2. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, þá verðandi forsætisráðherra, tilkynntu á tröppum Alþingis þann 6. apríl síðastliðinn að ríkisstjórnin hafi ákveðið að vinna áfram saman, en stíga viðbótarskref til að „virkja lýðræðið og koma til móts við stöðuna“ sem hafði myndast eftir Panamaskjölin.
„Við hyggjumst stefna að því að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust. Nákvæm dagsetning veltur á framvindu þingmála,“ sagði Bjarni þá.
Í síðustu viku, í þetta sinn á tröppunum á Bessastöðum fyrir síðasta ríkisráðsfund, sagði Bjarni: „Þegar við endurnýjuðum samstarf flokkanna í vor þá urðu breytingar í ríkisstjórninni og við boðuðum á sama tíma að við ætluðum að ljúka ákveðnum verkefnum og síðan ganga til kosninga. Ég sé ekki að neitt hafi breyst í þeim efnum og sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að koma í veg fyrir það að við getum kosið seint í október, sem er dagsetning sem nefnd hefur verið oft í þessu sambandi.“ Stjórnarsamstarfið hafi verið endurnýjað á þessum forsendum og þær hafi ekki breyst.
3. Að minnsta kosti 11 stjórnmálaflokkar ætla að bjóða fram í komandi kosningum: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Píratar, Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð, Viðreisn, Dögun, Flokkur fólksins, Alþýðufylkingin og Íslenska þjóðfylkingin. Af þessum eru þrír flokkar nýir: Viðreisn, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin. Píratar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking halda prófkjör til að raða á lista. Framsóknarflokkur er nú í vinnu við að ákveða aðferðarfræði, en í Reykjavík verður haldið tvöfalt kjördæmisþing til að velja á lista. Vinstri græn og Björt framtíð stilla upp, sem og flestir aðrir flokkar sem boðað hafa framboð.
4. Framsóknarflokkurinn missir flesta þingmenn burt eftir kosningar af þeim flokkum sem sitja nú á Alþingi. Að minnsta kosti 15 þingmenn hafa sagst ætla að hætta eftir þetta kjörtímabil og eru þeir flestir hjá Framsóknarflokknum, eða sex. Þar á meðal eru Frosti Sigurjónsson, Sigrún Magnúsdóttir, Haraldur Einarsson, Vigdís Hauksdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Katrín Júlíusdóttir og Kristján Möller hjá Samfylkingu ætla að segja skilið við þingið, sem og Ögmundur Jónasson í Vinstri grænum. Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir ætla ekki að gefa kost á sér áfram fyrir Bjarta framtíð og Helgi Hrafn Gunnarsson í Pírötum heldur líka á önnur mið. Blóðtakan er töluverð hjá Sjálfstæðisflokknum, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir ætla öll að kveðja þingið.
5. En maður kemur í manns stað og nú koma fram nýjar tilkynningar um einstaklinga sem ætla að gefa kost á sér nánast daglega. Framboðslisti Pírata er orðinn afar langur, nærri 140 manns, þar af eru yfir 100 í höfuðborgarkjördæmi. Meðal þeirra sem bjóða sig fram í prófkjöri Pírata eru Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs flokksins, Seth Sharp skemmtikraftur, Heimir Örn Hólmarsson forsetaframbjóðandi, og Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður. Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, og Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, íhuga báðar framboð fyrir Samfylkingu og meðal þeirra sem gefa kost á sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins.
6. Ef kosið yrði til Alþingis í dag mundu Sjálfstæðisflokkur og Píratar fá um 26 prósenta fylgi, samkvæmt nýjustu kosningaspá. Vinstri græn eru væru með 16 prósent, Framsóknarflokkur, Samfylking og Viðreisn væru með 8,7 prósent. Björt framtíð mælist með 3,9 prósent og aðrir með þrjú prósent.
7. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sögðu allar við Kjarnann í síðustu viku að þær útilokuðu samstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir komandi kosningar. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, talsmaður Viðreisnar, vildu hins vegar ekki útiloka samstarf við neinn.
8. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að það sé fráleitt að ákveða kjördag áður en þing kemur saman. Hann hefur undirstrikað að ljúka verði „stórum málum“ áður en þingi er slitið. Í sama streng hafa margir samflokksmenn hans tekið, eins og Kjarninn greindi frá í sumar. Sigmundur hefur ákveðið að halda sig í norðausturkjördæmi og bjóða fram þar, hvenær svo sem kosningarnar verða.
9. Samkvæmt stjórnarskránni verða kosningar að fara fram innan 45 daga frá þingrofi. Ef þing verður rofið eins seint og mögulegt er, sem er 12. september næstkomandi, verður kosið í síðasta lagi 27. október. Kosningar verða að vera 22. október ef haldið verður í þá hefð að kjósa á laugardögum.
10. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sagt opinberlega að það eigi að kjósa til Alþingis í haust. Hann hefur rætt við forsætisráðherra um málið og setti enga fyrirvara á haustkosningar í ræðu sinni þegar hann tók við embætti síðastliðinn mánudag.