Hart verður barist um oddvitasætin hjá Pírötum í Reykjavíkurkjördæmunum. Að minnsta kosti fjórir gefa kost á sér í prófkjöri til að leiða listana, að frátaldri Birgittu Jónsdóttur, og fyrrverandi þingmanninum Jóni Þóri Ólafssyni. Birgitta ætlar að gefa kost á sér en hefur ekki gefið upp í hvaða sæti þó að líklegt verði að teljast að hún muni leiða listann í öðru hvoru kjördæminu og Jón Þór er að íhuga framboð á ný.
Að minnsta kosti fjórir vilja oddvitasætið
Meðal þeirra sem hafa formlega gefið kost á sér til að leiða listana í Reykjavík eru Ásta Guðrún Helgadóttir, sem tók við sem þingmaður eftir að Jón Þór hætti síðastliðið haust, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Arnaldur Sigurðsson og Olga Margrét Cilia. Þórhildur Sunna gefur einnig kost á sér til að leiða listann í Kraganum. Smári McCarthy mun að öllum líkindum leiða í Suðurkjördæmi.
Úr Hreyfingunni í Pírata
Í síðustu viku gaf Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, út að hann væri genginn til liðs við Pírata. Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hafði sagt upp störfum á fréttastofunni til að snúa sér að starfi flokksins. Hann sækist eftir öðru sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Dramatík á Norðurlandi
Gunnar Hrafn er ekki eini fjölmiðlamaðurinn sem hefur leitað til Pírata, því ritstjórinn fyrrverandi, Björn Þorláksson, gaf kost á sér til að leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi.
Hann hafnaði þó í sjöunda sæti í prófkjöri og sagði sig frá starfinu í kjölfarið. Hann sakaði flokkinn á Norðurlandi um klíkuskap og að leynd hefði hvílt yfir prófkjörinu. Þá greindi Björn frá því að hann hafði verið kærður fyrir brot á siðareglum rétt eftir að kosning í prófkjöri hófst, en viku áður en úrslit látu fyrir. Nefnd innan Pírata sem tók málið fyrir vísaði kærunni frá að lokinni skoðun.
Helgi hættir sáttur
Eins og fram hefur komið ætlar Helgi Hrafn Gunnarsson að segja skilið við Alþingi eftir þetta kjörtímabil. Hann sagði í viðtali við Kjarnann í febrúar að hafði í raun engan áhuga á að vera þingmaður eða ráðherra. Hann sagðist einnig dauðöfunda Jón Þór, sem hafði sagt skilið við þingið eftir tvö kjörtímabil og snúið sér að malbikun og stöðumælavörslu.
Stærsti flokkurinn
Píratar eru að mælast með í kring um 27 prósenta fylgi og hafa verið með mest fylgi í skoðanakönnunum undanfarið. Þó hefur munurinn á fylgi flokksins og Sjálfstæðisflokksins oft reynst ómarktækur, en samkvæmt síðustu Kosningaspá eru Píratar með 27,3 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 23,6 prósent. Sameiginlegt prófkjör Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmin og Kragann fara fram dagana 2. til 12. ágúst. Niðurstöður liggja fyrir 12. eða 13. ágúst.