1. Árið 1950 komu 4.400 ferðamenn til Íslands. Árið 1960 voru þeir 12.800, árið 1970 voru þeir 60.000 og tíu árum síðar, 1980 var fjöldinn 65.000, en þeim hafði þá fækkað um 14 prósent frá árinu áður. Fjöldi ferðamanna meira en tvöfaldaðist á milli næstu tíu ára, samkvæmt tölum Ferðamálastofu, en árið 1990 komu yfir 140.000 ferðamenn til landsins. Og þannig varð þróunin. Árið 2000 komu yfir 300.000 ferðamenn, árið 2010 voru þeir tæplega 500.000 og fimm árum síðar, 2015, kom ein milljón og 300.000 manns til að ferðast um Ísland.
2. Hver erlendur ferðamaður eyðir að meðaltali 160.000 krónum á dvöl sinni á Íslandi. Á síðasta ári nam eyðsla allra ferðamanna hér um 210 milljörðum króna. Til samanburðar nam eyðslan tæpum 70 milljörðum árið 2010 og hefur hún því þrefaldast á fimm árum. Erlend kortavelta jókst um 72 prósent á milli áranna 2012 og 2015.
3. Alls var 1.831 gististaður með leyfi frá sýslumanni árið 2015 og þar af voru 480 með veitingaleyfi. Flest voru leyfin fyrir gististöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi, eða 465 á hvoru svæði. 303 gististaðir voru á Vesturlandi og Vestfjörðum, 318 á Suðurlandi, 205 á Austurlandi og 75 á Suðurnesjum, samkvæmt tölum Ferðamálastofu.
Fjöldi íbúða og herbergja á vef Airbnb.com á Íslandi tvöfaldaðist á milli áranna 2014 og 2015. Í janúar síðastliðnum voru 3.903 auglýsingar fyrir íslensk gistirými og gera má fastlega ráð fyrir að þau séu komin yfir 4.000 í dag. Fjöldinn jókst um 124 prósent á milli ára, en í janúar 2015 voru rúmlega 1.700 auglýsingar á AirBnB. Fjöldi hótelherbergja hefur ekki aukist jafn hratt og AirBnB, þó að það rísi hér nú hótel nánast mánaðarlega. Í fyrra opnaði til dæmis stærsta hótel landsins, Fosshótel í Þórunnartúni, með 320 herbergi. Hilton Canopy Hotel hefur opnað í gamla Hjartagarðinum með 142 herbergi. Fleiri stórar hótelbyggingar eru áætlaðar. Á reitnum vestan við Hörpu á til dæmis að byggja 250 herbergja Marriot-hótel sem á að opna árið 2019.
4. Velta í virðisaukaskyldri starfsemi hefur aukist um 272 milljarða króna á síðustu tólf mánuðum. Frá byrjun maí til aprílloka 2015 til 2016 var hún tæpir fjórir milljarðar króna. Ferðaþjónusta og breytingar á lögum um virðisaukaskatt eru meginástæður aukningarinnar. Virðisaukaskattskyld velta í rekstri gististaða og veitingarekstri jókst um 23 prósent á milli ára, í flokknum sem farþegaflutningar heyra undir jókst veltan um 17 prósent og í flokknum sem þjónusta ferðaskrifstofa heyrir undir jókst hún um 39 prósent. Fjöldi ferðamanna hefur líka margfaldast. Auknar tekjur ríkisins vegna þessa hlaupa á tugum milljarða.
5. Heildarfjöldi gistinátta hefur meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum. Árið 2010 var fjöldi gistinátta hjá útlendingum 2.144 en 2015 var hann kominn upp í 5.606. Fjöldi gistinátta meðal Íslendinga hefur að sama skapi aukist, en þó ekki eins mikið. Þær voru 855 árið 2010 og í fyrra voru þær 931, sem er fækkun frá árinu 2014 þegar þær voru 1.085. Rúmur helmingur gistinótta árið 2015 voru að sumarlagi, fjórðungur að vori eða hausti og tæpur fjórðungur að vetri til.
6. Þotur á vegum 18 erlendra flugfélaga flugu reglulega til og frá landinu í júní. Þrátt fyrir það stóðu íslensku flugfélögin WOW Air og Icelandair undir nærri átta af hverjum tíu ferðum, er fram kemur á vef Túrista.
7. Síðasta haust voru skráðir bílaleigubílar á landinu í kring um 18.000 og hafði fjöldinn fimmfaldast á síðustu tíu árum. Árið 2005 voru tæplega 3.900 bílaleigubílar skráðir á landinu. Erlendir ferðamenn greiddu 1,1 milljarð í bílaleigur og bensín í apríl 2014.
8. Um 97 prósent erlendra ferðamanna koma hingað til lands í gegn um Leifsstöð. Hin þrjú prósentin koma hingað í gegn um aðra flugvelli eða með skipum, til dæmis Norrænu. Í fyrra fóru tæplega 1,3 milljón erlendra ferðamanna í gegn um Leifsstöð.
9. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu eru langflestir annað hvort Bretar eða Bandaríkjamenn. Fleiri Bretar koma hingað í janúar og Bandaríkjamenn um sumarið. Ferðamálastofa heldur utan um 17 þjóðerni ferðamanna og eru þau flokkuð eftir fjölda. Bandaríkjamenn eru í fyrsta sæti, svo Bretar, Danir eru í þriðja sæti, svo eru það Finnar, Frakkar, Hollendingar, Ítalir, Japanir, Kanadabúar, Kínverjar, Norðmenn, Spánverjar, Svisslendingar og Þjóðverjar. Önnur þjóðerni eru flokkuð undir „Annað“ og er það langstærsti flokkurinn, með um 30 prósenta hlutdeild.
10. 85 prósent Íslendinga ferðuðust innanlands í fyrra og voru júlí og ágúst langstærstu ferðamánuðirnir. Rúmlega 70 prósent fóru til útlanda á árinu. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Ferðamálastofa lét gera í byrjun þessa árs. Þar kom einnig fram að 90 prósent aðspurðra höfðu áform um ferðalög í ár, 2016. Helmingur ætlaði í sumarbústaðaferð innanlands og um 42 prósent í borgarferð erlendis. Tæp 30 prósent ætluðu í sólarlandaferð.