Donald Trump, forsetaframbjóðenda repúblikana í Bandaríkjunum, átti slæma viku í vikunni sem leið. Hann varð uppvís af röð atvika sem komu honum illa. Honum tókst að kasta grátandi barni á dyr á kosningafundi, réðst að foreldrum bandarísks hermanns sem féll í bardaga og lét furðuleg ummæli falla um átökin í Úkraínu sem voru aðeins til þess fallin að sýna vanþekkingu Trump á alþjóðamálum. Og varaforsetaefnið Mike Pence komst í klandur þegar ellefu ára drengur spurði hann erfðra spurninga.
Trump reyndi svo að klóra í bakkann í lok viku og samþykkti loks að styðja við Paul Ryan, forseta bandaríska þingsins og einn æðsta mann innan Repúblikanaflokksins. Áður hafði hann sagst ekki geta stutt við Ryan og John McCain, fyrrverandi forsetaframbjóðanda flokksins. Hér hafa opinberir atburðir aðeins verið taldir til. Bak við tjöldin virðist spilaborgin vera að hrynja í kringum forsetaframbjóðandann einnig.
Kosningaspálíkönin eru farin að sýna flan Trumps svart á hvítu: Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, er mun líklegri til að standa uppi sem sigurvegari en Donald Trump þegar hér er komið við sögu og enn rúmlega þrír mánuðir til kosninga. Staðan er raunverulega orðin þannig í spáritum fyrir kosningarnar vestanhafs að ef Donald Trump væri til uppboðs í kauphöllinni á Wall Street væri öllum hluthöfum ráðlagt að „selja, selja, selja!“.
Á vefnum FiveThirtyEight.com má finna kosningaspá Nate Silver. Hún er ekki ósvipuð því kosningaspálíkani sem Kjarninn birtir hér á landi, enda er kosningaspá Silver fyrirmynd kosningaspár Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Þegar þetta er skrifað eru 81,5 prósent líkur á að Hillary Clinton verði forseti Bandaríkjanna eftir kosningarnar í byrjun nóvember. Líkurnar sem kosningaspáin gefur Donald Trump eru 18,4 prósent. Það skal áréttað að hér eru taldar til líkurnar á því hver standi uppi sem sigurvegari en ekki hversu mikið fylgi hver frambjóðandi mælist með.
Þetta þykir nokkuð mikill munur enda hefur hann orðið til á mjög skömmum tíma. Við mánaðamótin var munurinn á Clinton og Trump sára lítill: Taldar voru 50,1 prósent líkur á að Clinton yrði forseti og 49,9 prósent líkur á að Trump hreppti embættið. Á réttri viku hefur staðan breyst ævintýralega.
Þessi hraða þróun hefur orðið til þess að fréttaskýrendur vestanhafs hafa velt upp þeim möguleika að Donald Trump hætti á endanum við allt saman. Donald Trump muni sjá sæng sína upp reidda og draga sig í hlé vegna þess að það muni aðeins kosta hann peninga að halda áfram án nokkurs ávinnings.
Æðstu herrar í Repúblikanaflokksins eru jafnvel byrjaðir að velta fyrir sér möguleikunum ef svo fer að Trump hætti við. Slíkt væri óhugsandi í venjulegri kosningabaráttu en nú eru forvígismenn orðnir pirraðir á óútreiknanlegri hegðun frambjóðandans.
Í veðbönkum er farið að sjá merki þess að Repúblikanar muni eiga erfitt uppdráttar með Trump í forsætinu. Á vef The New York Times er rýnt í veðbankana og þeir sagðir með áreiðanlegustu kristalskúlum í þessum efnum því „þegar peningar eru í húfi muni fólk yfirleitt gefa ósvikið svar við spurningunum sem lagðar eru fyrir“. Hjá Betfair er repúblikönum gefnar 25,8 prósent líkur á því að komast yfir forsetaembættið. Donald Trump er hins vegar gefnar 24,1 prósent líkur á að verða forseti. Hér er hrópandi ósamræmi í tölunum.
Donald Trump er eins og allir vita ólíkindatól. Hefðbundnir repúblikanar hafa reynt allt til að hindra leið hans. Þeir mokuðu peningum í kosningabaráttu Jeb Bush í forvali flokksins, réðust í auglýsingaherferð þar sem þeir sögðu hann ekki vera raunverulegan íhaldsmann og þeir bjuggu til hashtagg á samfélagsmiðlum. Ekkert hefur virkað. En nú eygja þeir möguleika enn á ný.
Hugmyndin er auðvitað langsótt og, í allri hreinskilni, ólíklegt að spilin raðist þannig á hendur íhaldssamra repúblikana. En sé möguleikinn skoðaður gaumgæfilega þarf að athuga ýmislegt áður: Nokkuð í líkingu við þetta hefur aldrei skeð áður, Trump myndi með því að hætta viðurkenna ósigur og sé litið til fylgiskannanna þá virðist Trump ekki vera svo mörgum prósentustigum á eftir Clinton í kapphlaupinu.
Það má einnig ímynda sér ástæður fyrir því að Trump vilji gefast upp. Hann hefur aldrei áður verið eins mikið undir smásjá fjölmiðla. Hann gæti hugsað sér að þetta væri ekki þess virði ef hann er að fara að tapa á annað borð og kasta sér af lestinni. Slík hefur hann auðvitað gert áður; Fréttir af gjaldþrotum fyrirtækja hans eru þekktar.
Hann gæti einnig talið sér trú um að nú væri hans verkefni lokið. Hann, besti viðskiptamaður í heimi, væri búinn að kynna sig í bestu kosningaherferð í sögu Bandaríkjanna og nú væri komið að öðrum að taka við. Svo gæti hann auðvitað spunnið sögu um að hann hafi verið svikinn af óvinum sínum í flokknum.
Ef Trump ákveður að hætta er hins vegar næsta víst að Hillary Clinton verði kjörinn forseti. Í reglum Repúblikanaflokksins segir að ef frambjóðandi sem landsþing hefur valið hættir við framboðið þá sé það kjörmanna úr öllum ríkjum að kjósa nýjan frambjóðanda. Slíkt hljómar auðvelt í framkvæmd en ringulreiðin sem mundi skapast fyrir utan þennan fund kjörmannanna yrði eflaust óyfirstíganleg. Hver ætti að taka þetta verkefni að sér? Paul Ryan mun eflaust ekki láta sér detta það í hug. Mike Pence, varaforsetaefnið, verður að öllum líkindum sjálfgefinn kostur.
Það er mikilvægt að árétta að Trump hefur ekki gefið neitt upp um það hvort hann ætli að hætta við framboðið. Hann hugsar eflaust enn að hann geti unnið. En það má víst ekki útiloka neitt þegar Donald Trump er annars vegar. Það er ekki eins og hann hafi verið að gera hlutina eftir bókinni.