Eftir að Elon Musk seldi internetfyrirtækið PayPal árið 2002 stofnaði hann SpaceX og Tesla Motors. Geimferðafyrirtækið SpaceX hefur þegar náð talsverðum árangri og sinnir nú geimferðum fyrir NASA og er eitt þeirra fyrirtækja sem þjónustar Alþjóðlegu geimstöðina á sporbraut um jörðu. Bílaframleiðandinn Tesla Motors hefur síðan árið 2004 verið leiðandi í þróun og framleiðslu rafbíla í heiminum.
Árið 2006 birti Elon Musk „leynilega 10 ára áætlun“ á vef Tesla. Markmiðin þar voru fjögur og hafa þau öll verið uppfyllt. Hægt er að lesa þennan tíu ára gamla bloggpóst á vefnum. Í vikunni sem leið birti Musk svo „annan hluta leynilegu aðaláætlunarinnar“ sem á að gilda næstu tíu árin.
„Listin yfir bandaríska bílaframleiðendur sem hafa ekki orðið gjaldþrota hefur tvö atriði: Ford og Tesla,“ skrifar Musk í nýjustu bloggfærslunni sinni. „Að setja bílafyrirtæki á legg er heimskulegt og að stofna rafbílafyrirtæki er heimskulegt í öðru veldi.“ Markmiðið með þessum bloggpóstum segir Musk vera að útskýra hvernig Tesla á að passa inn í framtíðina. Markmiðið með Teslu sé að hraða þróun í átt að aukinni sjálfbærri orkunotkun.
Hér að neðan hafa verið tekin saman lykilatriði í áætluninni sem Tesla mun starfa eftir næsta áratuginn.
Sjálfbær orkunotkun heimila
Elon Musk hefur þegar byrjað að prófa nýja tækni á sínu eigin heimili. Þar er hann búinn að koma fyrir sérstakri Tesla-rafhlöðu í bílskúrnum hjá sér og þekja þakið sitt með sólarrafhlöðum sem framleiða rafmagn til heimilisnota. Tæknin er enn í þróun en Musk segir hönnun þaksins á húsinu hans koma í veg fyrir að hann þurfi ennþá að tengjast hefðbundnum raforkustrengjum.
Markmið Tesla verður að koma þessu í almenningseign. Þannig geti heimili fólks orðið sjálfbær með raforku. Hvort sem það verður til að rista brauð, horfa á sjónvarpið eða hlaða bílinn. Í blogginu segir að umhverfis allan heiminn eigi að vera hægt að panta græjurnar í gegnum eina vefsíðu, að aðeins þurfi að setja kerfið upp einu sinni, að einn tengiliður verði fyrir hvern og einn og bara eitt app til að stýra öllu.
Til þess að þetta geti orðið að veruleika er stefnt að því að sameina Teslu og sólarsellufyrirtækið SolarCity sem Musk tók þátt í að stofna árið 2006.
Fjölbreyttari rafökutæki
Eins og er þá hefur Tesla aðeins ráðist inn á sportbíla- og jepplingamarkaðinn með bíltegundum sínum. Á næstu tíu árum er markmiðið að framleiða fleiri gerðir bíla. Þegar hefur verið ráðgert að smíða pallbíll sem skartar merkjum Tesla. Í bloggfærslunni stefnir Musk að því að framleiða líka vöruflutningabíla, rútur, almenningssamgönguvagna og allt þar á milli.
En til þess að það sé hægt hefur Musk komist að því að Tesla þurfi að breyta verksmiðjum sínum úr því að vera aðeins það — verksmiðjur — í að verða söluvaran. Til þess að þetta gangi upp verður að auka afkastagetuna allt að tífallt fyrir árið 2022. Þá fyrst geti Tesla-bifreiðar orðið nógu ódýrar svo almenningur sjái hag í að kaupa slíka bíla.
Bílar sem aka sjálfir verði tífallt öruggari
Sjálfakandi bílar hafa þegar verið sendir út á göturnar. Google hefur til dæmis náð miklum árangri með sjálfakandi hugbúnaðinn sinn og sýnt fram á að tölvur eru raunverulega mun öruggari bílstjórar en mannfólkið sjálft. Þeir sem hafa keypt sér nýjan bíl nýlega hafa að öllum líkindum einnig upplifað bílinn taka stjórnina við vissar aðstæður. Bílarnir eru farnir að hjálpa þér við að stýra, bremsa og láta þig vita þegar þú ert að bakka á staur eða næsta bíl.
Á næstu tíu árum ætlar Tesla að gera sjálfstýringuna tíu sinnum öruggari en mennska ökumenn. Musk telur að sjálfstýrðir Tesla-bílar muni þurfa að aka sjálfir um 10 milljarða kílómetra til þess að heimurinn taki slíka bíla í sátt. Það mun taka fimm og hálft ár á þeim hraða sem áætlunin er á núna.
Leyfum bílnum að búa til peninga
Samkvæmt könnun sem gerð var af félagi bifreiðaeigenda í Bandaríkjunum í fyrra notar hinn almenni bílaeigandi bílinn sinn að jafnaði í 46 mínútur á dag. Á milli þess sem að bíllinn er í notkunn stendur hann oftar en ekki yfirgefinn á bílastæði í stórborg. Tesla hyggist bjóða upp á þjónustu þar sem bíllinn getur verið í notkunn lengur á dag. Og búið til peninga fyrir eigandann í leiðinni.
Þegar sjálfstýring bíla verður loks leyfð af yfirvöldum og ekki háð undanþágum til tilrauna, mun verða hægt að senda bílinn hingað og þangað farþegalausan. Bíllinn gæti þess vegna verið heima hjá þér á meðan þú ert í vinnunni. En hann gæti líka verið að sinna öðrum sem þurfa að komast á milli staða.