vel. Því voru grunsemdir uppi um að eitthvað annað hafi ráðið því að BHS hafi verið selt á þessum tíma, í mars 2015.
Á síðustu vikum hefur sá grunur fyrst og síðast snúist um að Green hafi verið að reyna að koma sér undan því að greiða lífeyrisskuldbindingar um 20 þúsund núverandi og fyrrverandi starfsmanna BHS. Þessar grundsemdir fengu vængi þegar punktar af fundi Green með Chris Martin, formanni stjórnar sjóðsins sem hélt utan um lífeyrisskuldbindingar starfsmanna BHS, snemma árs 2015. Í punktunum kemur fram að helsta ástæða þess að Green vildi losna væri sú að áætlun um að laga stöðu lífeyrismála starfsmanna fyrirtækisins væri of dýr. Green hafði þá eytt mörgum mánuðum í að reyna að semja um hvernig hann gæti mögulega mætt þeim halla sem skapast hafði vegna vanfjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga.
Býr í Mónakó
Green var kallaður fyrir þingnefnd breska þingsins vegna málsins þar sem þingmenn spurðu hann erfiðra spurninga. Samkvæmt frásögn breskra fjölmiðla af nefndarfundinum sýndi Green ítrekað af sér hroka og yfirlæti í tilsvörum sínum. Hann greip ítrekað frammí fyrir þingnefndarmönnum og sýndi óánægju sína með spurningar þeirra á köflum mjög skýrt.
Á meðal þess sem Green hefur verið gagnrýndur fyrir, utan þess að hafa selt manni sem virðist ekki hafa haft neina burði né bolmagn til að reka risastóra verslunarkeðju, er að hann tók um 400 milljónir punda í arð út úr BHS á þeim tíma sem hann átti fyrirtækið. Green hefur á móti sagt að hann hafi sett enn hærri upphæð inn í fyrirtækið í formi nýs hlutafjár og lána frá Arcadia Group, smásölurisa sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Dorothy Perkins, Miss Selfridge, Evans, Burton, Wallis og Topman. Arcadia Group er í eigu félags sem skráð er á skattaskjólseyjunni Jersey. Eigandi þess er skráð Tina Green, eiginkona Philip Green. Hjónin búa þó ekki á Jersey, heldur í Mónakó, þar sem þau þurfa ekki að greiða neina skatta.
Sögðu Baugsmálið hafa hindrað yfirtöku
Það var í gegnum yfirtökuna á Arcadia Group sem Philip Green skaut fyrst upp kollinum í íslenskri umræðu. Árið 2002, þegar Green keypti Arcadia Group á 850 milljón pund, þá átti Baugur Group, fjárfestingafélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, 20 prósent hlut í fyrirtækinu og hafði ætlað sér að ná fullum yfirráðum yfir því. Á endanum tókst Baugi Group ekki að fjármagna yfirtökuna og Green keypti þess í stað nær allt hlutafé í Arcadia. Stjórnendur Baugs Group sögðu það þó ekki hafa verið ástæðuna.
Sama dag og þeir lögðu fram tilboð sitt í Arcadia hafi ríkislögreglustjóri gert húsleit í höfuðstöðvum Baugs á Íslandi í aðgerð sem markaði upphaf Baugsmálsins svokallaða. Jón Ásgeir hélt því ítrekað fram að húsleitin hefði spillt kaupunum og tveimur dögum eftir hana lýsti stjórn Arcadia því yfir að hún tæki ekki til íhugunar neinn samning sem gengi út á að selja til Baugs Group. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Jón Ásgeir um Green og Arcadia-viðskiptin: „Green veit hver lét hann fá lykilinn að Arcadia og hann mun meta það. Við komum með hugmyndina inn á borð til hans og allar upplýsingar á sínum tíma."
Mætti eftir hrunið og hótaði að beita forseta Íslands
Helgina eftir setningu neyðarlaganna í október 2008 lenti einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Um borð var áðurnefndur Philip Green. Hann var kominn til landsins í einum tilgangi: Að kaupa skuldir Baugs Group á mjög lágu verði.
Í bókinni Ísland ehf. - auðmenn og áhrif eftir hrun sem kom út 2013, er greint frá því að með þann vilja fyrir augum mætti Green á Kirkjusand í höfuðstöðvar Glitnis, sem þá hafði verið tekinn yfir af skilanefnd. Með honum í för voru Jón Ásgeir og eiginkona hans og viðskiptafélagi, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir. Jón Ásgeir og fjölskylda hans voru á þessum tíma aðaleigendur Baugs.
Green tókst að fá fund með umsjónarmönnum þrotabúsins. Ingibjörg fór með honum inn á fundinn en Jón Ásgeir, sem hafði þar til skömmu áður verið stærsti eigandi Glitnis, bæði beint og óbeint, beið frammi á meðan. Það var ekki talið styrkja stöðu Green að hafa Jón Ásgeir með, enda hafði hann verið útmálaður í opinberri fjölmiðlaumræðu sem einn þeirra sem settu Ísland á hausinn.
Á fundinum lagði Green fram tilboð um að kaupa allar skuldir Baugs og tengdra aðila við bankann á um fimm prósent af virði þeirra. Þegar tilboðið fékk litlar undirtektir lét hann öllum illum látum og hótaði að allir sem væru inni í herberginu yrðu reknir. Hann gæti látið það gerast. Hann hótaði einnig að tala við forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, ef tilboðið yrði ekki skoðað betur. Hvað forsetinn átti að gera kom ekki fram.
Green var á mikilli hraðferð, enda beið einkaþotan eftir honum á vellinum. Hann átt enn eftir að hitta aðra banka í sömu erindagjörðum, auk þess sem hann átti bókaðan fund með Björgvini G. Sigurðssyni, þáverandi viðskiptaráðherra. Þess vegna gilti tilboð hans einungis í nokkrar mínútur.
Fundarhöldin, ferðin og öll lætin voru þó til einskis. Green flaug af landi brott tómhentur og án þess að forsetinn hlutaðist til um málið. Bankarnir voru ekki til viðræðu um að selja skuldirnar frá sér. Sá hluti þeirra sem Green hafði mestan áhuga á voru þær skuldir sem Baugur og tengdir aðilar höfðu stofnað til við að kaupa erlend fyrirtæki, mest megnis verslanakeðjur í Bretlandi. Fyrir utan þær hafði Baugs-samsteypan einnig skuldsett sig mikið vegna innlendra fjárfestinga.
Þess í stað fór Baugur Group í gjaldþrot á árinu 2009. Gert er ráð fyrir að sjö milljarðar króna fáist upp í alls 240 milljarða króna kröfur á það.