Sadiq Khan, borgarstjóri í London, hefur kynnt áform borgaryfirvalda í London um að gera Oxford Street alfarið að göngugötu. Umferð vélknúinna ökutækja er þegar takmörkuð á þessari vinsælu verslunargötu í höfuðborg Bretlands á milli sjö á morgnanna og sjö á kvöldin.
Lokunin á Oxford Street mun ná yfir tæpa tvo kílómetra þegar allt er til talið. Gatnaskipulaginu verður breytt í nokkrum skrefum en þegar breytingunum lýkur árið 2020 verður Oxford Street aðeins fyrir gangandi vegfarendur frá Tottenham Court Road og að Marble Arch og Hyde Park. BBC greinir meðal annars frá þessu. Khan er ekki fyrsti borgarstjórinn í London til að leggja þetta til, eins og The Guardian hefur bent á.
Takmörkun á bílaumferð við vinsælustu verslunar- og þjónustugötur er að verða algengari bæði í Evrópu og vestanhafs. Rannsóknir hafa sýnt að lokanir fyrir umferð vélknúinna farartækja glæða verslun og þjónustu við götuna og í næsta nágrenni.
Lokun Oxford Street er hluti af áætlun borgarstjórans til að minnka loftmengun í borginni. Auk þess er öryggi vegfarenda og næði þeirra nefnt sem ástæður. Meira en fjórar milljónir sækja Oxford Street á degi hverjum.
Í Reykjavík hefur helstu umferðargötum gangandi vegfarenda verið lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja á sumrin með verkefninu Sumar götur. Gangandi vegfarendur þurfa þá ekki að gæta sín á umferð bíla frá Vatnsstíg í austri og að Lækjargötu. Í Kvosinni hefur Austurstræti verið lokað fyrir vélknúna umferð frá Lækjargötu og á sumrin er Pósthússtrætið einnig lokað. Slíkt er einnig gert á Þorláksmessu að vetri þegar fjölmargir sækja miðbæinn til að ganga frá síðustu jólainnkaupunum og óska vinum gleðilegra jóla.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2010 er stefnt að því að gera umferð gangandi og hjólandi vegfarenda mun greiðari í borginni. Borgarbúar hafa þegar tekið eftir framkvæmdum við umferðargötur vegna þessa. Um þessar mundir standa til dæmis yfir breytingar á Grensásvegi þar sem þrengt verður að umferð bíla til að gera gangandi og hjólandi vegfarendum auðveldara um vik að komast leiðar sinnar.
Þessar áherslur borgaryfirvalda í Reykjavík hafa hins vegar mætt nokkurri andstöðu. Fáeinir verslunareigendur við Laugaveg og Skólavörðustíg hafa til dæmis lýst áhyggjum sínum um að aðsókn í verslanirnar sé tengd umferð bíla. Þess vegna dragist verslun saman þegar gatan er opnuð fyrir gangandi vegfarendur. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á sambærilegum lokunum og breytingum á verslunargötum í miðborgum benda hins vegar til þess að lokanir fyrir bílaumferð glæði samfélagið, verslun og þjónustu.
Breyting skipulags í miðborgum eins og áætluð er í London og hefur verið reynd í Reykjavík hefur óhjákvæmilega í för með sér breytingar á hegðun vegfarenda og þar af leiðandi á verslanir við göturnar. Við lokanirnar virðast svæðin í kringum verslunargötunarnar glæðast enn frekar með aukinni umferð fólks, hvort sem það eru gangandi eða akandi vegfarendur.
Íslendingar þekkja flestir Strikið, göngugötuna í Kaupmannahöfn. Gatan var fyrst lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja árið 1962 um leið og aukin áhersla var lögð á umferð gangandi og hjólandi vegfarenda í kjarna borgarinnar. Síðan hefur Strikið orðið að helsta aðdráttarafli miðborgarinnar og er áfangastaður bæði ferðamanna og íbúa borgarinnar á degi hverjum. Skipulag Kaupmannahafnar hefur einnig orðið að fyrirmynd annarra borga þegar kemur að aukinni áherslu á umferð gangandi vegfarenda. Árið 2015 var Kaupmannahöfn svo Græna höfuðborg Evrópu.
Slóvenska fyrirmyndin
Fyrir árið 2016 var Ljúblíana, höfuðborg Slóveníu, valin Græna höfuðborg Evrópu. Þær leiðir sem farnar hafa verið þar eru ekki síður áhugverðar því allur gamli bærinn er bíllaus. Þar heyrist hvergi í bílvél í lausagangi, föst í traffík. Aðeins gangandi vegfarendur, hjólreiðamenn og almenningsvagnar fá að fara um gamla bæinn. Og þeir leigubílar sem fá að sækja farþega í gamla bæinn verða að vera rafknúnir.
Þegar borgarstjórinn Zoran Jankóvíts tók við taumunum árið 2006 var það með fyrstu ákvörðunum hans að loka fyrir bílaumferðina. Hann hefur síðan verið endurkjörinn þrisvar sinnum. „Þegar ég tók við vissi ég ekkert um skipulag borgarinnar,“ er haft eftir Jankóvíts á vef Citiscope.org. „Við unnum áætlanirnar okkar eins og við værum að reka fyrirtæki, með skipulag og markmið.“
„Til að byrja með voru þetta erfiðar ákvarðanir,“ segir hann um lokanirnar og segir það hafa verið vegna þess að hann hafði aldrei fullan stuðning til þess. „Átta árum síðar, ef ég þyrfti að spyrja íbúana hvað þeim finndist í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ég viss um að 90 prósent þeirra myndu vilja hafa göturnar lokaðar áfram.“
Nú er svo komið að fleiri höfuðborgir í Evrópu hyggjast loka miðborgum sínum fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Þeirra á meðal eru Osló, Brussel og Madríd sem hyggjast fara að fordæmi Ljúblíana. Slóvenska höfuðborgin hefur reynst góð „rannsóknarstofa“ fyrir þessar skipulagsbreytingar enda er gamli bærinn lítill. Aðeins tekur um 15 mínútur að ganga í gegnum hann miðjan, ekki ósvipað því sem það tekur að ganga frá Lækjargötu að Hlemmi í Reykjavík.
Að fyrirmynd Ljúblíana ætla þær borgir sem hyggjast loka byggja fleiri bílastæði neðanjarðar í jaðri lokaða svæðisins. Því fylgir innviðauppbygging í almenningssamgöngum einnig til að auðvelda ferðir fólks um lokaða svæðið, hvort sem það er með sporvögnum, strætisvögnum eða hjólum til leigu.
Í Osló verður bannað að aka bílum í miðborginni frá og með 2019. Er þetta gert til að draga úr mengun. Stjórnvöld í Osló hafa stært sig af því að verða sú borg sem hyggist ganga hvað lengst í þessum efnum. Til að auðvelda breytingarnar ætlar borgin að leggja meira en 60 kílómetra af hjólastígum og fjárfesta meira í almenningssamgöngum. „Við viljum gera borgina betri fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Það verður betra fyrir verslanir og alla,“ var haft eftir Lan Marie Nguyen Berg, aðalsamningamanns Græningja í Osló.