Donald Trump gekk óvænt á svið á landsþingi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum sem hófst í Cleveland í Ohio-ríki í gær. Trump verður, ef handrit landsþingsins heldur, formlega valinn sem forsetaefni repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember.
Fyrst birtist aðeins skuggamynd af Trump og sviðsmyndin var böðuð í ljósbláu ljósi. Queen-laginu We are the champions var þrumað í hátalarakerfinu. Svo steig Trump fáein skref fram að púltinu þar sem hann ávarpaði landsþingsfulltrúana sem fögnuðu honum ákaft. Ræðan var stutt. „Við ætlum að vinna. Við ætlum að vinna svo stórt. Takk fyrir allir,“ sagði Trump áður en hann kynnti eiginkonu sína, Melaniu Trump á svið.
Melania Trump flutti svo ræðu af lítilli innlifun um gildin sem hún og maðurinn hennar standa fyrir. Ræðan var ótrúlega lík ræðu Michelle Obama, eiginkonu Baracks Obama, sem hún flutti á landsþingi demókrata árið 2008 þegar Obama var valinn forsetaefni í fyrsta sinn. Fjölmiðlar hafa keppst við það í dag að bera saman ræður Melaniu og Michelle og benda á að forsetafrúarefnið hafi raunverulega stolið köflum úr ræðu Michelle Obama.
Melania Trump sagði í viðtali á NBC-sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum áður en hún flutti ræðuna að hún hefði skrifað hana. „[…]með eins lítilli hjálp og var mögulegt.“ Talsmaður kosningabaráttu Trump sagði ræðuhöfunda hennar hugsanlega, og fyrir mistök, hafa fengið að láni ræðubúta.
Á landsþinginu eru 2.472 fulltrúar frá öllum ríkjum. Donald Trump þarf að fá einfaldan meirihluta atkvæða, 1.237 talsins, til þess að hljóta útnefningu flokksins. Margir landsfundarfulltrúanna eru bundnir af forvali flokksins sem þegar hafa farið fram meðal flokksmanna í hverju ríki fyrir sig. Það er hins vegar ekki algild regla enda eru flokksreglur ólíkar milli einstakra ríkja.
Á landsþinginu hafa andstæðingar og stuðningsmenn Trumps hafið deilur um reglur landsþingsins, jafnvel þó aðeins einn dagur fjórum sé liðinn af ráðstefnunni. Nokkur ríki hafa þegar tekið höndum saman um að leyfa flokksfulltrúum þeirra að kjósa eftir eigin samvisku og hundsa niðurstöðu forvalsins í hverju ríki fyrir sig. Donald Trump er ótvíræður sigurvegari forvals repúblikanaflokksins sem haldið hefur verið í öllum ríkjum Bandaríkjanna.
Munnleg atkvæðagreiðsla fór fram um reglur flokksþingsins, svo niðurstaða fengist um það hvort það væri leyfilegt að hundsa forval ríkjanna. Stuðningsmenn Trump stilltu atkvæðagreiðslunni hins vegar þannig upp að ekki var kosið um frelsi fulltrúa ríkjanna til að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu. Það endaði í öskurkeppni milli fylkinga á ráðstefnunni. Þessum leik lauk með ósigri andstæðinga Trump.
„Hillary Clinton er lygari“
Donald Trump sat fyrir svörum í bandaríska fréttaskýringarþættinum 60 mínútur á sunnudag ásamt varaforsetaefninu Mike Pence sem Trump kippti með sér á kosningavagninn í síðustu viku. Pence þessi er eitthvað íhaldssamasta varaforsetaefni sem kynnt hefur verið til sögunnar í bandarískum stjórnmálum. Í viðtalinu í 60 mínútum var augljóst hvernig sambandi þeirra Trump og Pence er háttað. Trump valtaði nánast yfir Pence og svaraði spurningunum sem beindar voru að honum og lagði honum orð í munn. Pence sat vandræðalegur hjá og leyfði fasteignamógúlnum að njóta sín.
Bandarískir fjölmiðlar hafa undanfarna daga kynnt Pence fyrir lesendum sínum; hann er ríkisstjóri í Indianaríki, mjög trúaður og verulega íhaldssamur. Í Indiana hefur Pence til að mynda undirritað umdeild lög sem leyfa fyrirtækjum að hafna viðskiptum við samkynheigt fólk, áður en almenningur fór fram á að hann afturkallaði lögin sem hann svo gerði. Efnahagur Indianaríkis hefur gengið vel undir stjórn Pence, sem hefur lækkað skatta og dregið úr umsvifum stjórnvalda í ríkinu. Trump segist hafa horft sérstaklega til þess árangurs þegar hann valdi sér varaforsetaefni.
Donald Trump lét þung orð falla um Hillary Clinton í viðtalinu. Hann sagði Clinton „bera ábyrgð á því að ISIS sé til“ og að hún væri einfaldlega lygari. „Við þurfum seiglu, við þurfum styrk. Obama er máttlaus. Hillary er máttlaus,“ sagði Trump þegar hann var spurður hvort þeir Pence væru tilbúnir til að takast á við stjórn landsins í því árferði sem nú er.
Fulltrúar á landsþinginu voru hvattir til að óttast Hillary Clinton í gær. Úr ræðupúltinu var ítrekað farið fram á að Clinton yrði einfaldlega handtekin, sem leiddi til þess að fólkið á ráðstefnugólfinu hrópaði „lock her up, lock her up“. Margar ræðurnar fjölluðu einmitt um hvað Clinton, forsetaefni demókrata, hefði gert rangt sem utanríkisráðherra í stjórn Barack Obama.
Það voru ekki aðeins stjórnmálamenn sem fluttu ræður á fyrsta degi landsþingsins í gær. Mæður fórnarlamba skotárása í Bandaríkjunum og mæður fallinna hermanna töluðu einnig. The Guardian greinir frá ræðu Pat Smith, móður eins fjögurra bandarískra hermanna sem féllu í árásinni á Benghazi árið 2012, þar sem hún sagðist kenna Hillary Clinton persónulega um dauða sonar síns. Fleiri ræður fjölluðu um ólöglega innflytjendur.
Landsþingið stendur í fjóra daga. Það hófst í gær, mánudag, og því líkur á fimmtudag með útnefningu Donald Trump sem forsetaframbjóðanda repúblikanaflokksins. Eftir fyrsta daginn var hins vegar ljóst að öfl innan flokksins ætla að reyna hvað þau geta til að velta Trump úr sessi á landsþinginu.